Stöðugleikaregla – útfærsla og áhrif - Rammagrein 1<p>Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, þar sem stöðugleikaregla verður ein af fjármálareglum laganna í stað afkomureglu (171. mál á 156. löggjafarþingi).</p>
<p>Hefði stöðugleikaregla, eins og henni er lýst hér að neðan, verið í gildi á árunum fyrir heimsfaraldurinn hefði hún stuðlað að minni útgjaldavexti. Ófjármagnaður raunvöxtur þeirra útgjalda sem telja gagnvart áformaðri stöðugleikareglu var um 10% bæði árin 2018 og 2019. Minni útgjaldavöxtur á þessum árum hefði að öðru óbreyttu leitt til minni hallareksturs í heimsfaraldrinum og sterkari stöðu opinberra fjármála nú.</p>
<p>Í fjárlögum fyrir árin 2022–2025 hefur útgjaldavöxtur, eins og hann telur gagnvart stöðugleikareglunni, verið mun minni og undir viðmiði stöðugleikareglunnar, eða um 1,5% á ári að jafnaði, en þó yfir viðmiðinu bæði árin 2023 og 2024.</p>
<p><img src="/library/03-Verkefni/Efnahagsmal-og-opinber-fjarmal/FjarmalaaAetlun-2026-2030/Rammagreinar/Rammagrein1_mynd1.png?amp%3bproc=LargeImage" alt="Ófjármagnaður útgjaldavöxtur var mjög mikill 2018-2021" /></p>
<p>Markmið stöðugleikareglu eru þríþætt og tengjast innbyrðis. Í fyrsta lagi er reglunni ætlað að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Hingað til hafa tölulegar fjármálareglur um opinber fjármál nánast eingöngu miðað að því að tryggja sjálfbærni opinberra fjármála. Það er mikilvægt markmið, en reynsla undanfarins áratugar sýnir hversu mikilvægt það er að opinber fjármál stuðli samhliða að stöðugleika. Í öðru lagi felur innleiðing stöðugleikareglu í sér að útgangspunktur ákvarðana í ríkisfjármálum verður stærð sem stjórnvöld hafa beina stjórn á, þ.e. útgjöldin. Afkoma ríkissjóðs ræðst af samspili tekna og gjalda en tekjur ríkissjóðs eru að verulegu leyti háðar hagsveiflunni og þannig utan áhrifasviðs stjórnvalda. Stöðugleikareglan dregur úr tilhneigingu til að verja hagsveiflutengdum tekjum í varanleg útgjöld en skapar að sama skapi aukið svigrúm til að styðja við hagkerfið í gegnum efnahagslegar niðursveiflur. Í þriðja lagi styður stöðugleikaregla við bætt verklag og meiri fyrirsjáanleika í stefnumörkun. Framkvæmd stöðugleikareglu er í minna mæli háð hagspám en afkomuregla gildandi laga. Mat á því hvað telst sjálfbær útgjaldavöxtur krefst þess að lagt sé mat á langtímavöxt framleiðslugetunnar. Þótt sú stærð sé vitaskuld óþekkt er hún mun meira seigfljótandi en þær efnahagsstærðir sem ráða afkomu ríkissjóðs.</p>
<p>Stöðugleikareglan er útfærð þannig að undirliggjandi útgjöld A1-hluta ríkissjóðs mega vaxa að hámarki um 2,0% að raunvirði á ári áður en tekið er tillit til breytinga í tekjuöflun ríkissjóðs. Hámarkið sem lagt er til með reglunni byggist á mati á horfum um vöxt framleiðslugetu þjóðarbúsins að jafnaði til lengri tíma litið, eins og það birtist í þjóðhagsspá. Í einföldu máli má segja að þetta sé mat á þeim vexti ríkisútgjalda sem vöxtur hagkerfisins getur fjármagnað af sjálfu sér yfir langt tímabil. Langtímavöxtur hagkerfisins í framreikningi þjóðhagsspár Hagstofunnar er lítillega meiri en nýjasta mat Seðlabankans á hagvaxtargetu þjóðarbúsins en nálægt langtímaspá OECD fyrir Ísland.</p>
