Viðurkenning fræðsluaðila
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer með málefni framhaldsfræðslu skv. lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Fræðsluaðilar í framhaldsfræðslu eru viðurkenndir á grundvelli 7. gr. laganna og jafnframt gildir um þá reglugerð um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011. Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur falið mennta- og barnamálaráðuneytinu að veita fræðsluaðilum viðurkenningu til þess að annast framhaldsfræðslu.
Fræðsluaðili sem veitir framhaldsfræðslu getur sótt um viðurkenningu til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Í viðurkenningu felst staðfesting á því að starfsemi fræðsluaðila uppfylli almenn skilyrði laganna og reglna sem settar eru með stoð í þeim, á þeim tíma sem viðurkenning er veitt. Hún felur ekki í sér skuldbindingu um fjárframlög úr ríkissjóði til viðkomandi fræðsluaðila eða ábyrgð á skuldbindingum hans. Þá veitir hún nemendum ekki sjálfkrafa rétt til fyrirgreiðslu úr Menntasjóði námsmanna.
Birtur er listi yfir þá fræðsluaðila í framhaldsfræðslu sem hlotið hafa formlega viðurkenningu skv. 7. gr. laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010.
Um framhaldsfræðslu og fyrir hverja hún er
Framhaldsfræðsla er hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem er ætlað að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla, þ.e. einstaklinga sem hafa hætt námi í formlega skólakerfinu áður en skilgreindum námslokum var náð.
Bjóði fræðsluaðili jafnframt upp á fræðslu fyrir börn og ungmenni í starfsemi sinni er því nauðsynlegt að í umsókn sé eingöngu fjallað um þann hluta sem viðurkenning getur tekið til, þ.e. framhaldsfræðslu.
Umsókn um viðurkenningu fræðsluaðila
Við afgreiðslu umsókna er gengið úr skugga um að starfsemi viðkomandi fræðsluaðila uppfylli einstaka þætti skilyrða laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og reglugerðar um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011.
Mikilvægt er að umsækjandi kynni sér öll skilyrði laga og reglna um starfsemi fræðsluaðila áður en sótt er um viðurkenningu. Þá er nauðsynlegt að öllum tilskildum fylgiskjölum sé skilað með umsókn, hvort sem um nýja umsókn er að ræða eða endurnýjun.
Umsókn og fylgigögnum skal skilað í tölvupósti á [email protected] og skal berast frá eiganda eða stjórn fræðsluaðila.
Umsókn um endurnýjun viðurkenningar ásamt fylgigögnum skal senda til ráðuneytisins að lágmarki þremur mánuðum áður en hún rennur út.
Upplýsingar með umsókn og fylgiskjöl
Í umsókn skal gera grein fyrir eftirtöldum þáttum og leggja fram viðeigandi gögn.
- Upplýsingar um umsækjanda
Nafn og kennitala umsækjanda ásamt lýsingu á rekstrarformi. Umsækjandi skal vera að forminu til sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða starfa samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Viðurkenning er gefin út á nafn og kennitölu umsækjanda. - Stjórnskipan fræðsluaðila
Lýsing á stjórnun, m.a. skipurit, kjörin stjórn, stjórn daglegrar starfsemi, fagstjórn, fjármálastjórn o.þ.h. - Menntun og reynsla stjórnenda
Upplýsingar um menntun og reynslu stjórnenda. - Innra gæðakerfi og sjálfsmat fræðsluaðila
Lýsing á innra gæðakerfi og sjálfsmati fræðsluaðila og hvernig það fullnægir skilyrðum IV. kafla laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, um mat og eftirlit með gæðum framhaldsfræðslu. - Kröfur til þeirra sem annast kennslu og ráðgjöf
Upplýsingar um kröfur til þeirra sem annast kennslu og ráðgjöf, þ.e. menntun þeirra, hæfni og starfsreynslu. - Meginmarkmið í starfsemi fræðsluaðila
Lýsing á meginmarkmiðum í starfsemi umsækjanda sem verður að uppfylla ákvæði 2. gr. laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu og skilyrði laganna um skipulag náms og kennslu, aðstöðu og rekstur.
