Kynrænt sjálfræði
Lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi.
Réttur til hlutlausrar kynskráningar
Samkvæmt lögunum nýtur fólk frá 15 ára aldri óskoraðs réttar til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Börn yngri en 15 ára geta breytt kynskráningu sinni í þjóðskrá með stuðningi forsjáraðila sinna en ef þau njóta hans ekki geta þau lagt ósk um breytingu fyrir sérfræðinefnd og breytt kynskráningu ef nefndin fellst á það. Með gildistöku laganna var sú skylda lögð á opinbera aðila og einkaaðila, sem skrásetja kyn, að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, t.d. á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum.
Réttur til líkamlegrar friðhelgi
Óheimilt að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklinga sem eru 16 ára eða eldri án skriflegs samþykkis þeirra. Til 18 ára aldurs þarf jafnframt að liggja fyrir mat sérstaks teymis barna- og unglingageðdeildar um kynvitund, skv. 13. gr. laganna, áður en breytingar eru gerðar.
Börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni njóta réttar til líkamlegrar friðhelgi í tengslum við kyneinkenni sín og eiga rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita. Við framkvæmd lag um kynrænt sjálfræði skal gætt að sjálfsákvörðunarrétti þeirra um persónuleg málefni.
Varanlegar breytingar á kyneinkennum barns sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni skulu einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins.
Séu börn undir 16 ára aldri ófær um að veita samþykki sökum ungs aldurs eða ófær um að gefa til kynna vilja sinn af öðrum sökum er heimilt að breyta varanlega kyneinkennum þess ef heilsufarslegar ástæður krefjast, að undangengnu ítarlegu mati á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra til skemmri og lengri tíma. Félags-, sálfélags- og útlitslegar ástæður teljast ekki heilsufarslegar.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Stofnanir
Úrskurðarnefndir
Samráðsvettvangur um jafnrétti kynjanna
Áhugavert
Löggjöf um jafnrétti
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.