Frumvörp til breytinga á skipulagi samkeppnisyfirvalda og neytendamála.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 21/2004
Samkeppniseftirlitið, Neytendastofa og talsmaður neytenda
Með hliðsjón af niðurstöðu nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi hefur viðskiptaráðuneytið unnið drög að frumvörpum til breytinga á skipulagi samkeppnisyfirvalda og neytendamála.
Niðurstaða nefndarinnar var sú að nauðsynlegt væri að efla eftirlit með samkeppnishömlum á markaði. Þetta yrði best gert með því að gera störf samkeppnisyfirvalda skilvirkari og veita meira fjármagni til þeirra. Jafnframt lagði nefndin til að þau verkefni er lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði ekki unnin í sömu stofnun og þau verkefni sem snúa sérstaklega að samkeppnismálum.
Helstu atriði frumvarpsdraganna eru eftirfarandi:
Ný stofnun, Samkeppniseftirlitið, verður sett á fót og er henni ætlað að taka við verkefnum samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar. Þá verður sérstök þriggja manna stjórn sett yfir Samkeppniseftirlitið en samkeppnisráð lagt niður.
Þau verkefni Samkeppnisstofnunar sem lúta að óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins sameinast Löggildingarstofu í nýrri stofnun, Neytendastofu. Með breytingunni er ætlunin að leggja meiri áherslu á neytendamál. Gert er ráð fyrir að í tengslum við Neytendastofu verði starfrækt sérstakt embætti talsmanns neytenda.
Drög að frumvarpi til samkeppnislaga, frumvarpi um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins og frumvarpi um Neytendastofu og talsmann neytenda hafa verið sett á vefsíðu viðskiptaráðuneytisins, viðskiptaraduneyti.is. Umsagnir um drögin skulu berast: bréflega (Viðskiptaráðuneytið, Arnarhvoli, 150 Reykjavík), á faxi (562 1289); eða í tölvupósti ([email protected]) eigi síðar en föstudaginn 8. október nk.
Reykjavík,1. október 2004.
Frumvarp til samkeppnislaga (pdf-skrá, 279Kb)
Frumvarp um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins (pdf-skrá, 155Kb)
Frumvarp um Neytendastofu og talsmann neytenda (pdf-skrá, 113Kb)