Þetta felur m.a. í sér lýsingu á helstu áherslum í fræðslustarfsemi umsækjanda, námskrám og skipulagi náms, námsframboði og skilgreindum námslokum, náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimati o.fl. Enn fremur sérstöðu eða sérkennum starfseminnar og áætlaðri þörf fyrir hana svo og hvaða markhópi starfseminni er einkum ætlað að þjóna. - Fyrirkomulag kennslu og námsmats
Lýsing á fyrirkomulagi kennslu, kennsluaðferðum og námsmati sem beitt er hjá fræðsluaðilanum (t.d. hvort nám sé staðbundið, fjarnám, verklegt o.s.frv.). - Námslok
Lýsing á hvers konar staðfestingu eða viðurkenningu nemendur fá að námi lokni. Fari kennsla fram samkvæmt staðfestum námsskrám þarf jafnframt að koma fram lýsing á hvaða hæfniþrepi námslokin eru staðsett - Nemendabókhald
Lýsing á nemendabókhaldi, m.a. hvernig skráningu og upplýsingum um nám og námsferil nemenda er háttað. Fræðsluaðila ber að varðveita upplýsingar um það nám sem nemendur hafa lagt stund á og lokið og að veita þeim aðgang að þeim, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 27/2010. Í umsókn skal því lýst hvernig fræðsluaðili mun tryggja nemendum aðgang að upplýsingum um námsferil eftir að námi lýkur. - Réttindi og skyldur nemenda
Upplýsingar um hvernig réttindi og skyldur nemenda eru skilgreind og að réttur þeirra sé tryggður í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. - Meðferð ágreiningsmála
Lýsing á leiðum sem nemendur og starfsmenn hafa til að leita réttar síns telji þeir á sér brotið. - Upplýsingar um húsnæði
Umsókn þarf að fylgja lýsing á aðstöðu, þ.e. húsnæði fræðsluaðila og aðbúnaði ásamt lýsingu á aðgengi fatlaðra og annarri sérhæfðri aðstöðu sem starfsemin kann að krefjast.
Jafnframt skulu fylgja umsókn vottorð yfirvalda heilbrigðis- og brunamála.
Vottorð heilbrigðisyfirvalda: leggja skal fram starfsleyfi og nýjustu niðurstöðu reglubundins eftirlits heilbrigðiseftirlits.
Vottun slökkviliðs: leggja þarf fram jákvæða umsögn slökkviliðs um eldvarnir. Þetta á við um allt það húsnæði sem umsækjandi notar til reglubundinnar kennslustarfsemi.
Umsögn slökkviliðs skal ekki veri eldri en 6 mánaða gömul.
Bent er á að það getur tekið talsvert langan tíma að uppfylla kröfur slökkviliðs og þarf því að sækja um umsögn slökkviliðs tímanlega.
Eigandi og/eða forráðamaður húsnæðisins þarf að sjá til þess að húsnæði uppfylli kröfur í samræmi við reglugerð nr. 723/2017 um eldvarnir og eldvarnaeftirlit. - Upplýsingar um fjárhag
Umsækjendur skulu fylla út Excel-skjalið „Yfirlit yfir fjárhag umsækjenda“ og Word-skjalið „Greinargerð um fjárhag umsækjanda“ og láta fylgja umsókninni. Mikilvægt er að vanda vel til verka við útfyllingu skjalanna og ber að skila að skila þeim hvort sem sótt er um nýja viðurkenningu eða endurnýjun.
Með umsókninni skulu einnig fylgja:
- Ársreikningar síðustu þriggja ára
- Rauntölur líðandi árs
- Rökstudd fjárhagsáætlun fyrir næstu þrjú ár
Fjárhagsáætlunin skal vera rökstudd og samanburðarhæf við tölur í ársreikningum. Hver fjárhagsáætlun skal endurspegla raunhæfar áætlanir fyrir hvert ár. Ef þurfa þykir, má krefjast bankatryggingar af fræðsluaðila.
Út frá þessum gögnum verður m.a. metið:
- Fjárhagsleg ábyrgð
- Fjármögnun starfseminnar
- Fjárhagslegt rekstraröryggi
- Hvort nemendur geti lokið námi sínu
Nýir fræðsluaðilar sem hefja starfsemi og sækja um viðurkenningu skulu sundurliða áætlanir um rekstur sérstaklega vel. Fyrsta viðurkenning gildir í eitt ár og skal fjárhagsáætlun því ná yfir líðandi ár og næsta ár. Í stað ársreikninga skulu stofnskjöl, svo sem samþykktir, skipulagsskrá o.þ.h., auk staðfestingar á greiðslu stofnframlags/hlutafjár og skuldbindinga eigenda fylgja umsókninni. Fylla þarf út fyrrgreind Excel- og Word-skjöl eins og mögulegt er.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.