Hoppa yfir valmynd

Framlög

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veitir sveitarfélögum framlög til jöfnunar á mismunandi tekjumöguleikum þeirra og útgjaldaþörf ásamt því að greiða lögbundin framlög til samtaka og stofnana sveitarfélaga.

Á grundvelli reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er framlögum sjóðsins skipt í bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla og jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðra.

Hér að neðan gefur að líta þær tegundir framlaga sem veittar eru úr Jöfnunarsjóði ásamt tilvísunum í reglugerðir sem framlögin byggjast á.

Bundin framlög

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir bundin framlög til eftirtalinna samtaka og stofnana sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laga:

  • Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Landshlutasamtaka sveitarfélaga
  • Innheimtustofnunar sveitarfélaga
  • Eftirlaunasjóðs
  • Húsafriðunarsjóðs

Sérstök framlög

Sérstökum framlögum er úthlutað úr Jöfnunarsjóði til eftirfarandi verkefna:

Framlög vegna sameininga sveitarfélaga

Framlögum er úthlutað á grundvelli heimildarákvæða reglna um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, nr. 782/2020, með síðari breytingum.

Á grundvelli reglnanna greiðast eftirtalin framlög:

  • Framlag vegna könnunar á hagkvæmni sameiningar, kynningu á sameiningartillögu og framkvæmd atkvæðagreiðslu, sbr. sérstakar vinnureglur frá 12. mars 2021.

Vinnureglur vegna sameininga sveitarfélaga

  • Framlag vegna sameiningar á bókhaldi sveitarfélaga.
  • Framlag vegna jöfnunar á fjárhagsstöðu sveitarfélaga við sameiningu.
  • Óskert tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlag á sameiningarári.
  • Sérstakt framlag í fjögur ár vegna skerðingar er kann að verða á úthlutun tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlaga í kjölfar sameiningar.
  • Framlög vegna endurskipulagningar þjónustu og stjórnsýslu í nýju sveitarfélagi í allt að fimm ár frá sameiningu.

Framlög vegna fjárhagserfiðleika sveitarfélaga

Framlögum er úthlutað til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga í samræmi við tillögur frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Framlögum er úthlutað á grundvelli 84. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011 með síðari breytingum.

Framlög vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlum

Framlög eru veitt til greiðslu stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlum, sbr. reglugerð nr. 180/2016, allt að 25 millj. kr. á ári. Matvælastofnun gerir tillögur til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra úthlutun framlaga vegna einstakra framkvæmda á því ári og annast greiðslur til framkvæmdaaðila. Umsóknum um framlög til vatnsveituframkvæmda skal skilað rafrænt til Matvælastofnunar fyrir 1. mars á framkvæmdaári.

Framlög vegna breytinga á álagningarstofni mannvirkja

Framlögum er úthlutað til að jafna tekjutap sveitarfélaga í kjölfar breytinga á álagningarstofni fasteignaskatts sem tóku gildi 1. janúar 2001, sbr. reglugerð nr. 80/2001 með síðari breytingum. Framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins reiknast sem mismunur á núgildandi fasteignamati og eldri álagningarstofni og er mismunurinn margfaldaður með álagningarprósentu yfirstandandi árs. Útreiknað framlag er síðan aðlagað að fjármagni til ráðstöfunar.

Framlög vegna sérstakra verkefna

Jöfnunarsjóði er heimilt að greiða framlög til verkefna á vegum sveitarfélaga eða samtaka þeirra sem hafa að mati ráðgjafarnefndar sjóðsins mikla þýðingu fyrir sveitarfélögin og uppfylla annað hvort eftirfarandi markmiða:
a. að stuðla að þróun til hagræðingar í rekstri og/eða þjónustu sveitarfélaga,
b. að aðstoða sveitarfélög sem orðið hafa fyrir verulega íþyngjandi og ófyrirséðum útgjöldum vegna lögákveðinna verkefna eða af öðrum ástæðum sem ráðgjafarnefnd metur gildar. Umsóknir þurfa að berast Jöfnunarsjóði fyrir 1. nóvember ár hvert.

Jöfnunarframlög

Jöfnunarframlög skiptast í tekjujöfnunarframlög og útgjaldajöfnunarframlög.

Tekjujöfnunarframlög

Jöfnunarsjóður úthlutar tekjujöfnunarframlögum til sveitarfélaga sem hafa minni skatttekjur en sambærileg sveitarfélög.

Jöfnunin fer þannig fram að sveitarfélögum er skipt í fjóra viðmiðunarflokka eftir íbúafjölda. Á grundvelli skrár um fullnýtingu tekjustofna sveitarfélaga, sem ráðuneytið tekur árlega saman í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, eru reiknaðar út meðaltekjur sveitarfélaga á íbúa í hverjum viðmiðunarflokki. Við gerð skrár um fullnýtingu tekjustofna sveitarfélaga skal einnig taka tillit til jöfnunarframlaga sem sveitarfélög fá vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti. Ef meðaltekjur á íbúa í sveitarfélagi eru lægri en allt að 97% af meðaltekjum á hvern íbúa í öllum sveitarfélögum í viðkomandi viðmiðunarflokki er greitt tekjujöfnunarframlag sem nemur allt að mismuninum.

Framlögin eru greidd án umsókna að 3/4 hlutum fyrir 1. nóvember ár hvert en endanlegt uppgjör fer fram fyrir árslok á grundvelli leiðréttrar skrár um álagðar skatttekjur sveitarfélaga. Einungis kemur til úthlutunar og greiðslu framlags hafi sveitarfélag fullnýtt heimild sína til álagningar útsvars.

Útgjaldajöfnunarframlög

Til útgjaldajöfnunarframlaga er varið þeim tekjum sjóðsins sem eru umfram ráðstöfun annarra framlaga. Hlutverk útgjaldajöfnunarframlaga er að mæta mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga á grundvelli stærðarhagkvæmni og tekna þeirra, að teknu tilliti til þeirra þátta sem áhrif hafa á útgjaldaþörf.

Framlögin eru greidd mánaðarlega en þó er haldið eftir 10% af áætluðum útgjaldajöfnunarframlögum til að mæta því ef tekjur sjóðsins verða minni en áætlað er hverju sinni. Endanlegt uppgjör útgjaldajöfnunarframlaga fer fram í desember.

Útgjaldajöfnunarframlögunum er skipt í A- og B-hluta. Í A-hlutanum eru framlögin reiknuð út á grundvelli eftirfarandi viðmiðunarþátta: Íbúafjölda 0 - 5 ára, 6 - 15 ára, 16 - 66 ára, 67 - 80 ára, 81 árs og eldri, fjölda innflytjenda 0 - 5 ára, fjarlægða innan sveitarfélaga, fjölda þéttbýlisstaða umfram einn, fækkunar íbúa og snjómoksturs í þéttbýli.

B–hluti útgjaldajöfnunarframlaga nær til framlaga vegna skólaaksturs úr dreifbýli. Framlögin eru sjálfstæð eining innan útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins og taka ekki sömu hlutfallslegu hækkunum og önnur viðmið framlaganna. Framlögin vegna skólaaksturs eru eins og önnur viðmið útgjaldajöfnunarframlaga tekjuskert hjá þeim sveitarfélögum sem hafa hlutfallslega háar tekjur á íbúa miðað við önnur sveitarfélög. Um tvenns konar úthlutun framlaga er að ræða:

  • Á grundvelli áætlanagerðar er byggt á upplýsingum frá sveitarfélögum um akstursleiðir úr dreifbýli sveitarfélags og fjölda grunnskólabarna á hverri leið sem eiga heimili lengra en 3 km frá skóla. Útreikningur framlaga byggist á lengstu akstursvegalengd innan hverrar leiðar frá heimili að skóla.
  • Á grundvelli umsókna í lok hvers fjárhagsárs vegna íþyngjandi kostnaðar umfram framlög, að mati sveitarstjórnar, við akstur grunnskólabarna úr dreifbýli á árinu, sem eiga heimili lengra en 3 km frá skóla. Ítarleg greinargerð sveitarfélags skal fylgja umsókn um viðbótarframlag vegna íþyngjandi kostnaðar umfram tekjur að mati sveitarstjórnar.

Umsókn skal hafa borist Jöfnunarsjóði eigi síðar en 15. desember á viðkomandi ári. Ráðherra hefur sett vinnureglur um úthlutun framlagsins skv. tillögum ráðgjafarnefndar sjóðsins að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla

Almenn jöfnunarframlög

Langstærstur hluti af því fjármagni sem rennur til Jöfnunarsjóðsins vegna grunnskólakostnaðar fer í svokölluð almenn jöfnunarframlög eða um 70%. Þau eru reiknuð út á grundvelli reiknilíkans sem ætlað er að lýsa sem best útgjaldaþörf sveitarfélaga m.t.t. fjölda nemenda í hverju sveitarfélagi og stærðar þess eða þeirra skóla sem sveitarfélagið rekur eða nýtir. Einnig er tekið mið af útsvarstekjum sveitarfélaga og á þeim grundvelli er reiknuð út þörf hvers sveitarfélags fyrir viðbótartekjur, þ.e. almennt jöfnunarframlag.

Útreikningur á áætlaðri úthlutun almennra jöfnunarframlaga fer fram í október ár hvert fyrir næsta fjárhagsár og þurfa sveitarfélög ekki að sækja um þau sérstaklega. Framlögin eru greidd sveitarfélögum í lok hvers mánaðar og tekur hver greiðsla mið af staðgreiðsluskilum.

Sérþarfir fatlaðra nemenda

Jöfnunarsjóður úthlutar viðbótarframlögum vegna sérþarfa fatlaðra nemenda í grunnskólum. Framlögin eru veitt á grundvelli umsókna frá lögheimilissveitarfélögum nemendanna og er það skilyrði að nemendur hafi verið greindir með fötlun af Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands eða Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og falli undir viðmiðunarreglur Jöfnunarsjóðs. Jöfnunarsjóður sendir sveitarfélögum í upphafi hvers skólaárs bréf þar sem þessi framlög og vinnureglur eru kynntar, sem og eyðublöð vegna umsókna sveitarfélaga fyrir næsta fjárhagsár. Framlögin eru greidd í lok hvers mánaðar.

Sérskólar - sérdeildir

Við yfirfærslu grunnskólans í ágúst 1996 tók Reykjavíkurborg að sér rekstur þeirra sérskóla/sérdeilda sem áður höfðu verið rekin af ríkinu. Á grundvelli sérstaks samnings milli Reykjavíkurborgar, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga berast borginni mánaðarlegar greiðslur úr Jöfnunarsjóði vegna þess reksturs.

Framlög vegna íslensku sem annað tungumál

Jöfnunarsjóður úthlutar einnig viðbótarframlögum vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál. Verkefnastjóri og kennsluráðgjafi miðlar upplýsingum til Jöfnunarsjóðs fyrir 1. október ár hvert um fjölda nemenda er nýtur sérstakrar íslenskukennslu í sveitarfélagi vegna framlaga á næsta fjárhagsári. Verkefnastjórinn veitir enn fremur sveitarfélögum og grunnskólum almenna ráðgjöf og leiðbeiningar varðandi sjálfa kennsluna. Framlögin eru greidd í lok hvers mánaðar.

Skólabúðir að Reykjum

Sérstakt framlag er veitt til reksturs skólabúða að Reykjum í Hrútafirði á grundvelli samkomulags ríkis og sveitarfélaga um kostnaðar- og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskólans 1996. Húnaþing vestra annast rekstur búðanna, sbr. samning þar að lútandi milli sveitarfélagsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Barna- og fjölskyldustofa

Barna- og fjölskyldustofu er greitt framlag vegna  kennslu barna sem vistuð eru af stofnuninni utan lögheimilissveitarfélags. Jöfnunarsjóður innheimtir síðan þann kennslukostnað hjá viðkomandi sveitarfélagi.

Önnur framlög til reksturs grunnskóla

Jöfnunarsjóður veitir svokölluð önnur framlög til sveitarfélaga vegna ófyrirséðra tilvika við kennslu í grunnskólum sem hafa í för með sér verulega íþyngjandi kostnað umfram tekjur. Framlögunum er úthlutað til sveitarfélaga á grundvelli umsókna og koma til greiðslu á fyrri hluta árs fyrir árið á undan. Heimilt er að veita framlög til sveitarfélaga og annarra aðila vegna einstakra verkefna, nýsköpunar eða þróunarvinnu sem nýtast sveitarfélögum á landsvísu og eru til að bæta skólastarf og rekstur grunnskóla.

Til annarra framlaga teljast einnig framlög sem úthlutað er á grundvelli sérstakra samninga vegna verkefna sem nýtast sveitarfélögum á landsvísu við rekstur grunnskóla. Sem dæmi um slík verkefni er kennsla langveikra barna á grunnskólaaldri sem eiga lögheimili utan Reykjavíkurborgar en dvelja á sjúkrahúsum í borginni. 

Framlög vegna málefna fatlaðs fólks

Sveitarfélögin hafa borið ábyrgð á málefnum fatlaðs fólks frá ársbyrjun 2011 en þá gengu í gildi breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðs fólks.

Samkvæmt 3. gr. laga um málefni fatlaðra ber velferðarráðherra ábyrgð á opinberri stefnumótun í málefnum fatlaðra sem skal unnin í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og í samráði við heildarsamtök fatlaðra og aðildarfélög þeirra.

Tímabundin verkefni

Framlög úr Jöfnunarsjóði til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda

Ríki og sveitarfélög gerðu árið 2011 samkomulag um kostnað við eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnámsins. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga annast úthlutun og greiðslur framlagsins. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir verkefni frá ríki. 

Framlög Jöfnunarsjóðs

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 9.7.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta