Hoppa yfir valmynd

Flugstefna

Samhliða samgönguáætlun 2020-2034, sem samþykkt var á Alþingi 29. júní 2020, var kynnt fyrsta flugstefna Íslands. Tilgangur með mótun flugstefnu er að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi og styður vöxt hennar.

Markmið stefnunnar er m.a. að efla innanlandsflug sem hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum. Innanlandsflugið er nú hluti af almenningssamgangnakerfi landsins. Eitt af því sem flugstefnan felur í sér er skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi og að stutt verði við möguleika á fleiri hliðum inn til landsins til að fjölga svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.

Lykilviðfangsefni nýrrar flugstefnu

  1. Viðhalda og styrkja grundvöll fyrir sterkan íslenskan flugrekstur þar sem skilvirkni, þjónusta, hagkvæmni og öryggi eru meginstef.
  2. Veita áfram flugleiðsöguþjónustu í fremstu röð á Norður-Atlantshafi og vinna að aukinni skilvirkni þjónustunnar.
  3. Byggja á þeim árangri sem náðst hefur í flugöryggismálum og nýta allar leiðir til að stuðla áfram að auknu flugöryggi.
  4. Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum flugs og flugtengds rekstrar. Greiða fyrir orkuskiptum á sviði flugsamgangna samfara tækniþróun og stuðla að uppbyggingu nauðsynlegra innviða vegna þeirra.
  5. Keflavíkurflugvöllur verði áfram megin alþjóðaflugvöllur landsins. Innviðir þar greiði fyrir öflugu millilandaflugi, þar með talið alþjóðlegu tengiflugi.
  6. Skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi. Stutt við möguleika á fleiri hliðum inn til landsins til að fjölga svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.
  7. Byggja upp innviði alþjóðaflugvalla landsins með áherslu á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli. Egilsstaðaflugvöllur sé í forgangi að því leyti. 
  8. Tryggja einfaldar, auðveldar og þægilegar tengingar milli allra þátta almenningssamgöngukerfisins með áherslu á að tengja innanlandsflug við aðra hluta samgöngukerfisins, þ.m.t. millilandaflugið. 
  9. Íbúum á landsbyggðinni auðveldaður aðgangur að miðlægri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu í innanlandsflugi með hagkvæmari hætti.
  10. Vinna að því að menntun í flugi og flugtengdum greinum verði hluti af opinberu menntakerfi. Stuðla að frekari rannsóknum háskólasamfélagsins í þágu flugs og flugtengdrar starfsemi. Bæta söfnun tölfræðiupplýsinga á sviði flugs og flugrekstrar hérlendis.
  11. Vinna að undirbúningi og uppbyggingu aðstöðu fyrir einka- og kennsluflug utan höfuðborgarsvæðisins. Metin þörf á lendingarstöðum með hliðsjón af öryggishlutverki þeirra.
  12. Flugvernd verði áfram tryggð hér á landi.

Loftbrú fyrir landsbyggðina

Ein nýjung sem flugstefnan boðar er að íbúar á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni eigi kost á lægri flugfargjöldum til borgarinnar. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, þrjár ferðir á ári. Verkefnið er hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og um er að ræða mikilvægt skref til að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Markmiðið með Loftbrú er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Afsláttarkjörin koma þeim til góða sem vilja nýja margvíslega þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini. Loftbrú er ætluð fólki í einkaerindum til höfuðborgarinnar en ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar vinnuferðir.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta