Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema
Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema starfar samkvæmt 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 og samkvæmt reglum númer 550/2020. Hún fjallar um kærur og kvartanir námsmanna/stúdenta í háskólum á hendur skólunum vegna málsmeðferðar og/eða ákvarðana um þeirra mál.
Kærandi fyllir út rafrænt eyðublað á minarsidur.stjr.is.
Netfang nefndarinnar er kaerumalhaskolanema@hvin.is.
Hverju má skjóta til áfrýjunarnefndar?
Hægt er að beina erindi til áfrýjunarnefndarinnar vegna hvers konar ákvarðana, úrlausna, málsmeðferðar, háttsemi og framkomu af hálfu aðila innan háskóla sem fást við stjórnsýslu. Beiðni um úrskurð verður að varða tilgreinda ákvörðun um réttindi eða skyldu nemenda en beiðni um álit getur varðað hverja þá málsmeðferð sem skriflegt erindi nemenda hefur fengið.
Úrskurðir
Áfrýjunarnefndin úrskurðar í málum þar sem námsmenn í ríkisháskólum og öðrum háskólum telja brotið á rétti sínum um:
- framkvæmd prófa og námsmats, þ.m.t. fyrirlögn prófa, tilhögun einkunnagjafar, skipun prófdómara og birtingu einkunna,
- mat á námsframvindu, þ.m.t. rétt til endurtökuprófs,
- afgreiðslu umsókna um skólavist, þ.m.t. tilhögun mats á námi á milli skóla,
- brottvikningu nemanda úr skóla og beitingu annarra agaviðurlaga.
Áfrýjunarnefndin getur með úrskurði sínum staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir háskóla í þessum málum. Úrskurðir áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.
Einkunnir og prófúrlausnir
Áfrýjunarnefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara og getur því ekki úrskurðað um að tiltekinn nemandi skuli hljóta ákveðna einkunn í tilteknu námskeiði. Nefndin getur heldur ekki gefið út prófskírteini eða beint tilmælum um slíkt til háskóla.
Álit
Áfrýjunarnefndin getur veitt álit sitt á því hvort málsmeðferð háskóla á skriflegu erindi nemenda hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti, óháð því hvort ákvörðun hafi verið tekin í málinu af háflu skólans. Álitið er þó ekki bindandi með sama hætti og úrskurðir.
Úrskurður og álit
Nemandi getur gert kröfu um hvort tveggja að áfrýjunarnefndin staðfesti, breyti eða felli úr gildi ákvörðun og láti í ljós álit sitt á því hvort málsmeðferð háskóla á skriflegu erindi nemenda hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.
Skilyrði
a. Úrskurður: Áður en hægt er að skjóta máli til áfrýjunarnefndar verður endanleg niðurstaða viðkomandi háskóla að liggja fyrir, þ.e. að kæruleiðir innan skólans hafi verið tæmdar. Þá þarf beiðni um úrskurð að vera skrifleg og hafa nægilegar upplýsingar til að hægt sé að fjalla um málið.
b. Álit: Nemandinn verður að hafa lagt fram skriflegt erindi til skólans enda sé óskað eftir áliti áfrýjunarnefndar á málsmeðferð skólans á því erindi.
Hver má kvarta?
Ekki er nauðsynlegt að lögmaður beri fram kvörtun fyrir hönd þess, sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu háskóla. Þeir sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta geta ekki beint erindi til áfrýjunarnefndar. Ef maður ber fram kvörtun fyrir hönd annars manns verður skriflegt umboð þess að fylgja.
Kröfur til nefndarmanna og skipan nefndarinnar
Skv. reglum um áfrýjunarnefnd háskólanema skal nefndarfólk allt uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara og hafa starfsreynslu af úrlausn stjórnsýslumála. Í nefndinni skal vera til staðar þekking og reynsla af akademísku starfi á háskólastigi. Nefndin starfar í tvö ár.
Menntamál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.