<p>Við mat á því hvað langtímahagvöxtur þýðir fyrir svigrúm til ríkisútgjalda er leiðrétt fyrir því að verðlag ríkisútgjalda hækkar að jafnaði nokkuð hraðar en verðlag landsframleiðslunnar, m.a. vegna þess að launakostnaður og gjöld tengd launakostnaði vega fremur þungt í ríkisútgjöldum. Með tilliti til þess geta ríkisútgjöld vaxið um u.þ.b. 2,0% á ári að raunvirði til að útgjöldin haldist óbreytt í hlutfalli við verga landsframleiðslu til lengri tíma litið. Gert er ráð fyrir að endurskoða viðmið fyrir hámarki útgjaldavaxtar á fimm ára fresti, ef tilefni er til þess, á grundvelli opinberrar spár um meðalvöxt framleiðslugetu þjóðarbúsins til lengri tíma litið.</p>
<p>Vöxturinn getur þó verið umfram þetta að því marki sem ráðstafanir í tekjuöflun ríkissjóðs leiða til aukinna tekna. Á sama hátt felst það í reglunni að ef ráðstafanir draga úr tekjuöflun A1-hluta ríkissjóðs verði svigrúm til útgjaldavaxtar samsvarandi minna. Er það til þess að tryggja getu stjórnvalda til þess að hafa áhrif á umfang hins opinbera í hagkerfinu í samræmi við pólitískar áherslur.</p>
<p>Reglan nær til útgjalda A1-hluta ríkissjóðs, að undanskildum fjárfestingum, vaxtagjöldum, lífeyrisskuldbindingum, afskriftum skattkrafna og annarra tapaðra krafna, tjónabótum, útgjöldum vegna meiri háttar náttúruhamfara, ríkisábyrgðum, framlögum til Atvinnuleysistryggingasjóðs og framlögum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Miðað við fjárlög fyrir árið 2025 myndi stöðugleikareglan ná til tæplega 80% af heildarútgjöldum ríkissjóðs.</p>
<p><img src="/library/03-Verkefni/Efnahagsmal-og-opinber-fjarmal/FjarmalaaAetlun-2026-2030/Rammagreinar/Rammagrein1_tafla1.png?amp%3bproc=LargeImage" alt="Fjárlög 2025" /></p>
<p>Markmið þess að undanskilja fjárfestingar mati á undirliggjandi útgjaldavexti er að verja opinbera fjárfestingu sem getur stutt við verðmætasköpun og bætt lífskjör til lengdar. Reynslan sýnir að tilhneiging ríkja er að draga hlutfallslega mikið úr fjárfestingarútgjöldum þegar þörf er á að bæta afkomu hins opinbera. Þótt fjárfestingarútgjöld liggi oft vel við niðurskurðarhnífnum geta slíkar ákvarðanir magnað hagsveiflur og haft langvarandi neikvæð áhrif á hagsæld, enda er arðbær fjárfesting grundvöllur framleiðni- og lífskjaravaxtar. Með því að undanskilja fjárfestingu þeim útgjaldavexti sem stöðugleikareglan nær til er komist hjá slíkri skammsýni.</p>
<p>Ástæða þess að undanskilja atvinnuleysisbætur og vaxtagjöld er að þessir liðir sveiflast sérstaklega mikið með efnahagsforsendum og í þágu sveiflujöfnunar er nauðsynlegt að veita svigrúm til þess. Framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru einnig háð efnahagsforsendum, þeim sömu og ráða skatttekjum ríkissjóðs og útsvarsstofni sveitarfélaga, og útgjöld vegna lífeyrisskuldbindinga eru að sama skapi háð forsendum s.s. líflíkum sem eru utan áhrifasviðs stjórnvalda. Ástæða þess að aðrir liðir eru undanskildir er að um er að ræða sveiflukenndar, tilfallandi og/eða reiknaðar reikningshaldslegar stærðir.</p>
<p>Breytingarnar eiga sér nokkurn aðdraganda. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að það að skipta út afkomureglu fyrir reglu sem einblínir á útgjaldavöxt styðji við efnahagslegan stöðugleika. Fjármálaráð beindi því til stjórnvalda í álitsgerð fjármálaráðs um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 að kanna kosti þess að taka upp útgjaldareglu. Seðlabankinn hefur einnig talað fyrir upptöku útgjaldaviðmiðs. Þá hafa lánshæfismatsfyrirtæki sagt að upptaka útgjaldareglu í stað afkomureglu sé til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs.</p>
<p>Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármálaráð rýni og veiti álit á tilteknum þáttum sem tengjast stöðugleikareglu og tengdum breytingum í framangreindu frumvarpi: i) hvort áætlanir samræmist stöðugleikareglu, þ.m.t. tekjuráðstafanir vegna útgjalda umfram regluna, ii) hvort forsendur fyrir hámarki raunvaxtar útgjalda í stöðugleikareglunni skv. mati á langtímavaxtargetu þjóðarbúsins séu raunhæfar, iii) hvort útgjaldaliðir sem undanskildir eru séu viðeigandi, og iv) hvort áætlun stjórnvalda um skuldaþróun virðist geta uppfyllt skilyrði um 30% hámark innan ásættanlegs tíma þegar skuldir eru umfram hámarkið.</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
Um samhengi heildarafkomu ríkissjóðs og skuldaþróunar - Rammagrein 2<p>Hreinar lántökur ríkissjóðs á hverju ári eru umtalsvert meiri en sem nemur hallarekstri hans. Því geta skuldir ríkissjóðs haldið áfram að aukast að nafnvirði, jafnvel þótt hallarekstur verði stöðvaður. Munurinn milli afkomu og lánsfjárjafnaðar er hátt í 100 ma.kr. á hverju ári fjármálaáætlunar, eða sem samsvarar 1,5–2% af VLF. Til þess að tryggja sjálfbærni opinberra fjármála er mikilvægt að setja markmið sem stuðla að ásættanlegri lækkun skuldahlutfalls, ekki síður en að stöðva hallarekstur.</p>
<p>Þegar rætt er um halla ríkissjóðs er iðulega átt við halla á heildarafkomu samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli um opinber fjármál. Í stuttu máli felur heildarafkoma í sér mismuninn á öllum álögðum sköttum og öðrum tekjum annars vegar og öllum áföllnum útgjöldum og skuldbindingum fjárlagaársins hins vegar, óháð því hvort greiðslur eigi sér stað á sama ári. Almennt má segja að bati í heildarafkomu leiði til minni skuldasöfnunar. Aðrir þættir, sem eru óháðir heildarafkomu, hafa einnig veruleg áhrif á skuldaþróun eins og hér verður fjallað um.</p>
<p>Annar mælikvarði á rekstur ríkissjóðs er greiðsluafkoma, en hún mælir innflæði greiðslna í ríkissjóð á móti útflæði greiðslna úr ríkissjóði sem fram koma í sjóðstreymi. Greiðsluafkoman er lykilstærð þegar kemur að því að meta lánsfjárþörf og hefur því bein áhrif á skuldaþróun. Hún gefur einnig skýrar til kynna samtímaáhrif ríkisfjármálanna á efnahagsumsvif en heildarafkoman þar sem hún getur falið í sér langtímaskuldbindingar sem koma til greiðslu yfir langt árabil, jafnvel áratugi. Undanfarin ár hefur greiðsluafkoma ríkissjóðs reynst lakari en heildarafkoma m.a. vegna greiðslu lífeyrisskuldbindinga, sem eru gjaldfærðar með öðrum hætti á þjóðhagsgrunni í samræmi við alþjóðlega staðla. Þá eru árlegar tekjur ríkissjóðs almennt lægri á greiðslugrunni þar sem þær innheimtast með tímatöf, auk þess sem álagðir skattar innheimtast ekki allir. Þegar tafir í skilum fara yfir áramót lendir álagning og innheimta hvor á sínu árinu. Þegar allt er eðlilegt í hagkerfinu hækka hagstærðir jafnt og þétt yfir árið og þannig verður innheimta ársins lægri tala en álagning ársins, jafnvel þótt engin vanskil séu til staðar.</p>
<p>Út frá greiðsluafkomu og öðrum inn- og útflæðisliðum sem teljast til svonefndra fjárfestingarhreyfinga í sjóðstreymi má svo leiða fram lánsfjárjöfnuð sem segir til um lánsfjárþörf ríkissjóðs. Sem dæmi um útstreymi í fjárfestingarhreyfingum má nefna endurlán ríkissjóðs til ríkisaðila í A2- og A3-hluta, t.d. til Húsnæðissjóðs og Menntasjóðs námsmanna, og árlegar bakábyrgðargreiðslur ríkisins inn á lífeyrisskuldbindingar B-deildar LSR. Á móti getur stundum komið tilfallandi innflæði þegar efnt er til sölu á eignum ríkisins. Almennt gildir að lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs er lakari en greiðsluafkoma vegna þessara fjárfestingahreyfinga.</p>
<p>Til þess að rekja öll áhrif á nafnvirði skulda ríkissjóðs þarf einnig að taka tillit til verðbóta verðtryggðra lána sem leggjast á höfuðstól sem og áhrif af gengisbreytingum krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum á höfuðstól erlendra skulda.</p>
<p>Á tímabili þessarar fjármálaáætlunar eru framangreindar stærðir sem ráða skuldaþróun um 1,5–2% af VLF lakari en heildarafkoma ríkissjóðs. Þannig mætti, með nokkurri einföldun, segja að afkoma ríkissjóðs yrði að vera jákvæð um 1,5–2% af VLF til þess að nafnverð skulda haldist óbreytt milli ára. Rétt er þó að taka fram að þegar skuldir ríkissjóðs eru settar fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) myndi slíkur afgangur á heildarafkomu leiða til hratt lækkandi skuldahlutfalls vegna áhrifa af vaxandi landsframleiðslu í nefnara hlutfallsins.</p>
<p><img src="/library/03-Verkefni/Efnahagsmal-og-opinber-fjarmal/FjarmalaaAetlun-2026-2030/Rammagreinar/ramma2-1.png?amp%3bproc=LargeImage" alt="Stærðir sem drífa skuldaþróun ríkissjóðs eru um 1,5-2,0% af VLF lakari en heildarafkoma á þjóðhagsgrunni" /></p>
<p>Mismunur á heildarafkomu og greiðsluafkomu (blár kassi):</p>
<ul>
<li>Greiddar lífeyrisskuldbindingar eru hærri en það sem er gjaldfært á þjóðhagsgrunni.</li>
<li>Tekjur ríkissjóðs eru lægri á greiðslugrunni, m.a. vegna tímatafar í innheimtu.</li>
<li>Á móti vegur að hluta að gjaldfærð vaxtagjöld eru jafnan hærri en greidd vaxtagjöld, m.a. vegna verðbóta og reiknaðra vaxta vegna lífeyrisskuldbindinga.</li>
</ul>
<p>Mismunur á greiðsluafkomu og lánsfjárjöfnuði (rauður kassi):</p>
<ul>
<li>Veitt endurlán ríkissjóðs til annarra ríkisaðila eru hærri en innheimtar afborganir slíkra lána á tímabilinu.</li>
<li>Greiðsla vegna bakábyrgðar ríkisins á skuldbindingum B-deildar LSR.</li>
<li>Sala eigna og eiginfjárframlög hafa áhrif á þessa stærð til hækkunar eða lækkunar.</li>
</ul>
<p>Verðbætur verðtryggðra lána og aðrar breytingar (gulur kassi):</p>
<ul>
<li>Verðbætur verðtryggðra lána leggjast á höfuðstól.</li>
<li>Áhrif gengisbreytinga krónunnar á höfuðstól erlendra skulda.</li>
</ul> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
Nýjar leiðir í fjármögnun til að flýta samgönguframkvæmdum - Rammagrein 3<p>Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 sem hlaut ekki afgreiðslu þingsins voru kynnt áform um jarðgangaframkvæmdir fyrir allt að 185 ma.kr. yfir 15 ára tímabil. Jarðgangaáætlunin var sett fram utan ramma fjármálaáætlunar og því óljóst er hvernig staðið verði að fjármögnun jarðganga og annarra flýtiframkvæmda. Vegna þröngrar stöðu ríkisfjármála liggur fyrir að afar takmarkað svigrúm verður til að ráðast í slíkar stórframkvæmdir á næstu árum á grundvelli beinna framlaga úr ríkissjóði samkvæmt samgönguáætlun.</p>
<p>Ef rjúfa á þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í jarðgangagerð hér á landi, eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, er því mikilvægt að leita nýrra leiða til að fjármögnunar sem einnig gætu nýst til að flýta öðrum mikilvægum samgönguverkefnum. Í því samhengi má horfa til reynslu nágrannaríkja með áherslu á þjóðhagslega arðsamar flýtiframkvæmdir. Talsverður ávinningur fylgir því fyrir þjóðarbúið að ráðist verði í auknar framkvæmdir á sviði samgangna, m.a. til að auka umferðaröryggi, stytta umferðarleiðir og bæta tengingar milli byggða og atvinnusvæða. </p>
<p>Til að greiða fyrir auknum innviðaframkvæmdum er til skoðunar að stofna sérstakt innviðafélag eða ríkisaðila sem sér um fjármögnun stærri samgönguframkvæmda, s.s. vegna jarðganga og sambærilegra flýtiframkvæmda. Umgjörð um fjármögnun, framkvæmd og rekstur umferðarmannvirkja sem falla undir fyrirkomulag af þessu tagi þarf að skilgreina vel með fjárhagslega sjálfbærni að leiðarljósi enda yrði fjármögnun utan A1-hluta fjárlaga.</p>
<p>Til greina kemur að leggja slíkum aðila til eigið fé frá ríkinu, t.a.m. í formi fyrirliggjandi samgönguinnviða til að búa til tekjustreymi sem nýtt yrði til að ráðast í arðsamar nýframkvæmdir og uppfærslu á eldri innviðum. Slíkum aðila mætti einnig veita heimildir til lántöku, þar sem framtíðartekjustreymi af samgönguinnviðum yrði veðsett til að fjármagna arðbærar fjárfestingar í nýjum samgönguinnviðum en þó þannig að það valdi ekki óásættanlegri áhættu fyrir ríkissjóð. Þannig mætti t.a.m. hvetja til aukinnar aðkomu lífeyrissjóða og annarra fjárfestingarsjóða að innviðafjárfestingum. Þar sem um ríkisaðila væri að ræða myndi þó áhætta af afkomu verkefna slíks innviðafélags liggja hjá ríkissjóði. </p>
<p>Samhliða þessu þyrfti að ráðast í endurskoðun á lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir til að mögulegt verði að koma á árangursríku samstarfi milli ríkis, lífeyrissjóða og einkaaðila við innviðauppbyggingu. Meginmarkmiðið með samvinnuverkefnum er að flýta fjárhagslega sjálfbærum framkvæmdum með aðkomu einkaaðila ásamt því að yfirfæra áhættu af byggingu og rekstri slíkra fjárfestinga frá ríkinu. Stærstu óvissuþættirnir við mat á því hvort verkefni teljist sjálfbært lúta að umferðarmagni og greiðsluvilja auk óvissu um endanlegan kostnað, einkum þegar kemur að jarðgangagerð. Í þeim tilvikum þar sem mikil óvissa er um tekjur af veggjöldum, eða ljóst að slíkar tekjur standa ekki með beinum hætti undir fjárfestingunni, er brýnt að hægt sé að bjóða blandaða fjármögnunarleið með „skuggagjöldum“ frá ríkinu sem miðast við tiltekna lágmarksumferð eða fastar reiðugreiðslur til að einkaaðili sé reiðubúinn að taka þá áhættu sem felst í því að byggja og reka mannvirkið yfir tiltekinn tíma.</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
Forgangsraðað og hagrætt í ríkisrekstri - Rammagrein 4<p>Eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar er að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir sem er liður í því að ná stjórn á fjármálum ríkisins og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta. Í því skyni efndi ríkisstjórnin í upphafi árs til samráðs við þjóðina undir yfirskriftinni <em>Verum hagsýn í rekstri ríkisins</em>. Jafnframt var óskað eftir tillögum til hagræðingar, einföldunar og umbóta frá ráðuneytum og öllum stofnunum ríkisins. Alls bárust tæplega 4.000 tillögur, langflestar frá einstaklingum. Starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri vann úr tillögunum og <a href="/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/FOR/Fylgiskjol-i-frett/Hagr%C3%A6%C3%B0ing%20%C3%AD%20r%C3%ADkisrekstri%20-%20till%C3%B6gur%20hagr%C3%A6%C3%B0ingarh%C3%B3ps.pdf" target="_blank">skilaði tillögum sínum til ríkisstjórnar</a> í byrjun mars.</p>
<p>Tillögurnar sem bárust endurspegla áherslu almennings á skilvirkari og gagnsærri opinbera þjónustu og varpa ljósi á ákveðna þætti sem almenningur telur brýnt að endurskoða. Helstu hugðarefnin snúa að sameiningu og fækkun opinberra stofnana, skýrari ábyrgðarskiptingu og samræmingu hlutverka þeirra. Sérstaklega var vísað til fámennra eininga og stoðþjónustu sem gæti notið samreksturs og samnýtingar, t.d. í upplýsingatækni, mannauðsmálum og innkaupum. Þá kom fram fjöldi tillagna um einföldun sjóðaumhverfis, m.a. með sameiningu sjóða, og umbætur í rekstri hins opinbera með minni skjalaumsýslu og aukinni stafvæðingu. Þá var sérstaklega bent á tækifæri til að bæta innkaupastarfsemi ríkisins með aukinni gagnadrifinni greiningu, samræmingu útboða og skýrari samningum við birgja. Af tillögunum má ráða að almenningur telji mikilvægt að draga úr umfangi og tvíverknaði innan stjórnsýslunnar, m.a. með því að sameina stofnanir sem sinna sambærilegum verkefnum og samræma stjórnsýsluhlutverk.</p>
<p>Umbætur og hagræðing í rekstri ríkisins er mikilvægur liður í breyttri forgangsröðun fjármuna sem þessi fyrsta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ber vitni um. Nú þegar er hafin vinna við innleiðingu einstakra hagræðingartillagna og lögð verður áhersla á samráð og gagnsæi í þeirri vinnu. Þá hefur hluti tillagna frá fyrrnefndum starfshópi og ráðuneytum verið tekinn inn í áætlunina og þannig skapað svigrúm fyrir forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Ráðstafanirnar felast m.a. í frestun eða niðurfellingu verkefna, endurskoðun á forsendum fjárveitinga, endurskoðun fyrirkomulags eða hagræðingu í rekstri. Umfangsmikil vinna mun fara fram á árinu 2025 við frekari úrvinnslu og útfærslu þeirra fjölmörgu tillagna til hagræðingar og einföldunar stjórnsýslu sem aflað hefur verið á fyrstu mánuðum kjörtímabilsins. Allt kjörtímabilið er undir í þessari vinnu, fyrstu áætlanir birtast í þessari fjármálaáætlun en gert er ráð fyrir að í desember 2025 liggi fyrir nákvæmar áætlanir hjá öllum ráðuneytum fyrir kjörtímabilið.</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
ÍL-sjóður - Rammagrein 5<p>Unnið hefur verið að úrvinnslu á eignum og skuldum ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóðs) um nokkurra ára skeið. Skýrsla um stöðu sjóðsins var lögð fyrir Alþingi í október 2022 þar sem farið var yfir sögu sjóðsins og helstu þætti sem leiddu til þess að sjóðurinn komst í þau fjárhagsvandræði sem nú er glímt við. Einföld ríkisábyrgð er á skuldum sjóðsins en markmið úrvinnslunnar er að lágmarka áhættu og kostnað ríkissjóðs vegna ábyrgðarinnar. Í skýrslunni er farið yfir mögulegar leiðir en áhersla lögð á að ná samkomulagi við kröfuhafa sjóðsins um uppgjör á skuldum sjóðsins og ríkisábyrgðinni.</p>
<p>Þann 23. febrúar 2024 var tilkynnt að fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ÍL-sjóðs og íslenska ríkisins, og fulltrúar 18 lífeyrissjóða, sem saman fara með stærstan hluta skuldabréfa sem ÍL-sjóður er útgefandi að, myndu hefja viðræður um uppgjör á skuldabréfum sjóðsins. Markmið viðræðnanna væri að ná samkomulagi sem fæli í sér að skuldabréfin yrðu gerð upp að fullu og skilyrði sköpuð fyrir slitum ÍL-sjóðs.</p>
<p>Þann 10. mars 2025 birti viðræðunefnd fjármála- og efnahagsráðherra og ráðgjafar lífeyrissjóða sameiginlegar tillögur um uppgjör HFF-bréfa sem greiða muni fyrir slitum ÍL-sjóðs. Verkefnisstjórn ÍL-sjóðs hafði áður lagt til við fjármálaráðherra að unnið yrði að framgangi tillögunnar.</p>
<p>Tillagan felur í sér að í tengslum við uppgjörið gefur ríkissjóður út ný ríkisskuldabréf að fjárhæð 540 ma.kr. Sú útgáfa felur í sér uppgjör á bæði lántöku ríkissjóðs hjá ÍL-sjóði á síðustu árum að fjárhæð 238 ma.kr. og á ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum ÍL-sjóðs. </p>
<p>Virði HFF-bréfanna í uppgjörinu er metið á 651 ma.kr. Í uppgjörstillögunum felst að ÍL-sjóður og íslenska ríkið afhendi kröfuhöfum áðurnefnd ríkisskuldabréf að andvirði 540 ma.kr., önnur verðbréf í eigu ÍL-sjóðs að andvirði 38 ma.kr, gjaldeyri og reiðufé að andvirði 73 ma.kr. Ríkissjóður mun taka við hluta af vaxtaberandi eignum ÍL-sjóðs, samtals að fjárhæð um 222 ma.kr. en þar er um að ræða húsnæðislánasafn ÍL-sjóðs auk annarra verðbréfa. </p>
<p>Tillaga viðræðuhópsins verður lögð fyrir fund kröfuhafa þann 10. apríl nk. en samþykki 75% atkvæða eftir kröfufjárhæð þarf til að tillagan að uppgjöri teljist bindandi fyrir alla kröfuhafa. Verði tillagan samþykkt mun fjármála- og efnahagsráðherra óska eftir heimild Alþingis til að ljúka uppgjöri í samræmi við tillöguna. Þá verður öðrum kröfuhöfum ÍL-sjóðs boðið uppgjör krafna sinna. Við uppgjör krafna og slit ÍL-sjóðs verður gætt að gagnsæi og jafnræði meðal kröfuhafa.</p>
<p>Áætlað er að verði tillagan samþykkt muni uppgjörið skila jákvæðu greiðsluflæði til ríkissjóðs fram yfir tímabil fjármálaáætlunar m.a. þar sem í núgildandi áætlunum er gert ráð fyrir að ríkissjóður endurgreiði lánið til ÍL-sjóðs á næstu árum.. Verði tillagan samþykkt verður lánið endurfjármagnað með nýjum ríkisskuldabréfum til langs tíma. Að auki er jákvætt greiðsluflæði af þeim eignum sem ríkissjóður tekur við í uppgjörinu þar sem að mestu er um að ræða húsnæðislán sem skila vöxtum og afborgunum. Þá er gert ráð fyrir að skuldahlutföll A-hluta ríkissjóðs, eins og Hagstofan færir þau á þjóðhagsreikningagrunni, lækki um a.m.k. 5% af vergri landsframleiðslu að uppgjöri loknu. Ástæða lækkunarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi færði Hagstofan skuldir ÍL-sjóðs á gangvirði við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs 2019 en síðan þá á bókfærðu virði í samræmi við uppgjör sjóðsins. Það er hærri fjárhæð en samkomulag um uppgjörið tekur til. Í öðru lagi lækkar skuldahlutfallið þar sem um brúttóskuldahlutfall er að ræða, þ.e. eignir koma ekki til frádráttar skuldum. Hluti uppgjörsins er greitt með eignum ÍL-sjóðs, sem koma þá til frádráttar skuldum og lækkar skuldahlutfallið. Ríkisábyrgðir munu jafnframt lækka um 88% miðað við stöðu í árslok 2024. </p>
<p>Með uppgjörinu væri gert upp að fullu við eigendur bréfanna sem í flestum tilfellum eru lífeyrissjóðir og bundinn endir á óvissu tengdri ríkisábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs með hagfelldum hætti fyrir alla hagsmunaaðila. Þar með yrði leyst úr flóknu og erfiðu viðfangsefni.</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
Breytingar á framsetningu stefnumótunar málefnasviða – gagnvirkt mælaborð með upplýsingum um árangur - Rammagrein 6<p>Með lögum um opinber fjármál var árangursmiðuð áætlanagerð innleidd og lengi vel hafa þær upplýsingar um árangur sem lögin gera ráð fyrir verið birtar í þremur ólíkum ritum; markmið og mælikvarðar í fjármálaáætlun, verkefni og aðgerðir í fjárlagafrumvarpi og staða markmiða og aðgerða í ársskýrslu ráðherra. Til að samhæfa betur þessar upplýsingar, bæta aðgengi að þeim og auka gagnsæi er unnið að þróun gagnvirks mælaborðs.</p>
<p>Gert er ráð fyrir að á mælaborðinu verði birt markmið og mælikvarðar í hverjum málaflokki ásamt viðmiðum um þann árangur sem lagt er upp með að ná á tilgreindu tímabili. Jafnframt verði birtar upplýsingar um verkefni og aðgerðir sem miða að skilgreindum markmiðum og loks uppgjör á stöðu mælikvarða og aðgerða að ári liðnu. Þannig verði á einum stað auðveldlega hægt að átta sig á árangri af ráðstöfun fjárveitinga í hverjum málaflokki fyrir sig og þróun yfir tíma.</p>
<p>Með mælaborðinu næst betri yfirsýn yfir árangur og unnt að nýta með markvissari hætti upplýsingar um ávinning af fyrri ráðstöfunum við mótun stefnu og aðgerða. Til að nýta þessi tækifæri sem best verða tímasetningar stefnumótunar og stöðutöku stillt betur af við fjárlagaferlið líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.</p>
<p><span><img alt="" src="/library/03-Verkefni/Efnahagsmal-og-opinber-fjarmal/FjarmalaaAetlun-2026-2030/Rammagreinar/Rammagrein%206_mynd1.png" /></span></p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |