2023 - Ávarp fjallkonunnar<p>þegar Hrafna-Flóki og félagar sigldu aftur til Noregs</p>
<p>voru þeir spurðir hvernig staður þetta væri</p>
<p>eyjan sem þeir kölluðu Ísland</p>
<p> </p>
<p>skítapleis</p>
<p>sagði Flóki</p>
<p>Herjólfur sagði að hún væri la-la</p>
<p>Þórólfur sagði smjör drjúpa af hverju strái</p>
<p> </p>
<p>Flóki minntist á kuldann</p>
<p>Herjólfur tók undir með honum </p>
<p>en sagði þó að til að gæta sanngirni </p>
<p>þyrfti að minnast á þessa yndislegu helgi í júlí</p>
<p>þegar þeir böðuðu sig í ánni</p>
<p>lögðust í mosann</p>
<p>og leyfðu sólinni að þurrka sig</p>
<p>Þórólfur sagði veðrið vera frábært</p>
<p>en það hentaði vissulega ekki aumingjum</p>
<p> </p>
<p>Flóki talaði um fábreytni </p>
<p>hann talaði um einangrun og myrkur</p>
<p>Herjólfur sagðist geta hugsað sér að búa þarna hluta úr ári </p>
<p>fámennt en góðmennt</p>
<p>sagði Þórólfur</p>
<p> </p>
<p>svona gengu rökræðurnar fram eftir kvöldi</p>
<p>og Norðmennirnir skemmtu sér svo vel við að hlusta á þær</p>
<p>að sú hugmynd kviknaði að heyra í hrafninum</p>
<p> </p>
<p>hinum eina sanna</p>
<p>þeim sem Flóki sleppti úr búrinu</p>
<p>og hafði vísað þeim á klettinn </p>
<p> </p>
<p>hvað fannst þér? spurði einhver</p>
<p>hvað fannst þér um þessa eyju?</p>
<p> </p>
<p>nóttina áður en við komum</p>
<p>sagði hrafninn</p>
<p>dreymdi mig að búrið opnaðist</p>
<p> </p>
<p>það var myrkur</p>
<p>og þegar ég blakaði vængjunum </p>
<p>bylgjaðist rökkrið eins og haf sem er að ókyrrast</p>
<p> </p>
<p>mér fannst ég vera fyrsta hugsunin í heiminum</p>
<p>mér fannst ég slíta mig frá myrkrinu í líkamanum</p>
<p>og losna frá honum </p>
<p> </p>
<p>ég flögraði um í leit að landi</p>
<p>og fyrir neðan mig voru fortíðin og nútíðin og framtíðin </p>
<p>hver ofan á annarri eins og stafli af skinnum</p>
<p> </p>
<p>ég sá jökla</p>
<p>gróður</p>
<p>dýralíf</p>
<p> </p>
<p>ég sá ísbíltúra</p>
<p>barnavagna</p>
<p>bárujárn</p>
<p> </p>
<p>ég sá túnfífla spretta upp úr gangstéttum</p>
<p>ég sá fólk sem fór í kvöldsund</p>
<p>með náttfötin í bakpokanum</p>
<p>ég sá pípandi snjóruðningstæki í kófi</p>
<p> </p>
<p>þetta sá ég</p>
<p>og allt í einu fannst mér að ég ætti að líta undan</p>
<p>ég fann fyrir þessum skringilega ótta</p>
<p>sem er bara til í draumum</p>
<p>samt hélt ég áfram að horfa</p>
<p> </p>
<p>ég sá veðurspána</p>
<p>ég sá óþægilegar fréttamyndir</p>
<p>ég sá fólk dæmt í útlegð </p>
<p>ég sá ótrúlega mikinn fisk</p>
<p> </p>
<p>ég sá í gegnum það sem mér hafði verið sýnt</p>
<p> </p>
<p>Flóki leit niður í gólfið</p>
<p>Herjólfur skimaði í kringum sig</p>
<p>Þórólfur starði í augun á hrafninum </p>
<p> </p>
<p>hvað gerðirðu?</p>
<p>spurði einhver eftir langa þögn</p>
<p>hann lenti</p>
<p>svaraði annar</p>
<p> </p>
<p>nei</p>
<p>sagði hrafninn</p>
<p>ekki í draumnum</p>
<p>í draumnum flaug ég upp í myrkrið</p>
<p> </p>
<p>ég blakaði vængjunum </p>
<p>og fann að fyrir aftan mig </p>
<p>bylgjaðist rökkrið eins og svört segl</p>
<p> </p>
<p>ég rann saman við myrkrið</p>
<p>síðan vaknaði ég og sá að búrið var opið</p>
<p> </p>
<p>það var bjart</p>
<p>ég vissi hvert ég átti að fara</p>
<p> </p>
<p>þó að ég hefði aldrei komið þangað áður</p>
<p>fannst mér ég vera á heimleið</p>
<p> </p>
<p>ég flaug þangað með lokuð augun</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jónas Reynir Gunnarsson</p>
<p>Fjallkona: Arndís Hrönn Egilsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2022 - Ávarp fjallkonunnar<p>Engin tunga bragðast eins</p>
<p>engin tunga bragðast illa </p>
<p> </p>
<p>Tungur </p>
<p>hafa rætur </p>
<p>stofna og greinar </p>
<p>eru brögðóttar mildar slóttugar</p>
<p>kímnar kátar fullar </p>
<p>af munúð</p>
<p>hikandi haltrandi flæðandi </p>
<p>græðandi hvassar</p>
<p>ögrandi</p>
<p> </p>
<p>sumar smáar </p>
<p>sumar gildar</p>
<p>sumar ógnandi </p>
<p>sumum ógnað</p>
<p> </p>
<p>Tungu má beita</p>
<p>og breyta</p>
<p>því verðum við að kyngja</p>
<p> </p>
<p>Við fengum tungu </p>
<p>kvika og viðkvæma</p>
<p>lætur illa að stjórn</p>
<p>lagar sig að hverjum munni</p>
<p>hún er gjöf </p>
<p>og hún er gefins </p>
<p>hverjum þeim sem vill opna upp á gátt</p>
<p>lifandi tilvist</p>
<p>eign einskis</p>
<p> </p>
<p>Nú rofar til</p>
<p>börnin fylla litla vasa af túnfíflum</p>
<p>hlaupa færandi hendi inn í hlýjan faðm</p>
<p> </p>
<p>Fíflarnir eru gulir</p>
<p>himinninn er blár </p>
<p>og faðmurinn er opinn faðmurinn </p>
<p>á alltaf að vera opinn</p>
<p> </p>
<p>Grjót er ekki bara grjót</p>
<p>og lækur ekki bara lækur</p>
<p> </p>
<p>Allt er lifandi</p>
<p>opnum upp á gátt og þiggjum</p>
<p> </p>
<p>Í fjallinu vex hundasúra</p>
<p>við leggjum hana á tunguna og finnum </p>
<p>hvernig hún bragðast</p>
<p>eins og vor eins og </p>
<p> nýtt upphaf</p>
<p> eins </p>
<p>og rót </p>
<p> sem fikrar sig </p>
<p>frá einu </p>
<p> til annars</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Brynja Hjálmsdóttir</p>
<p>Fjallkona: Sylwia Zajkowska</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2021 - Ávarp fjallkonunnar<p>Ein vil ég mæla fyrir okkur öll. Setjum grið.</p>
<p>Virðum tifandi mosann</p>
<p>mosabreiðuna</p>
<p>mosalagið sem hjúpar jörð og nærir líf.</p>
<p> </p>
<p>Setjum grið á öllum stöðum</p>
<p>nefndum og ónefndum</p>
<p>milli okkar og mosans. Setjum grið</p>
<p>í móum. Setjum grið í mýrum. Í tjörnum.</p>
<p>Í glitrandi lækjum og lindum.</p>
<p>Á hraunbungum</p>
<p>og í snjódældum.</p>
<p>Á þurrum melakollum og í votlendi.</p>
<p>Setjum grið á brunahrauni</p>
<p>og í botni skógar</p>
<p>þar sem söngvarinn ljúfi tyllir sér á grein.</p>
<p> </p>
<p>Hægt, hægt vex undramjúkur mosinn</p>
<p>vex dúandi mosinn sem fæstir kunnu áður að nefna</p>
<p>viðkvæmur mosinn sem margur vild' ei neitt af vita</p>
<p>glóandi mosinn sem breiddi úr sér</p>
<p>fyrir augum allra án þess að sjást.</p>
<p> </p>
<p>Engin mannskepna skal fara með óþarfa traðki út á mosann</p>
<p>enginn málmdreki ógna honum með eiturgufum</p>
<p>og ekki skal ógætileg framrás beittra klaufa</p>
<p>skera í mosann sár</p>
<p>sem óheftir vindar vilja ýfa upp.</p>
<p> </p>
<p>Setjum grið á láglendi</p>
<p>setjum grið á hálendi</p>
<p>alin og óborin,</p>
<p>getin og ógetin,</p>
<p>nefnd og ónefnd</p>
<p>veitum tryggðir og ævitryggðir</p>
<p>mætar tryggðir og megintryggðir</p>
<p>sem skulu haldast meðan mosi og manneskjur lifa.</p>
<p> </p>
<p>Allt það líf sem enginn minntist á fyrrum kalla ég fram.</p>
<p>Komið þið silfurhnokki, snúinskeggi, kelduskæna!</p>
<p>Komið dýjahnappur, lindaskart, rauðburi, móabrúskur.</p>
<p>Komið tildurmosi og hraungambri</p>
<p>komið og breiðið úr ykkur til allra átta.</p>
<p> </p>
<p>Verum sátt hvert við annað, við jörðina, við gróskuna</p>
<p>við umhverfið sæla, við fjölbreytnina.</p>
<p>Setjum grið, verum ólík en sátt</p>
<p>nemum kyrrð, nemum þolinmæði mosans</p>
<p>sem breiðir lifandi mýkt yfir harðneskju hraunsins.</p>
<p> </p>
<p>Ég mæli fyrir mig, fyrir okkur öll. Setjum grið.</p>
<p>Við mælum öll sem ein og setjum grið.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Anton Helgi Jónsson</p>
<p>Fjallkona: Hanna María Karlsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2020 - Ávarp fjallkonunnar<p>honum lauk</p>
<p>þessum vetri</p>
<p>sem sífellt minnti á sig</p>
<p>og færði okkur</p>
<p>óveður</p>
<p>snjóflóð</p>
<p>jarðskjálfta</p>
<p>farsótt</p>
<p> </p>
<p>hann er liðinn</p>
<p>þessi vetur</p>
<p>sem neyddi okkur til að rifja upp gömul orð</p>
<p>sóttkví</p>
<p>samkomubann</p>
<p>píningsvetur</p>
<p>sóttarvetur</p>
<p>lurkur</p>
<p> </p>
<p>það kom vor</p>
<p>með sólgullin lauf</p>
<p>himinblátt haf</p>
<p>og farfuglasöng</p>
<p> </p>
<p>nú er sumar</p>
<p>við getum ferðast</p>
<p>um stræti</p>
<p>garða</p>
<p>urðir</p>
<p>móa</p>
<p>undir hverflyndum skýjum</p>
<p>í sólskini</p>
<p>þoku</p>
<p>regni</p>
<p> </p>
<p>við skulum hugsa hvert um annað</p>
<p>við skulum njóta bjartra dægra</p>
<p>við skulum rækta garðinn okkar</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Þórdís Gísladóttir</p>
<p>Fjallkona: Edda Björgvinsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2019 - Landið flokkar ekki fólk<p>sjáðu</p>
<p>landið okkar allra</p>
<p>með mosamjúkan opinn faðminn</p>
<p>tekur okkur öllum eins og við erum</p>
<p>landið okkar flokkar ekki fólk</p>
<p> </p>
<p>sjáðu</p>
<p>við stiklum á hálum arfinum</p>
<p>kærleikurinn vex uppúr rauðu hafi hjartans</p>
<p> </p>
<p>í kvöld er stjörnurnar falla á spegilinn</p>
<p>og rökkurmjúk aldan ber þær að landi</p>
<p>skal ég tína upp þó ekki væri nema eina</p>
<p>til þess að minnast sumarkvölda norður í dumbshafi</p>
<p> </p>
<p>við skulum drekka sólargeisla saman að norðan</p>
<p>og sáldra yfir hann blágrýtismylsnu úr esjunni</p>
<p>og fagna fjölmenningu hér í miðnætursólinni</p>
<p> </p>
<p>múrar gera það sem múrar gera</p>
<p>loka þig inni</p>
<p>rammgerðastir eru þeir sem </p>
<p>reistir eru í höfðum manna</p>
<p> </p>
<p>rífum þá niður og göngum inní víðáttu frelsisins</p>
<p>og fögnum lífinu</p>
<p> </p>
<p>sjáðu</p>
<p>sífellt bætast við blóm í garðinn</p>
<p>undursamlega fögur</p>
<p>hér eru auð rúm sem bíða barna</p>
<p>og drauma þeirra</p>
<p> </p>
<p>júníbjört nóttin mun þvo af þeim martröðina</p>
<p>og dögunin mun leiða þau inní bjarta framtíð</p>
<p> </p>
<p>regnboginn hefur blessað börnin</p>
<p>silfurtært er málið í munni þeirra</p>
<p>hlustum á orð þeirra því dag einn</p>
<p>munum við hin eldri ganga í spor þeirra</p>
<p> </p>
<p>ég veit ekki alveg</p>
<p>hvað það þýðir</p>
<p>að vera íslendingur</p>
<p>nema ég vakna dag hvern</p>
<p>með landið mitt á tungunni</p>
<p> </p>
<p>það dugar</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Bubbi Morthens</p>
<p>Fjallkona: Aldís Amah Hamilton</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2018 - Ávarp fjallkonunnar<p>í stað þess</p>
<p>að stilla okkur upp</p>
<p>á stallinum</p>
<p> </p>
<p>köllum við saman</p>
<p>allar fjallkonur landsins</p>
<p> </p>
<p>hó!</p>
<p>nú streymum við misvænar</p>
<p>niður á völlinn</p>
<p> </p>
<p>margar</p>
<p>með þunga snjóköggla á kviðnum</p>
<p> </p>
<p>þær fremstu</p>
<p>með klakakrónuna</p>
<p>eins og erfðasynd á höfðinu</p>
<p> </p>
<p>og brælan úr brennunni</p>
<p>stendur eins og strókur upp úr hvirflinum </p>
<p> </p>
<p>hráblautur strigapokinn</p>
<p>er tekinn saman</p>
<p>með stolnu snæri í mittið</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>og óvígður moldarslóðinn</p>
<p>hringast eins og naðra um fæturna</p>
<p> </p>
<p>þær næstu</p>
<p>með hattkúf á höfði</p>
<p> </p>
<p>krullur í hári</p>
<p>og eldrauðan varalit </p>
<p> </p>
<p>í drappaðri dragt</p>
<p>eða aðskornum kjól úr gardínuefni</p>
<p> </p>
<p>og berir leggirnir litaðir</p>
<p>með skóáburði frá hnéskel og niður úr</p>
<p> </p>
<p>síðastar</p>
<p>koma druslurnar</p>
<p> </p>
<p>stífmálaðar</p>
<p>í of flegnum blússum</p>
<p> </p>
<p>of þröngum</p>
<p>og of stuttum pilsum</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>á of háum hælum</p>
<p>og of fullar í ofanálag</p>
<p> </p>
<p>og þegar við höfum helgað okkur</p>
<p>hverja torfu á vellinum</p>
<p>stígum við fram</p>
<p> </p>
<p>allar fjallkonur landsins</p>
<p>fullvalda og sjálfstæðar</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Linda Vilhjálmsdóttir</p>
<p>Fjallkona: Sigrún Edda Björnsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2017 - Ávarp fjallkonunnar<p>I</p>
<p>og hér</p>
<p>stend ég enn</p>
<p>staðkyrr</p>
<p>með tertuna í höndunum</p>
<p>á miðjum vegi</p>
<p> </p>
<p>já, það er óhætt</p>
<p>að kalla hann þjóðveg</p>
<p> </p>
<p>umferðin er í báðar áttir;</p>
<p>heyvagnar, tjaldvagnar, skriðdrekar,</p>
<p>bjöllur</p>
<p>og</p>
<p>stundum er gusturinn slíkur</p>
<p>að hann feykir</p>
<p>pilsum</p>
<p> </p>
<p>– gettu í hverju ég er –</p>
<p> </p>
<p>þá hverf ég um hríð</p>
<p>í hvarmskóg,</p>
<p>hugsa um laungáfað hraunið</p>
<p>sem lúrir</p>
<p> </p>
<p>2</p>
<p>en bregði ég sundur augum aftur</p>
<p>hafa börn</p>
<p>leikið hollí-hú,</p>
<p>hengt glæný skilti</p>
<p>á skemmur og skyggni:</p>
<p>það er allt annað mál</p>
<p> </p>
<p>þá herði ég tak,</p>
<p>tygg eldgömul heiti, allt</p>
<p>þar til</p>
<p>hrekkur blóð af vör</p>
<p> </p>
<p>3</p>
<p>ég er með bláan</p>
<p>æðahnút,</p>
<p>hárauð hrútaber á hvítum marens</p>
<p> </p>
<p>og umferðin þyngist</p>
<p> </p>
<p>4</p>
<p>um leið er spurt hvort einhver hafi</p>
<p>þegar</p>
<p>hlotið sneið af kökunni</p>
<p>– það kann ég síður við að gefa upp</p>
<p> </p>
<p>ég hef ósjaldan</p>
<p>sveigst</p>
<p>undan andbyr og ásókn</p>
<p> </p>
<p>skýli samt alltaf bjarma á skari</p>
<p> </p>
<p>5</p>
<p>og þaðan sem fölan</p>
<p>fald minn</p>
<p>nemur við nyrsta baug</p>
<p> </p>
<p>sé ég skorpufólk</p>
<p>klífa og flytja fjöll,</p>
<p>fljúgast á</p>
<p>eins og tófur í púðri …</p>
<p> </p>
<p>hér er ennfremur gengið</p>
<p>á grátklökka jökla</p>
<p> </p>
<p>6</p>
<p>í því</p>
<p>hefur drifið að</p>
<p>þvalar hendur</p>
<p>þögla lófa</p>
<p>sem lyfta undir tertuna</p>
<p> </p>
<p>– gettu hvað afmæliskertin eru mörg –</p>
<p> </p>
<p>sumir hafa með sér</p>
<p>flóknar sorgir,</p>
<p>aðrir fara með löndum, í leik</p>
<p> </p>
<p>7</p>
<p>og ég slétti úr pilsum</p>
<p>slæ ljósi á öxl</p>
<p>á þrautabraut</p>
<p>á þúsund brár</p>
<p> </p>
<p>spyr bláklukkuna hvað tímanum líði</p>
<p> </p>
<p>það er byrjandi vetur</p>
<p>það er blásandi vor</p>
<p> </p>
<p>en fast uppi við brjóstið</p>
<p>er</p>
<p> blævalogn</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Sigurbjörg Þrastardóttir</p>
<p>Fjallkona: Þóra Einarsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2016 - Úr Söngvum helguðum þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944: II<p>Skín, blessaða frelsi, um fjörð og dal.</p>
<p>Við fögnum þér, ljósið hreina,</p>
<p>sem allt gerir bjart í bæ og sal</p>
<p>og brauð gefur fyrir steina.</p>
<p>Við unnum þér heitt frá ómunatíð</p>
<p>gegnum allt, sem við hlutum að reyna.</p>
<p> </p>
<p>– Í úthafi bláu lá ónumið land,</p>
<p>þar alfrjálsir straumar sungu.</p>
<p>Einn dag lentu hugdjarfar hetjur við sand</p>
<p>með hrundir og börnin sín ungu.</p>
<p>Þeir námu héruð og nefndu allt</p>
<p>á norrænni skáldatungu.</p>
<p> </p>
<p>Og eylandið fagra varð ættjörð góð</p>
<p>þeim unga og týhrausta lýði,</p>
<p>sem gaf á móti sinn ásthug og óð</p>
<p>og örlög - í friði sem stríði.</p>
<p>Þeir hófu upp Alþing við hásumardýrð</p>
<p>í hraunsalar fagurprýði.</p>
<p> </p>
<p>Þó háfossar tímans hrynji í sæ,</p>
<p>af heimi ei gleymist sú tíðin.</p>
<p>Það eyland varð sælt, við eld og snæ</p>
<p>og alfrjálsan hetjulýðinn.</p>
<p>Það land er Ísland – er okkar land.</p>
<p>Og enn þá er fegurst „Hlíðin“.</p>
<p>Þú heilaga jörð með sögu, söng</p>
<p>og sólstafi frelsis bjarta.</p>
<p>Hve örlög þín síðar urðu ströng</p>
<p>við ánauðarmyrkvann svarta.</p>
<p>Sem djúpsærð hetja þú varðist varg,</p>
<p>með vordraumsins ljós í hjarta.</p>
<p> </p>
<p>Og aldir liðu með álög mörg. –</p>
<p>En eilíf var frelsisþráin,</p>
<p>sem nam okkar land við brim og björg</p>
<p>og blessaði skipgengan sjáinn.</p>
<p>Hún geymdi sín vé og hof og hörg,</p>
<p>uns harðstjórn og fals voru dáin.</p>
<p> </p>
<p>Skín, blessaða frelsi, um Ísland enn.</p>
<p>Við elskum þig, morgunstjarna.</p>
<p>Þér heilsa fagnandi frjálsir menn</p>
<p>og fagurskær söngur barna.</p>
<p>Við heitum að vernda þig ókomin ár</p>
<p> og örlaga slysum varna.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Hulda</p>
<p>Fjallkona: Linda Ásgeirsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2015 - Ávarp fjallkonunnar<p>Um miðjan júnímánuð</p>
<p>myrkri er horfinn styrkur,</p>
<p>fánar blakta í blænum,</p>
<p>blöðrur svífa, lúðra-</p>
<p>hljómur upp til himins</p>
<p>hefur sig og vefur,</p>
<p>söngur veifar vængjum,</p>
<p>víbrar eins og tíbrá.</p>
<p> </p>
<p>Fjallkonan af fjöllum</p>
<p>– faldskrýdd – kemur aldrei.</p>
<p>Saman sjá vill koma</p>
<p>sína þjóð og skína, </p>
<p>sundurleita sindra</p>
<p>sjálfstæða og frjálsa,</p>
<p>handvissa um að höndla</p>
<p>hamingju og gaman.</p>
<p> </p>
<p>Árin hundrað eru</p>
<p>orðin síðan forðum</p>
<p>viss mér veittist réttur,</p>
<p>vonir glæddust konum.</p>
<p>Mál er því að mæla,</p>
<p>minnast þess og finna</p>
<p>hjörtun sem eitt hjarta,</p>
<p>huginn taka flugið,</p>
<p> </p>
<p>heldur betur halda</p>
<p>hátíð, okkur láta</p>
<p>dreyma – lifa drauma,</p>
<p>dvelja í núi og velja</p>
<p>jafnrétti og jöfnuð,</p>
<p>jákvæðni og ákefð,</p>
<p>leið sem liggur héðan,</p>
<p>ljósið alltaf kjósa.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Þórarinn Eldjárn</p>
<p>Fjallkona: Katla Margrét Þorgeirsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2014 - Mynd til Láru<p>snemma morguns engi á</p>
<p>einn með vota fætur</p>
<p>dengir ungur drengur ljá</p>
<p>dýjamosinn grætur</p>
<p> </p>
<p>litir jarðar lifa í sátt</p>
<p>logn um fjörð og grundir</p>
<p>fugl í lofti flýgur hátt</p>
<p>fiskur vakir undir</p>
<p> </p>
<p>sátu hleður sigurlín</p>
<p>sokkaplöggin nýleg</p>
<p>litfríð raular lögin sín</p>
<p>lagleg iðin hlýleg</p>
<p> </p>
<p>fullt hús matar fyllir segg</p>
<p>fer svo vel í munni</p>
<p>harðsoðið er indælt egg</p>
<p>úti í náttúrunni</p>
<p> </p>
<p>lengi ef maður vinnur verk</p>
<p>verður maður lúinn</p>
<p>sýru vætir sopi kverk</p>
<p>senn er dagur búinn</p>
<p> </p>
<p>rauðan málar röðull tind</p>
<p>rómantíkin brjáluð</p>
<p>augnablikið eins og mynd</p>
<p>sem aldrei verður máluð</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Valgeir Guðjónsson</p>
<p>Fjallkona: Valgerður Guðnadóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2013 - Íslands æviskeið<p>Ungbarnið Ísland</p>
<p>sem gjálfrar og syngur</p>
<p>steypir sér með tærum hlátri</p>
<p>niður mosagrænar hlíðar</p>
<p> </p>
<p>Táningurinn Ísland</p>
<p>álappalegur en fullur af krafti</p>
<p>með rytjulegan gróður í vöngum</p>
<p>finnst hann fær í flestan sjó</p>
<p> </p>
<p>Ástfangin kona með</p>
<p>seiðandi glampa í dökkum</p>
<p>augum sumartjarnar</p>
<p>vaggar þér í lyngmjúkum</p>
<p>faðmi sínum</p>
<p> </p>
<p>Bláleitir risar vaka yfir okkur</p>
<p>varnarlausir með opinn faðminn</p>
<p>hvítfyssandi er hár þeirra</p>
<p>græn eru hjörtu þeirra</p>
<p>seint gróa sár þeirra</p>
<p> </p>
<p>Bergmálar þjóðarsálin milli kletta</p>
<p> </p>
<p>Saga lands og þjóðar</p>
<p>sem dregin er í gljúpa mold</p>
<p>rist með fjallsoddi í skýin</p>
<p>trömpuð með hófförum ofan í grænt gras</p>
<p>múruð inn í steypu og negld í sperrur</p>
<p>hlegin inn í endalausa vornótt</p>
<p> </p>
<p>Í hundrað og einum tekur hipster í nefið</p>
<p>bóndinn fyrir norðan býður upp á latté</p>
<p> </p>
<p>Hin aldna Íslands frú</p>
<p>ber skýjadún að hrukkóttum vanga</p>
<p>hvítar hærur á breiðum öxlum</p>
<p>hægur andardráttur haustkvöldsins</p>
<p> </p>
<p>Brostin frostaugu</p>
<p>vetrartjarnar</p>
<p>Kófar gulli yfir veginn</p>
<p>í síðustu geislum sólarinnar</p>
<p> </p>
<p>og svo</p>
<p> </p>
<p>aftur vor</p>
<p> </p>
<p>og hlæjandi í rigningunni</p>
<p>stendur lítið barn</p>
<p>í litríkum stígvélum</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Ingunn Snædal</p>
<p>Fjallkona: Selma Björnsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2012 - Ávarp fjallkonunnar<p>það var í árdaga</p>
<p> </p>
<p>kapphlaupið yfir hnöttinn var hafið</p>
<p>leitin að allsnægtalandinu</p>
<p>eilífðarlandinu</p>
<p>landinu þar sem aldrei væri hungur</p>
<p>aldrei dauði</p>
<p> </p>
<p>yfir illuklif</p>
<p>gljúfraþil</p>
<p>fúafen og svörtuskóga</p>
<p>öræfi, ólgandi höf</p>
<p>allt til enda veraldar</p>
<p> </p>
<p>allsstaðar voru spor eftir fót</p>
<p>allsstaðar ummerki um menn</p>
<p>utan hér</p>
<p>umlukin fjarskanum</p>
<p>eyjan</p>
<p>ein í firrðinni</p>
<p>allsnægtalandið</p>
<p>eilífðarlandið</p>
<p> </p>
<p>kafið í gróðri</p>
<p>iðandi af fugli</p>
<p>morandi í fiski</p>
<p>matarkista í miðju hafinu</p>
<p>spúandi eldfjöll</p>
<p>sjóðandi hverir</p>
<p>háfleygir jöklar</p>
<p>himinbláminn</p>
<p> </p>
<p>aðrar þjóðir þurftu að berjast um hvern skika</p>
<p>þú fékkst að sitja ein að þínu</p>
<p>aðrar þjóðir voru herleiddar</p>
<p>öryggið var ykkar hlutskipti</p>
<p> </p>
<p>vetrarríkið breyttist í stofuhita</p>
<p>bæjarlækurinn í ljós og orku</p>
<p>ógrynnin voru þín</p>
<p>hið ómælda kom í þinn hlut</p>
<p>eilífðin í stundaglasi</p>
<p>en getur þjóð dáið úr þrasi?</p>
<p> </p>
<p>það var í árdaga</p>
<p>það er í dag</p>
<p>allsnægtalandið</p>
<p>eilífðarlandið</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Pétur Gunnarsson</p>
<p>Fjallkona: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2011 - Ávarp fjallkonunnar<p>Það bærist ekki hár</p>
<p>á höfði Jóns</p>
<p>þar sem hann trónir</p>
<p>staffírugur á stöplinum</p>
<p>og hvessir augun</p>
<p>út á Tjörnina</p>
<p> </p>
<p>Á hverju vori</p>
<p>gætir hann þess</p>
<p>að ungarnir komist upp</p>
<p>hikar ekki við</p>
<p>að stökkva niður</p>
<p>og stugga við</p>
<p>mávinum</p>
<p> </p>
<p>Hattinum</p>
<p>fleygði Jón</p>
<p>í fugl</p>
<p>hefur verið</p>
<p>berhöfðaður síðan</p>
<p> </p>
<p>Dúfa gekk undir</p>
<p>dúfuvæng og</p>
<p>bauðst til að</p>
<p>sækja höfuðfatið</p>
<p>en Jón er staðfastur</p>
<p>eins og karl á krossgötum</p>
<p>undir álfakvaki</p>
<p> </p>
<p>Hatturinn er</p>
<p>úti í Hólma</p>
<p> </p>
<p>geymir hreiður</p>
<p>úr stráum</p>
<p>dúni og</p>
<p>draumsýn</p>
<p> </p>
<p>Örsmá eggin</p>
<p>óræk sönnun þess</p>
<p>að stærsta skuldin</p>
<p>er alltaf</p>
<p>þakkarskuldin</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Gerður Kristný</p>
<p>Fjallkona: Vigdís Hrefna Pálsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2010 - Ávarp fjallkonunnar<p>Hvaða eyjar hafa sigrað mig?</p>
<p> </p>
<p>Hvaða sker glapið mér sýn?</p>
<p> </p>
<p>Eyjarnar eru allt í kringum mig</p>
<p>og sker á bakborða og stjórnborða.</p>
<p>Fuglar eiga sér hreiður</p>
<p>á hverjum bletti, í holum og á milli nakinna steina.</p>
<p>Sjaldgæfur fugl býr í hamri</p>
<p>með vænghaf sem skyggir á jörðina.</p>
<p> </p>
<p>Hvaða eyjar?</p>
<p>Hvaða sker?</p>
<p> </p>
<p>Þessi lönd</p>
<p>Í miðju hafinu</p>
<p>brosa eða glotta við okkur.</p>
<p>Við siglum óttalaus.</p>
<p>Alveg rétt hjá boðum og björgum.</p>
<p> </p>
<p>Eyjarnar breiða úr sér</p>
<p>með skærum sumarlitum,</p>
<p>vilja taka okkur að sér,</p>
<p>fóstra okkur í ríki sínu</p>
<p>Okkar er að velja.</p>
<p>Öldugjálfrið og kurr fuglanna</p>
<p> seiða okkur, söngur forn og nýr.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jóhann Hjálmarsson</p>
<p>Fjallkona: Unnur Ösp Stefánsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2009 - Séra Þorsteinn Helgason<p>Hvarmaskúrir harmurinn sári</p>
<p>harðar æsti minnst er varði;</p>
<p>vakna þeir ei, en sitja og sakna,</p>
<p>segjast ei skilja hvað drottinn vilji;</p>
<p>þegar í á und ísi bláum</p>
<p>ástarríka hjartað í líki</p>
<p>friðað og kalt er sofið, þeim svíður,</p>
<p>sakna og trega – en engi vaknar!</p>
<p> </p>
<p>Veit þá engi að eyjan hvíta</p>
<p>átt hefir daga, þá er fagur</p>
<p>frelsisröðull á fjöll og hálsa</p>
<p>fagurleiftrandi geislum steypti;</p>
<p>veit þá engi að oss fyri löngu</p>
<p>aldir stofnuðu bölið kalda,</p>
<p>frægðinni sviptu, framann heftu,</p>
<p>svo föðurláð vort er orðið að háði.</p>
<p> </p>
<p>Veit þá engi að eyjan hvíta</p>
<p>á sér enn vor, ef fólkið þorir</p>
<p>guði að treysta, hlekki hrista,</p>
<p>hlýða réttu, góðs að bíða;</p>
<p>fagur er dalur og fyllist skógi</p>
<p>og frjálsir menn, þegar aldir renna;</p>
<p>skáldið hnígur og margir í moldu</p>
<p>með honum búa – en þessu trúið!</p>
<p> </p>
<p>Veit þá engi að eyjan hvíta</p>
<p>átt hefir sonu fremri vonum,</p>
<p>hugðu þeir mest á fremd og frægðir,</p>
<p>fríðir og ungir hnigu í stríði;</p>
<p>svo er það enn, og atburð þenna</p>
<p>einn vil eg telja af hinum seinni:</p>
<p>Vinurinn fagri oss veik af sjónum</p>
<p>að vonum, því hann var góður sonur.</p>
<p> </p>
<p>Og góður sonur getur ei séna</p>
<p>göfga móður með köldu blóði</p>
<p>viðjum reyrða og meiðslum marða,</p>
<p>marglega þjáða, og fá ei bjargað.</p>
<p>Guð er á himnum heima faðir</p>
<p>og hrelldra barna, hvað sem veldur.</p>
<p>Særði bróðir! siginn í værðir,</p>
<p>hann sá þig glöggt undir ísi bláum.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jónas Hallgrímsson</p>
<p>Fjallkona: Elva Ósk Ólafsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2008 - Ávarp fjallkonunnar<p>Landslag! það hljómar</p>
<p>í sal undir himninum, sungið</p>
<p>af dætrum mínum, þeim tjörn og tó</p>
<p>fit, mýri og mörk:</p>
<p> </p>
<p>leiðarstef</p>
<p>til þín, gegnum þokur tímans!</p>
<p> </p>
<p>Þú vissir ei</p>
<p>hver þú varst í raun, fyrr en þar;</p>
<p>þú sættist hvergi</p>
<p>við sjálfan þig betur en þar;</p>
<p> </p>
<p>þú villtist hvergi</p>
<p>jafn voðalega,</p>
<p>jafn þakksamlega sem þar!</p>
<p>Svo kliðmjúk, höfug</p>
<p> er kveðandin sú að heyra.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Þorsteinn frá Hamri</p>
<p>Fjallkona: Elma Lísa Gunnarsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2007 - Ávarp fjallkonunnar<p>Að eiga sér stað</p>
<p> </p>
<p>í staðlausum heimi</p>
<p>eiga þar heima</p>
<p>eiga heima í heimi</p>
<p>eins og ekkert sé.</p>
<p>Eiga þar</p>
<p>varnarþing</p>
<p>viðspyrnu</p>
<p>vé.</p>
<p> </p>
<p>Að eiga sér mál</p>
<p>í málóðum heimi</p>
<p>sækja í þann sjóð</p>
<p>sagnir</p>
<p>fræði</p>
<p>ljóð</p>
<p>enn og aftur</p>
<p>geta ekki hætt að gruna</p>
<p>né gleymt að muna.</p>
<p> </p>
<p>Að eiga sér fjall</p>
<p>í flötum heimi</p>
<p>eiga þar skjól</p>
<p>skína við sól</p>
<p>láta sér lynda</p>
<p>leik regns og vinda.</p>
<p> </p>
<p>Eiga þar</p>
<p>mark</p>
<p>mið</p>
<p>kennileiti.</p>
<p> </p>
<p>Fjall</p>
<p>að horfa á</p>
<p>inn til lands</p>
<p>að horfa af</p>
<p>út yfir haf.</p>
<p> </p>
<p>Fjall</p>
<p>kona</p>
<p>karl</p>
<p>er allt</p>
<p>sem</p>
<p>þarf</p>
<p>í arf.</p>
<p> </p>
<p>Það er sú þrenning</p>
<p> sem rímar á móti menning.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Þórarinn Eldjárn</p>
<p>Fjallkona: Sólveig Arnarsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2006 - Einu-sinni-var-landið<p>Á einu-sinni-var eyjunni óx viður milli fjalls og fjöru</p>
<p>milli jökuls og strandar, sem sagt.</p>
<p> </p>
<p>Óvenju margt var hvítt. Jökullinn. Fossar.</p>
<p>Og bleikur fiskur þeyttist uppeftir þeim.</p>
<p> </p>
<p>Enginn var til vitnis um þau glitrandi hástökk</p>
<p>nema einsetumaður frá Írlandi sem lét ekki </p>
<p> nafns síns getið.</p>
<p> </p>
<p>Refurinn er ekki það sem við köllum vitni,</p>
<p>og þá ekki langt að kominn farfugl</p>
<p>sem var þá stundina ekki að hugsa um að fara neitt</p>
<p>heldur að kenna treggáfuðum ungum að blaka sér frá jörðu.</p>
<p> </p>
<p>Ég veit ekki hvað þeir írsku kölluðu þetta einu-sinni-var-land</p>
<p>en svo mikið víst að þeir lofuðu guð hátt og í hljóði</p>
<p>við marga læki og í rjóðrum.</p>
<p> </p>
<p>Þeir lofuðu hann alveg sérstaklega fyrir að vísa þeim</p>
<p>norður í Paradís, yfir stórt haf. Á eyju sem var græn</p>
<p>eins og sú sem þeir sigldu frá</p>
<p> </p>
<p>en hún var allt öðru vísi græn, talsvert stærri, og</p>
<p>þessir jöklar. Yfir þá og margt fleira urðu þeir að búa</p>
<p> til orð.</p>
<p> </p>
<p>En jafnvel orðhagir menn voru orðlausir yfir þessa eyju</p>
<p>og töldu sig vera í sérstakri náð að mega finna hana.</p>
<p>Fá að vera þar.</p>
<p> </p>
<p>Eitt helsta þakkarefni voru furðulega vel vaxnir fossar.</p>
<p> </p>
<p>Einsetumaðurinn sem kemur fyrir í þessu ljóði samdi</p>
<p>sérstaka bæn sem hann hafði yfir við hvern foss. Það</p>
<p>gat verið tafsamt og stytt dagleiðina. Því hann var</p>
<p>samviskusamur og reiknaði einföldustu flúðir með.</p>
<p> </p>
<p>Eitt af því sem hann hugsaði var að hann mundi ekki</p>
<p>eignast skárri paradís að sér dauðum, og tæpast svona</p>
<p>mikið út af fyrir sig.</p>
<p> </p>
<p>Sú hugsun stangaðist hins vegar á við bókina</p>
<p>og var því ekki nothæf í formlegri bæn.<br />
<br />
</p>
<p>---<br />
<br />
</p>
<p>Hann áttaði sig þegar leið á fyrsta sumar.</p>
<p> </p>
<p>Fyrirheitna landið var til. Jörð lifandi manna.</p>
<p>Unaðsvellir.</p>
<p> </p>
<p>Og hann var þangað kominn, fyrir náðina.</p>
<p> </p>
<p>Gróður ekki eins fjölbreyttur og af var látið,</p>
<p>enda kaldara í veðri. Hvergi daðla, náttúrlega.</p>
<p> </p>
<p>En þetta var það.</p>
<p> </p>
<p>Ódáinsvellir. Ekki neðansjávar eins og stundum var talið,</p>
<p>heldur risu þessir sérlega mikið úr sjó.<br />
<br />
</p>
<p>---<br />
<br />
</p>
<p>Þegar hann áttaði sig hvert hann var kominn</p>
<p>(og hann gerði það ekki smátt og smátt, heldur í</p>
<p> hugljómun)</p>
<p>varð hann svo utan við sig</p>
<p>að hann féll í fagnaðarleiðslu heilt dægur.</p>
<p> </p>
<p>Lofaði svo Patrek sinn hástöfum í átta tíma samfleytt</p>
<p>þegar hann kom til sjálfs sín</p>
<p>en þá var því miður farið að rigna.</p>
<p> </p>
<p>Það sóttu að honum efasemdir í kvefpestinni,</p>
<p>en þær urðu ekki til annars en styrkja hann í trúnni á</p>
<p>fyrirheitna landið þegar hann var orðinn hitalaus.</p>
<p> </p>
<p>Og hann lofaði dýrling sinn á nýjan leik, í þurru veðri,</p>
<p>og með hléum.<br />
<br />
</p>
<p>---<br />
<br />
</p>
<p>Hann samdi sérstaka þakkarbæn fyrir það að</p>
<p>Paradísareyjan var svo umfangsmikil.</p>
<p> </p>
<p>Þótt hann hefði í sjálfu sér ekkert við þetta flæmi að gera</p>
<p>og færi heldur í stuttar ferðir en langar.</p>
<p>Legði ekki í fleiri ár en þurfti, og ekki jöklana að ráði.</p>
<p> </p>
<p>Það var ljóst að hann hafði fundið sér besta stað</p>
<p>dýrlega laut í landið, við Urriðavatn sem teygði sig</p>
<p>langt úr sjónmáli, umvafið fjöllum í heilhring og</p>
<p>mosadyngjum.<br />
<br />
</p>
<p>---<br />
<br />
</p>
<p>Hann var auðvitað skáld þótt hann hefði ekki </p>
<p> lýst sér þannig</p>
<p>og hann hugsaði mjög mikið um nöfn, jafnvel á kostnað</p>
<p> bænahalds.</p>
<p> </p>
<p>Þegar hann hvarf frá eyjunni sem hann skírði Ljósgræna</p>
<p>landið af því hún var bæði ljós og græn</p>
<p>hafði hann skírt 1950 fjöll fossa vötn ár læki hnúka</p>
<p> gnípur.</p>
<p> </p>
<p>Vetrarnöfnin risti hann á ísinn: Skuggafell, </p>
<p> Dauðsmannsdalur.</p>
<p> </p>
<p>Dró sumarnöfnin í sand: Glithlíð, Smjörviðarey, </p>
<p> Hunangslækur.</p>
<p> </p>
<p>Fyrsta íslenska skáldið og vissi ekki að það var hann.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Steinunn Sigurðardóttir</p>
<p>Fjallkona: Elsa G. Björnsdóttir og Tinna Hrafnsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2005 - Fjallkonan<p>I</p>
<p>Í þúsund ár</p>
<p>lá hún falin</p>
<p>í köldum faðmi fjallsins</p>
<p>fjarri almannaleið</p>
<p>konan unga</p>
<p>sem Seyðfirðingar fundu</p>
<p>uppi á Vestdalsheiði</p>
<p> </p>
<p>Hver var hún?</p>
<p>Hvað var hún að vilja</p>
<p>einsömul</p>
<p>skartbúin</p>
<p>inni á Afrétt?</p>
<p> </p>
<p>II</p>
<p>Var hún kannski á flótta</p>
<p>komin úr firði Loðmundar gamla</p>
<p>yfir Afréttarskarð</p>
<p>að leita fars utan</p>
<p>frá Seyðisfirði</p>
<p>heim til Suðureyja?</p>
<p> </p>
<p>III</p>
<p>Miklu heldur vísindakona</p>
<p>sem kunni á mörgu skil</p>
<p>þekkti jurtir og steina</p>
<p>safnaði lífgrösum og hjálparrótum</p>
<p>ferðaðist óttalaus</p>
<p>um landið</p>
<p> </p>
<p>Aufúsugestur hvar sem hún kom</p>
<p> </p>
<p>Læknir</p>
<p>Nærkona</p>
<p>Ljósmóðir</p>
<p> </p>
<p>Hnífinn sinn oddhvassa og beitta</p>
<p>notaði hún</p>
<p>til að stinga á meinum</p>
<p>til að skilja á milli</p>
<p>til að grafa upp rætur</p>
<p> </p>
<p>IV</p>
<p>Við lækinn undir klettinum</p>
<p>ætlaði hún að æja stundarkorn</p>
<p>Hún bar hönd fyrir augu</p>
<p>skyggndist um</p>
<p>gáði að fuglum</p>
<p>þekkti þá flesta</p>
<p>ekki sömu tegundir og heima</p>
<p>heldur sömu fuglarnir</p>
<p>þeir flugu hingað út</p>
<p>í stórum flokkum</p>
<p>á litlu vængjunum sínum</p>
<p>rétt eins og þau</p>
<p>sigldu yfir hafið í samfloti</p>
<p>byrþanin seglin eins og vængir</p>
<p>á víðum útsænum</p>
<p>fuglar og fólk</p>
<p>í óvissuferð</p>
<p>út í bláinn</p>
<p> </p>
<p>V</p>
<p>Hér byggðu menn með lögum</p>
<p>gott land og fagurt</p>
<p> </p>
<p>VI</p>
<p>Hún brosti </p>
<p>þegar henni var hugsað til kvennanna</p>
<p>sem áhyggjufullar</p>
<p>tróðu út skjóður sínar</p>
<p>með fræjum og græðlingum</p>
<p>jafnvel mold</p>
<p>allt fannst það hér</p>
<p>þarna niðri á hálsinum</p>
<p>ofan við lönguhlíðina</p>
<p>í lómatjörninni</p>
<p>vex reiðingsgrasið</p>
<p>þráðbeinir blómleggirnir teygja sig</p>
<p>upp úr álftakólfunum</p>
<p>með ilmandi klösum</p>
<p>af fimmgeislastjörnum</p>
<p> </p>
<p>VII</p>
<p>Hún bjó sig til að halda áfram</p>
<p>þá kvað við brestur</p>
<p>fjallið gliðnaði sundur</p>
<p>og umlukti hana</p>
<p>sterkum örmum</p>
<p> </p>
<p>VIII</p>
<p>Þúsund ár sem dagur</p>
<p> </p>
<p>Fjallið hefur opnað sig</p>
<p> </p>
<p>Frjáls og hnarreist</p>
<p>stendur hún undir</p>
<p>Sandhólatindi</p>
<p>fjallkonan okkar.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Vilborg Dagbjartsdóttir</p>
<p>Fjallkona: Þrúður Vilhjálmsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2004 - Vorvísur 17. júní 1911<p>Sjá roðann á hnjúkunum háu!</p>
<p>Nú hlýnar um strönd og dal,</p>
<p>nú birtir í býlunum lágu,</p>
<p>nú bráðna fannir í jöklasal.</p>
<p>Allar elfur vaxa,</p>
<p>og öldunum kvikum hossa.</p>
<p>Þar sindrar á sægengna laxa,</p>
<p>er sækja í bratta fossa.</p>
<p>Fjallató og gerði gróa,</p>
<p>grund og mói skipta lit.</p>
<p>Út um sjóinn sólblik gróa,</p>
<p>syngur lóa´ í bjarkarþyt</p>
<p> </p>
<p>Hér sumrar svo seint á stundum!</p>
<p>Þótt sólin hækki sinn gang,</p>
<p>þá spretta´ekki laufin í lundum</p>
<p>né lifna blómin um foldarvang,</p>
<p>því næturfrost og nepjur</p>
<p>oft nýgræðinginn fella –</p>
<p>sem hugans kul og krepjur</p>
<p>oft kjark og vonir hrella.</p>
<p>Allt í einu geislar geysast,</p>
<p>guð vors lands þá skerst í leik,</p>
<p>þeyrinn hlýnar, þokur leysast,</p>
<p>þróast blóm og laufgast eik.</p>
<p> </p>
<p>Nú skrýðist í skrúðklæði landið</p>
<p>og skartar sem best það má.</p>
<p>Allt loftið er ljóðum blandið</p>
<p>og ljósálfar dansa grundunum á.</p>
<p>Gleymt er gömlum meinum</p>
<p>og gleymt er vetrar stríði.</p>
<p>Menn muna eftir einum</p>
<p>sem aldrei fyrnist lýði.</p>
<p>Þó að áföll ýmiss konar</p>
<p>ella sundri og veiki þrótt –</p>
<p>minning hans: Jóns Sigurðssonar</p>
<p>safnar allri frónskri drótt.</p>
<p> </p>
<p>Sjá! óskmögur Íslands var borinn</p>
<p>á Íslands vorgróðurstund,</p>
<p>hans von er í blænum á vorin,</p>
<p>hans vilji´og starf er í gróandi lund.</p>
<p>Hann kom, er þrautin þunga</p>
<p>stóð þjóðlífs fyrir vori,</p>
<p>hann varð þess vorið unga</p>
<p>með vöxt í hverju spori.</p>
<p>Hundrað ára vor hans vekur</p>
<p>vonir nú um Íslands byggð,</p>
<p>nepjusúld og sundrung hrekur,</p>
<p>safnar lýð í dáð og tryggð.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Hannes Hafstein</p>
<p>Fjallkona: Brynhildur Guðjónsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2003 - Hvar sem ég verð<p>I</p>
<p>Úr myrkum skógi – rödd</p>
<p>af svörtum himni – orð</p>
<p> </p>
<p>Í lófa mínum skerast allar línur</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>Hvar ef ekki hér </p>
<p>á stundlausum stað</p>
<p>á staðlausri stund</p>
<p> </p>
<p>hvenær ef ekki nú</p>
<p>sem er þá og ennþá</p>
<p>var er verður núþá?</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>Tíminn sem mér gefinn var</p>
<p>á grænni jörð!</p>
<p> </p>
<p>úr myrkum skógi</p>
<p>af svörtum himni</p>
<p>í lófa minn</p>
<p> </p>
<p>og splundrast.</p>
<p> </p>
<p>II</p>
<p>Veð lækinn</p>
<p>andstreymis</p>
<p> </p>
<p>uppsprettan óvænt:</p>
<p>niðandi vötnin</p>
<p> </p>
<p>tær og glitrandi</p>
<p>tunguvötnin</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>vatn í lófa</p>
<p>lifandi</p>
<p>auga sem</p>
<p>gárast</p>
<p> </p>
<p>hönd mín síli</p>
<p>steinar </p>
<p>slý</p>
<p> </p>
<p>kyrrð á ný</p>
<p>og vatnið – opið auga</p>
<p> </p>
<p>III</p>
<p>Niður stigann </p>
<p>alltaf niður</p>
<p>undinn stigann</p>
<p> </p>
<p>niðri – dyr</p>
<p>og opnast hægt</p>
<p>hjarir ískra</p>
<p>þrusk í hornum</p>
<p>þögn</p>
<p> </p>
<p>skáhöll fellur</p>
<p>skíma um ljóra</p>
<p>hátt á vegg</p>
<p> </p>
<p>og þögn</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>Blóðugt líf</p>
<p>á bláþræði</p>
<p> </p>
<p>kviknar</p>
<p>ljós</p>
<p>og myrkrið</p>
<p>deyr</p>
<p>en þú</p>
<p>lifir</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>Og tekur til máls í þröngu rými kvöldsins</p>
<p>rekur þræðina spinnur teygir kembir</p>
<p>kynnir til sögunnar</p>
<p>tendrar að lokum</p>
<p>tvírætt bros svo djúp þessi nálægð</p>
<p>svo náin</p>
<p> </p>
<p>IV</p>
<p>Hafi ég þekkt þig</p>
<p> </p>
<p>séð þig ganga</p>
<p>horn úr horni</p>
<p>fram aftur</p>
<p>álútan</p>
<p> </p>
<p>hlébarða Rilkes</p>
<p>í þrengslum tímans</p>
<p> </p>
<p>hafi ég vitað …</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>Augu þín </p>
<p>og slikja fjarlægðar?</p>
<p> </p>
<p>Munnur þinn</p>
<p> </p>
<p>Öll þessi ógrónu sár</p>
<p> </p>
<p>V</p>
<p>Fjarlægðin </p>
<p>útþráin</p>
<p>flóttinn:</p>
<p> </p>
<p>ferð</p>
<p> </p>
<p>um ókunna heima</p>
<p>og endar</p>
<p>hvergi</p>
<p> </p>
<p>VI</p>
<p>Innst inni</p>
<p>kjarni einsemdar</p>
<p>aldrei klofinn</p>
<p> </p>
<p>kjarni </p>
<p>þinn</p>
<p> </p>
<p>einsemd</p>
<p>aldrei rofin</p>
<p>innst inni</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>Sálin segirðu, sálin?</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>sit og varpa skugga</p>
<p>á svartan vegg</p>
<p> </p>
<p>drykk</p>
<p>langan</p>
<p>daginn</p>
<p> </p>
<p>safna hvítum skýjum</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>Spor þín í mjöllinni</p>
<p>máð fyrir löngu</p>
<p> </p>
<p>og fingraför dagsins</p>
<p>sem færði mér þig:</p>
<p> </p>
<p>sebradýr svarthvítt</p>
<p>úr svipulum draumi</p>
<p> </p>
<p>VII</p>
<p>Tíminn aldrei einn:</p>
<p> </p>
<p>lít á klukku</p>
<p>fletti blaði</p>
<p>sýp úr bolla</p>
<p>hrukka ennið</p>
<p>elti alltaf</p>
<p>vindinn</p>
<p>vindinn …</p>
<p> </p>
<p>meðan berast</p>
<p>á banaspjót</p>
<p>börn annars tíma</p>
<p>annars staðar</p>
<p> </p>
<p>samtímis </p>
<p>og þó svo </p>
<p>sundur</p>
<p> </p>
<p>tíminn aldrei einn</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>á banaspjót</p>
<p>í stofunni hér</p>
<p> </p>
<p>kvöld eftir kvöld</p>
<p> </p>
<p>VIII</p>
<p>Þráði að lifa tíma tvenna:</p>
<p> </p>
<p>reika um dimma skóga</p>
<p>seið í rjóðri magna</p>
<p>þeysa um grundir</p>
<p>lauguð birtu</p>
<p>leggja að velli</p>
<p>mann og annan</p>
<p> </p>
<p>ómþunga stríða</p>
<p>strengi slá</p>
<p>um stræti og torg</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>Af sléttri grund</p>
<p> </p>
<p>og teygir sig</p>
<p>til sólar</p>
<p> </p>
<p>villtasta</p>
<p>rauðasta</p>
<p>rósin!</p>
<p> </p>
<p>IX</p>
<p>Syngurðu?</p>
<p> </p>
<p>Eflaust fjallinu lof</p>
<p>rímuðu stuðlafjalli</p>
<p>myndhverfum himni</p>
<p>og hestinum áttfætta</p>
<p>níu nóttum í tré</p>
<p>að ógleymdum</p>
<p>meyjunum</p>
<p>sviknu</p>
<p> </p>
<p>Treður þig mara: allt</p>
<p>var áður sagt</p>
<p>og betur</p>
<p> </p>
<p>X</p>
<p>Nú dreymir mig:</p>
<p> </p>
<p>framundan</p>
<p>skáhallur flötur</p>
<p>að hálfopnum dyrum</p>
<p>og streymir inn</p>
<p>dagsbirtan</p>
<p> </p>
<p>bakvið mig</p>
<p>mannverur</p>
<p>ókunnar, óséðar</p>
<p>við erum þrjár</p>
<p>göngum saman</p>
<p>til ljóssins</p>
<p> </p>
<p>– og vakna:</p>
<p> </p>
<p>með mér í vökunni kvíðinn</p>
<p>áferð gamalla veggja</p>
<p>hrjúf rykug og</p>
<p>keimur hins liðna</p>
<p>ævarandi</p>
<p>keimur</p>
<p>hins fram-</p>
<p>liðna</p>
<p> </p>
<p>XI</p>
<p>Hér er ekkert</p>
<p>sem sýnist: ég hlaut</p>
<p>að gjöf þennan lampa</p>
<p>sem lýsir um nætur</p>
<p>og aðrir fá </p>
<p>aðeins grillt</p>
<p>eða grunað</p>
<p>í gjörningaþokum</p>
<p>sárustu sorga</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>af herðum fellur</p>
<p>þyngsta okið</p>
<p>þúsundfalt</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>hvar sem ég verð</p>
<p>ó kom þú til mín</p>
<p> </p>
<p>XII</p>
<p>Úr myrkum skógi</p>
<p>af svörtum himni</p>
<p> </p>
<p>Stundlaus staður</p>
<p>staðlaus stund</p>
<p> </p>
<p>*</p>
<p> </p>
<p>nú væri við hæfi</p>
<p>að heyrðist í fjarska</p>
<p> </p>
<p>klukknahljómur</p>
<p> </p>
<p>og marr í hvítri mjöll</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Ingibjörg Haraldsdóttir</p>
<p>Fjallkona: Inga María Valdemarsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2002 - Þjóðlag<p>Veistu að ég bíð þín</p>
<p>og vaki hér og bíð þín</p>
<p>bak við grænar rúður</p>
<p>og ryðbrunnar skrár,</p>
<p>bak við brúnar heiðar,</p>
<p>bak við dag og ár?</p>
<p> </p>
<p>Enginn hefur séð mig,</p>
<p>en allir hafa þráð mig,</p>
<p>svarið eið og söðlað,</p>
<p>hinn sviffráa jó,</p>
<p>hrakist vegavilltir</p>
<p>um vindkaldan skóg.</p>
<p> </p>
<p>Úlfar hafa elt þá</p>
<p>og álfar hafa tælt þá,</p>
<p>töfrað þá og tafið</p>
<p>við tafl og gull og vín;</p>
<p>flestir hafa gleymt að</p>
<p>þeir fóru að leita mín.</p>
<p> </p>
<p>Nóttin hefur náð þeim</p>
<p>og nornir tekið við þeim,</p>
<p>ekki skaltu hræðast</p>
<p>þann álagadóm;</p>
<p>einn átt þú að eiga</p>
<p>mitt unga liljublóm.</p>
<p> </p>
<p>Óhrein verður leið þín</p>
<p>en þú manst, ég bíð þín;</p>
<p>fram hjá hamrahengjum</p>
<p>og húmrauðri gátt</p>
<p>svífa svanir þínir</p>
<p>með söng í rétta átt.</p>
<p> </p>
<p>Ein og sóllaus sit ég</p>
<p>en sæl, því aldrei get ég</p>
<p>trúað öðru en ósk mín</p>
<p>og ást þín nái mér;</p>
<p>fallir þú og týnist</p>
<p>þá fölna ég með þér.</p>
<p> </p>
<p>Hrekkur lokað hlið mitt?</p>
<p>Það hringja klukkur, blóð mitt</p>
<p>leitar þín í leiðslu,</p>
<p>það loga stjörnur tvær</p>
<p>við brjóst mín, bláar stjörnur;</p>
<p>ég brosi og kyssi þær.</p>
<p> </p>
<p>Vakir vakir þrá mín</p>
<p>og von mín og trú mín</p>
<p>bak við þrár og þrautir</p>
<p>og þokuslunginn veg,</p>
<p>bak við óð og ástir,</p>
<p>ástin, þú og ég.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Snorri Hjartarson</p>
<p>Fjallkona: Nína Dögg Filippusdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2001 - En huldukonan kallar…<p>Ég vitja þín sem vor af fjarri strönd</p>
<p>og vorið mitt er blóm í grannri hönd</p>
<p>sem blik af sól, og birkiilmur fer</p>
<p>með bláa þögn og fugl ið næsta sér,</p>
<p>minn ilmur líkt og andi blóm við kinn</p>
<p>og æska þín sé förunautur minn</p>
<p>á strangri ferð um veröld vors sem er</p>
<p>mín vegalausa þrá í fylgd með þér.</p>
<p> </p>
<p>Og hugsun mín er fugl, ég feta ein</p>
<p>mitt flug sem kliði sunnanblær við grein,</p>
<p>hann skilur eftir andartak á vori</p>
<p>með ilm af jörð og sól í hverju spori</p>
<p> </p>
<p>og hugsun mín er fugl, sá vængur fer</p>
<p>með fögnuð þessa dags í brjósti sér.</p>
<p> </p>
<p>Minn svali andblær saknar þín sem ert</p>
<p>í sárum skugga blóm svo mikilsvert,</p>
<p>það vitjar mín sem ilmur alls sem ber</p>
<p>mitt yndislega vor á höndum sér.</p>
<p> </p>
<p>Ég bíð og vona enn sem aldrei fyr</p>
<p>og allt er hljótt og nóttin björt og kyr,</p>
<p>mín sólskinsbjarta sumarnótt, hún mynnist</p>
<p>við svalan dag sem rennur hægt og grynnist,</p>
<p>hann vitjar þín, ég heyri hjarta þitt,</p>
<p>þinn hljóða slátt við rjúpnalaufið mitt</p>
<p> </p>
<p>og hugsun mín er fugl, hann fylgir mér</p>
<p>og flögrar eins og vor við hreiðrið sitt.</p>
<p> </p>
<p>Og allt er hljótt og heiðin dimm og blá</p>
<p>sem hvísl við sérhvert blóm og hvert eitt strá,</p>
<p>minn svali blær sem berst að vitum þér,</p>
<p> mín bláa kyrrð með þögn í fylgd með sér.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Matthías Johannessen</p>
<p>Fjallkona: Þórunn Lárusdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
2000 - Í upphafi var skip<p>Eins og skipin öll sem hrekur</p>
<p>útí glórulausan fjarska</p>
<p>og taka land djúpt í myrkvaðri höfn</p>
<p>ber einnig þetta skip á foráttuhaf út</p>
<p>undan afli sem menn fá ekki deilt við</p>
<p>og sem heldur sínu jafnvel fyrir hafinu –</p>
<p>heldur yfir sínu skipi vernd</p>
<p> </p>
<p>vindar Sögunnar hafa haft veður</p>
<p>af sæbörðu guðsríki einsetumunks</p>
<p>er hefur fleytt sér æði fífldjarfur</p>
<p>á bæn yfir vísan dauðann</p>
<p>að þessu athvarfi utan heimsins:</p>
<p>landi fugla</p>
<p>og sporlausra vegalengda um fjöll</p>
<p> </p>
<p>þennan dag</p>
<p>horfir Papinn ekki til fjalla</p>
<p>og ekki upp til himins</p>
<p>heldur rýnir útá hafbrautirnar</p>
<p>þaðan sem hann kom, sér hvar</p>
<p>sjóndeildarhringurinn brestur</p>
<p>sér þúst er hægt nálgast</p>
<p>og tekur á sig mynd</p>
<p>af segli, af trjónu ...</p>
<p> </p>
<p>bænir Papans um frið fyrir mönnum</p>
<p>fengu ekki aftrað því að aldir hlæðust upp</p>
<p>líkt og í útsýnismastur –</p>
<p>heiðið frjótákn</p>
<p>þeirra er flæddu um lönd grimmir sem tíminn ...</p>
<p>og lögðu loks reginhöf</p>
<p>skipi í gegn; þessi brestur</p>
<p>í sjónbaug eylandsins</p>
<p>rofið haft meylandsins</p>
<p>veitti braut því sem ekki varð hamið:</p>
<p>þeim er sá vildu dögum sínum</p>
<p>undir nýjum himni</p>
<p> </p>
<p>þetta er Sagan, hún skrifar sig sjálf</p>
<p>í löndin, fleytir hér knörrum</p>
<p>inná kálfskinn Landnámu ...</p>
<p>skrifar lifandi orðum</p>
<p>hvert nes, hverja strönd</p>
<p>líkt og menn strekki á milli sín net –</p>
<p>menn og konur – mikið net</p>
<p>er þau svo dýfa í hyl aldanna eftir fleirum</p>
<p> </p>
<p>og sjá: mannsbörn koma upp hvert af öðru</p>
<p>eins og orð í bók, Íslendingabók</p>
<p>en í upphafi –</p>
<p>okkar upphafi, söltu, rammheiðnu –</p>
<p>var skip</p>
<p>og fleiri skip, þunghlaðin, þung</p>
<p>af því óorðna, óskráða: mér, þér ...</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jónas Þorbjarnarson</p>
<p>Fjallkona: Jóhanna Vigdís Arnardóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1999 - Talað við ungt fólk<p>Þú, æska míns lands, sem lifir hið himneska vorið</p>
<p>þegar „loftið er draumablátt“</p>
<p>og bíður með óþreyju eftir að höll þín rísi</p>
<p>og ætlar að byggja hana hátt,</p>
<p>þig kveð ég um stund að streng hinnar gömlu hörpu,</p>
<p>sem afi þinn hefur átt.</p>
<p> </p>
<p>Sú harpa var stundum það einasta sem hún átti,</p>
<p>þín ætt, í landinu því</p>
<p>er hlúir þér nú, sínu barni, með blessandi hendi</p>
<p>við brjóst sín gjöful og hlý,</p>
<p>já, margt hefur gerst, – og sumt sem af alhug við óskum</p>
<p>að aldrei gerist á ný.</p>
<p> </p>
<p>Þú lærir af bókum um þrengingar íslenskrar þjóðar</p>
<p>og þrekraun til sævar og lands</p>
<p>og kúgun og áþján, hann afi þinn kunni þá sögu</p>
<p>og enn betur foreldrar hans,</p>
<p>sem vissu það skást að vænta sér góðs eftir dauðann,</p>
<p>er „sál fer til sæluranns“.</p>
<p> </p>
<p>Þú lærir það og, að við lyftum því Grettistaki</p>
<p>að losa um viðjar og bönd.</p>
<p>– En við gleymum svo fljótt.</p>
<p>Hve auðvelt er löngum að lokka</p>
<p>í ljónsginið óvitans hönd.</p>
<p>Því streymir nú blóð þinna systkina svartra og hvítra,</p>
<p>því loga hin hersetnu lönd.</p>
<p> </p>
<p>Og harpan hans afa skal vara þig við þeirri hættu,</p>
<p>sem vitjar þín jafnt og þétt:</p>
<p>Þér er ekki bært að bindast til neinnar áttar</p>
<p>þeim böndum er skerði þinn rétt</p>
<p>í landi þíns sjálfs, – því þá ert þú heillum horfin,</p>
<p>í sólleysið verður þú sett.</p>
<p> </p>
<p>Þitt hlutverk er stórt: að stefna til þeirrar aldar</p>
<p>er styrjöldum breytir í frið,</p>
<p>– og láttu ekki svíkja þau loforð sem þér voru gefin,</p>
<p>þar liggur þín framtíð við:</p>
<p>hinn svefndrukkni varðmaður vaknar um seinan, í angist,</p>
<p>með fjandmenn á hvora hlið.</p>
<p> </p>
<p>– Þú veist eins og ég, að fljótt líður fagurt vorið,</p>
<p>þá fækkar um söng og dans,</p>
<p>og skyldan hún kemur og kallar þig til þess að verja</p>
<p>þinn knérunn og arin hans,</p>
<p>og gerir þú það, þá átt þú um eilífð þitt frelsi</p>
<p>og fegurð þíns föðurlands.</p>
<p> </p>
<p>En lát þér ei íþyngt að hreimi gamallar hörpu,</p>
<p>sem hefur um stund verið mín,</p>
<p>að vályndur heimur unni þér ævinlegs friðar</p>
<p>er ósk mín og von til þín,</p>
<p>og njót þeirrar stundar er stjarnan fegurst af öllum</p>
<p>í heiði við Hraundranga skín.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Guðmundur Böðvarsson</p>
<p>Fjallkona: Þórey Sigþórsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1998 - Hafið dreymir<p>Ég sá hana systur þína.</p>
<p>Ég sat þá og orti um þig ljóð,</p>
<p>og vornóttin gekk fyrir gluggann minn</p>
<p>glóhærð og vangarjóð –</p>
<p>hún settist frammi við sæinn</p>
<p>og svæfði þar bróður sinn daginn</p>
<p>við blæþýtt báruhljóð –</p>
<p> </p>
<p>Og senn var allt í svefni:</p>
<p>Sólin í Ægisfangi,</p>
<p>hafið í húmkyrtli nætur</p>
<p>hvíldi við landsins fætur,</p>
<p>og landið hallaði höfðum fjalla</p>
<p>að himinsins baðmi –</p>
<p> </p>
<p>En þögnin draumkvikum þrýsti faðmi</p>
<p>um allt og alla – – </p>
<p> </p>
<p>Og minn hugur var haf –</p>
<p>haf í tunglskini bláu,</p>
<p>ómælis-haf, og himinninn einn var þess strönd.</p>
<p>Hafið var þögult – hafið svaf – </p>
<p>sem hrafnsvartir risafákar</p>
<p>á barmi þess öldur lognþungar lágu. </p>
<p>Flugeldar mánans um faxið stukku;</p>
<p>fáksbökin tinnudökk kvikuðu, hrukku</p>
<p>undan kitlandi geislunum hart, sem hjarta</p>
<p>úr hrynjandi eldi í búknum svarta</p>
<p>titraði, títt og ótt.</p>
<p>Þar hvíldu þeir, drukku í sig djúpsins þrótt</p>
<p>og fólu sín höfuð í hafsins nótt – –</p>
<p> </p>
<p>Og hafið dreymdi – –</p>
<p>dulrænn og töfrandi söngvaniður</p>
<p>frá djúpinu dimmbláu streymdi,</p>
<p>sem klukkna kliður</p>
<p>í kyrrum skóg,</p>
<p>sem blævar blak</p>
<p>í blundhöfgu sefi</p>
<p>í hljóðri haustnæturró.</p>
<p>– Hörpu þar sló</p>
<p>draumanna andi djúpt niðri’ í sjó</p>
<p>– því hafið dreymdi.</p>
<p>Draumur þess voru syngjandi sævarfljóð</p>
<p>með sægrænt hár,</p>
<p>og þaralauf dimmrauð, sem drjúpandi blóð</p>
<p>um drifhvítar brár.</p>
<p>En þögult hljóma haf</p>
<p>í húmi augnanna svaf – – </p>
<p> </p>
<p>– Og fleiri og fleiri úr fangi þess rísa þær,</p>
<p>sem faldhvítar bárur í húminu lýsa þær –</p>
<p>Og hafið dreymir –</p>
<p>djúpt við þess hjarta</p>
<p>draumanna guð sína hörpu slær –</p>
<p> </p>
<p>Og minn hugur var hafið –</p>
<p>hafið í náttbláma vafið.</p>
<p>Og draumar hafsins: lofsöngsljóð</p>
<p>frá lýrunni í brjósti mér –</p>
<p>ókveðnir ástarsöngvar –</p>
<p>allir til blessunar þér –</p>
<p> </p>
<p>Þá var það, ég sá hana systur þína,</p>
<p>er sat ég og orti þau ljóð.</p>
<p>Og morgunsólin mild og rjóð</p>
<p>um miðja nótt vakti sumardaginn</p>
<p>til brúðfarar langt yfir logntæran sæinn –</p>
<p> </p>
<p>Fyrr en ég vissi var hlýlegri hönd</p>
<p>um höfuð mér strokið – og titrandi önd</p>
<p>lék mér sem sólblær um svefnföla kinn –</p>
<p>systir þín stóð þar og brosti –;</p>
<p>hennar hár var svo ljóst sem lauf um haust,</p>
<p>og liljur og rósir ég sætt fann anga</p>
<p>frá vör henni og vanga.</p>
<p>Svo hóf hún máls með hörpuraust</p>
<p>og hlæjandi benti á mín kvæði –:</p>
<p> </p>
<p>„Ég sé að við berum þá bæði</p>
<p>í brjósti’ okkar góðan huga</p>
<p>til sömu mærinnar, sveinninn minn,</p>
<p>hann sýnir það, þessi óður þinn.</p>
<p>Mitt nafn er gæfa, ég garðkona er,</p>
<p>garðkona tímans, og víða ég fer. </p>
<p>Ég er systir hennar, er söngstu þín ljóð,</p>
<p>sál okkar ein og eitt okkar blóð,</p>
<p>og blóm mín öll hennar ævisaga,</p>
<p>því hver stund, er hún lifir, er lítið fræ,</p>
<p>er legg ég í hennar spor;</p>
<p>ég gef henni ekki annað en gullblómin mín,</p>
<p>ég gef henni ekki annað en sólskin og vor.</p>
<p>Kveddu henni systurkveðju mína.“</p>
<p> </p>
<p>Og inn yfir hugar míns haf</p>
<p>bar hljóma glaðværra braga,</p>
<p>hjartaslög hulinna daga –</p>
<p> </p>
<p> Ég sá hana systur þína!</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jóhann Jónsson</p>
<p>Fjallkona: Helga Braga Jónsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1997 - Var þá kallað<p>Dómhringinn sitja ármenn erlends valds,</p>
<p>enn ráðast mikil forlög smárrar þjóðar,</p>
<p>vorsól úr skýi vitjar kletts og tjalds,</p>
<p>á völlinn þyrpast sveitir kvíðahljóðar.</p>
<p> </p>
<p>Eitt nafn er kallað, flögrar fugl í leit</p>
<p>og felur ljósan væng í dökku bergi</p>
<p>og vekur dvergmál djúp og löng og heit:</p>
<p>hvað dvelur för hans? ennþá sést hann hvergi.</p>
<p> </p>
<p>Aftur er kallað, aftur sami kliður</p>
<p>ögrandi spurnar: verður hann of seinn</p>
<p>hinn langa veg, senn lýkur hinsta fresti.</p>
<p> </p>
<p>Við horfum austur hraun og bláar skriður,</p>
<p>horfum sem fyrr en sjáum ekki neinn</p>
<p>sólbitinn mann á sveittum mjóum hesti.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Snorri Hjartarson</p>
<p>Fjallkona: Halldóra Geirharðsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1996 - Vorið góða<p>Það man ég fyrst sem mína barnatrú</p>
<p>er myrkar hríðar léku um fenntan bæ,</p>
<p>að land mitt risi aftur, eins og nú,</p>
<p>úr ís og snæ,</p>
<p>úr ís og vetrarsnæ.</p>
<p> </p>
<p>Sjá, enn er mold þín mjúk og tún þín græn</p>
<p>og mildum bláma slær á hvern þinn sand,</p>
<p>og trú mín leitar þá í þökk og bæn</p>
<p>til þín, mitt land</p>
<p>til þín, mitt föðurland.</p>
<p> </p>
<p>Og hvílík náð og hvílík páska-jól</p>
<p>til handa þeim er verður allur senn,</p>
<p>í þínu skjóli að sitja og þinni sól</p>
<p>einn sumardag,</p>
<p>einn sumardaginn enn.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Guðmundur Böðvarsson</p>
<p>Fjallkona: Sigrún Sól Ólafsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1995 - Ísland<p>Ísland, Ísland! Eg vil syngja</p>
<p>um þín gömlu, traustu fjöll,</p>
<p>þína hýru heiðardali,</p>
<p>hamraskjól og vatnaföll;</p>
<p>þína fögru fjarðarboga,</p>
<p>frjálsa blæ og álftasöng,</p>
<p>vorljós þitt og vetrarloga,</p>
<p>vallarilm og birkigöng.</p>
<p> </p>
<p>Ísland, Ísland! Öllu fegri</p>
<p>er þín forna goðaströnd;</p>
<p>enginn getur yndi fjarri</p>
<p>er þín heiðtign lagði í bönd,</p>
<p>þeim, sem örlög frá þér flytja</p>
<p>fylgir þrá í ókunn lönd.</p>
<p>Ár og síðar öllum hollust</p>
<p>er þín trygga móðurhönd.</p>
<p> </p>
<p>Ísland, Ísland! Öllu skærri</p>
<p>okkur hljómar tunga þín;</p>
<p>hún skal nafn þitt, móðir, mæra</p>
<p>meðan vornótt björt þér skín.</p>
<p>Þegar hætta þér er búin,</p>
<p>þá skal glymja strengur hver,</p>
<p>harpa málsins hugmóð knúin</p>
<p>hrópa á lið til varnar þér.</p>
<p> </p>
<p>Ísland, Ísland! Eg vil búa</p>
<p>alla stund í faðmi þér;</p>
<p>huga minn og hjarta áttu,</p>
<p>hvert sem vængi lífs míns ber.</p>
<p>Vættatryggðin vaki yfir</p>
<p>vogum þínum, hlíð og strönd,</p>
<p>meðan ást og óður lifir</p>
<p> og í norðri blómgast lönd.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Hulda</p>
<p>Fjallkona: Margrét Vilhjálmsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1994 - Land, þjóð og tunga<p>Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,</p>
<p>þér var ég gefinn barn á móðurkné;</p>
<p>ég lék hjá þér við læk og blóm og stein,</p>
<p>þú leiddir mig í orðs þíns háu vé.</p>
<p> </p>
<p>Á dimmum vegi dýrð þín um mig skein,</p>
<p>í dögun þeirri er líkn og stormahlé</p>
<p>og sókn og vaka: eining hörð og hrein,</p>
<p>þú heimtar trúnað, spyr hver efnd mín sé.</p>
<p> </p>
<p>Þú átt mig, ég er aðeins til í þér.</p>
<p>Örlagastundin nálgast grimm og köld;</p>
<p>hiki ég þá og bregðist bý ég mér</p>
<p>bann þitt og útlegð fram á hinsta kvöld.</p>
<p> </p>
<p>Ísland, í lyftum heitum höndum ver</p>
<p> ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Snorri Hjartarson</p>
<p>Fjallkona: Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1993 - Svo vitjar þín Ísland<p>Það hendir tíðum Íslending úti í löndum</p>
<p>um óttuskeið, er tindrar af heitu myrkri,</p>
<p>að svefn hans er rofinn svölum, skínandi væng,</p>
<p>sólhvítu bliki, sem lýstur hans skynjun og fyllir</p>
<p>allt andrúmið sævarseltu og heiðablæ.</p>
<p>Því þessa nótt hefur norðrið andvökubjarta</p>
<p>í nakinni vordýrð lagt að útlagans hjarta</p>
<p>sitt land, sín fanngnæfu háfjöll og himinsæ.</p>
<p> </p>
<p>Svo vitjar þín Ísland, laugað brimhvítu ljósi,</p>
<p>og lind þinnar bernsku er jafnsnemma tekin að niða</p>
<p>í barmi þínum. Frá ofurgnægð lita og ilms</p>
<p>snýr andi þinn langvegu þangað, sem fólk þitt háði</p>
<p>sitt ævistríð um þín örlög við nyrstu höf.</p>
<p>Og þér mun aftur leggjast þau ljóð á tungu,</p>
<p>sem liðnar aldir genginni kynslóð sungu</p>
<p>og fylgdu enni að heiman – frá vöggu að gröf.</p>
<p> </p>
<p>Þá skilst þér hve fánýt var leit þín í aðrar álfur.</p>
<p>Frá árdegi tímans er von þín og hamingja bundin</p>
<p>því landi, sem til þín er komið um kynjaveg</p>
<p>og knýr þig upprunans röddu heim á þær slóðir,</p>
<p>sem bjuggu ætt þinni athvarf við fjall og sjó.</p>
<p>Þar hófust þín augu til himins í fyrsta sinni,</p>
<p>og hvort hefur nokkrum lagst tignari ættjörð á minni</p>
<p>en sú, er þér ungum við undrun og barnsgleði hló?</p>
<p> </p>
<p>Já, slík er þín ættjörð, og enn skal hún yngjast og stækka.</p>
<p>Sjá ónumin víðerni blasa við fagnandi kynslóð,</p>
<p>sem gengur til liðs við þann guð, sem land hennar skóp:</p>
<p>Hér gefst hennar skáldhneigð að yrkja í hraunþök og sanda</p>
<p>þau kvæði, sem lifa og vonum og trú eru vígð.</p>
<p>En bið þess, hver örlög sem Urður og Verðandi spinna,</p>
<p>að einnig hver dáð, sem þér tekst þínu landi að vinna,</p>
<p>sé heimsbyggð allri til ástar og hamingju drýgð.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Ólafía Hrönn Jónsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1992 - Stóð ég við Öxará<p>Stóð eg við Öxará</p>
<p>hvar ymur foss í gjá;</p>
<p>góðhesti úngum á</p>
<p>Arason reið þar hjá,</p>
<p>hjálmfagurt herðum frá</p>
<p>höfuð eg uppreist sá;</p>
<p>hér gerði hann stuttan stans,</p>
<p>stefndi til Norðurlands.</p>
<p> </p>
<p>Úr lundi heyrði eg hvar</p>
<p>hulduljóð súngið var;</p>
<p>fanst mér ég þekti þar</p>
<p>þann sem sló kordurnar:</p>
<p>alheill og orðinn nýr</p>
<p>álfurinn hörpu knýr,</p>
<p>ástvinur eingum jafn</p>
<p>alfari úr Kaupinhafn.</p>
<p> </p>
<p>Stóð eg við Öxará</p>
<p>árroða á fjöllin brá,</p>
<p>kátt tók að klíngja og fast</p>
<p>klukkan sem áður brast,</p>
<p>alskærum ómi sló</p>
<p>útyfir vatn og skóg.</p>
<p>Mín klukka, klukkan þín,</p>
<p>kallar oss heim til sín.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Halldór Laxness</p>
<p>Fjallkona: Halldóra Rósa Björnsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1991 - Minningaland<p>Minningaland, fram í dáðanna dag</p>
<p>með drottnandi frelsi frá jöklum til sanda.</p>
<p>En réttur og trú skulu byggja vor bú</p>
<p>frá bölöldum inn í framtímans hag;</p>
<p>því heimsaugu svipast um hlut allra landa,</p>
<p>og himinninn skín yfir leiðir vors anda.</p>
<p> </p>
<p>Framtíðar þjóð, yfir ókomna öld</p>
<p>með alþjóð að vin láttu mannrétt þinn styrkjast.</p>
<p>Vort norræna mál gefur svip vorri sál;</p>
<p>það setur oss vé í lýðanna fjöld.</p>
<p>Í krafti og frelsi guðs veraldir virkjast.</p>
<p>Til vaxandi Íslands vor hjartaljóð yrkjast.</p>
<p> </p>
<p>Fold vorra niðja, við elskum þig öll;</p>
<p>þú átt okkar stríð, þar sem tímarnir mætast,</p>
<p>svo hrein og svo stór, þar sem himinn og sjór</p>
<p>slá hringinn um svipmild, blánandi fjöll.</p>
<p>Þú ein átt að lifa og allt að sjá bætast.</p>
<p> Þú átt okkar von. Og þú sér hana rætast.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Einar Benediktsson</p>
<p>Fjallkona: Margrét Kristín Pétursdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1990 - Ísland<p>Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir</p>
<p>Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.</p>
<p>Ísland er landið sem ungan þig dreymir,</p>
<p>Ísland í vonanna birtu þú sérð,</p>
<p>Ísland í sumarsins algræna skrúði,</p>
<p>Ísland með blikandi norðljósa traf.</p>
<p>Ísland að feðranna afrekum hlúði,</p>
<p>Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.</p>
<p> </p>
<p>Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir.</p>
<p>Íslensk er tunga þín skír eins og gull.</p>
<p>Íslensk sú lind, sem um æðar þér streymir.</p>
<p>Íslensk er vonin, af bjartsýni full.</p>
<p>Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur.</p>
<p>Íslensk er lundin með karlmennskuþor.</p>
<p>Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.</p>
<p>Íslensk er trúin á frelsisins vor.</p>
<p> </p>
<p>Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma.</p>
<p>Íslandi helgar þú krafta og starf.</p>
<p>Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma</p>
<p>íslenska tungu, hinn dýrasta arf.</p>
<p>Ísland sé blessað um aldanna raðir,</p>
<p>íslenska moldin, er lífið þér gaf.</p>
<p>Ísland sé falið þér, eilífi faðir.</p>
<p>Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Margrét Jónsdóttir</p>
<p>Fjallkona: María Ellingsen</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1989 - Íslendingaljóð 1944<p>Land míns föður, landið mitt,</p>
<p>laugað bláum straumi:</p>
<p>eilíft vakir auglit þitt</p>
<p>ofar tímans glaumi.</p>
<p>Þetta auglit elskum vér,</p>
<p>– ævi vor á jörðu hér</p>
<p>brot af þínu bergi er,</p>
<p>blik af þínum draumi.</p>
<p> </p>
<p>Hvíslað var um hulduland</p>
<p>hinst í vestanblænum:</p>
<p>hvítan jökul, svartan sand,</p>
<p>söng í hlíðum grænum.</p>
<p>Ýttu þá á unnarslóð</p>
<p>Austmenn, vermdir frelsisglóð,</p>
<p>fundu ey og urðu þjóð</p>
<p>úti í gullnum sænum.</p>
<p> </p>
<p>Síðan hafa hetjur átt</p>
<p>heima í þessu landi,</p>
<p>ýmist borið arfinn hátt</p>
<p>eða varist grandi.</p>
<p>Hér að þreyja hjartað kaus,</p>
<p>hvort sem jörðin brann eða fraus,</p>
<p>– flaug þá stundum fjaðralaus</p>
<p>feðra vorra andi.</p>
<p> </p>
<p>Þegar svalt við Sökkvabekk</p>
<p>sveitin dauðahljóða,</p>
<p>kvað í myrkri um kross og hlekk</p>
<p>kraftaskáldið móða.</p>
<p>Bak við sára bænaskrá</p>
<p>bylti sér hin forna þrá,</p>
<p>þar til eldinn sóttu um sjá</p>
<p>synir vorsins góða.</p>
<p> </p>
<p>Nú skal söngur hjartahlýr</p>
<p>hljóma' af þúsund munnum,</p>
<p>þegar frelsisþeyrinn dýr</p>
<p>þýtur í fjalli og runnum.</p>
<p>Nú skal fögur friðartíð</p>
<p>fánann hefja ár og síð,</p>
<p>varpa nýjum ljóma á lýð</p>
<p>landsins, sem vér unnum.</p>
<p> </p>
<p>Hvort sem krýnist þessi þjóð</p>
<p>þyrnum eða rósum,</p>
<p>hennar sögur, hennar ljóð,</p>
<p>hennar líf vér kjósum.</p>
<p>Ein á hörpu íss og báls</p>
<p>aldaslag síns guðamáls</p>
<p>æ hún leiki ung og frjáls,</p>
<p>undir norðurljósum.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jóhannes úr Kötlum</p>
<p>Fjallkona: María Sigurðardóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1988 - Fylgd<p>Komdu, litli ljúfur,</p>
<p>labbi, pabba stúfur,</p>
<p>látum draumsins dúfur</p>
<p>dvelja inni um sinn.</p>
<p>– heiður er himinninn.</p>
<p>Blærinn faðmar bæinn,</p>
<p>býður út í daginn.</p>
<p>Komdu, kalli minn.</p>
<p> </p>
<p>Göngum upp með ánni</p>
<p>inn hjá mosaflánni,</p>
<p>fram með gljúfragjánni</p>
<p>gegnum móans lyng,</p>
<p>– heyrirðu hvað ég syng –</p>
<p>líkt og lambamóðir</p>
<p>leiti á fornar slóðir</p>
<p>innst í hlíðarhring.</p>
<p> </p>
<p>Héðan sérðu hafið</p>
<p>hvítum ljóma vafið,</p>
<p>það á geymt og grafið</p>
<p>gull og perluskel,</p>
<p>ef þú veiðir vel.</p>
<p>En frammi á fjöllum háum</p>
<p>fjarri sævi bláum</p>
<p>sefur gamalt sel.</p>
<p> </p>
<p>Glitrar grund og vangur,</p>
<p>glóir sund og drangur.</p>
<p>Litli ferðalangur</p>
<p>láttu vakna nú</p>
<p>þína tryggð og trú.</p>
<p>– Lind í lautu streymir,</p>
<p>lyng á heiði dreymir,</p>
<p>– þetta land átt þú.</p>
<p> </p>
<p>Hér bjó afi og amma</p>
<p>eins og pabbi og mamma.</p>
<p>Eina ævi og skamma</p>
<p>eignast hver um sig.</p>
<p>– stundum þröngan stig.</p>
<p>En þú átt að muna</p>
<p>alla tilveruna,</p>
<p>að þetta land á þig.</p>
<p> </p>
<p>Ef að illar vættir</p>
<p>inn um myrkragættir</p>
<p>bjóða svikasættir</p>
<p>svo sem löngum ber</p>
<p>við í heimi hér,</p>
<p>þá er ei þörf að velja:</p>
<p>þú mátt aldrei selja</p>
<p>það úr hendi þér.</p>
<p> </p>
<p>Göngum langar leiðir,</p>
<p>landið faðminn breiðir.</p>
<p>Allar götur greiðir</p>
<p>gamla landið mitt,</p>
<p>sýnir hjarta sitt.</p>
<p>Mundu, mömmu ljúfur,</p>
<p>mundu, pabba stúfur,</p>
<p> að þetta er landið þitt.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Guðmundur Böðvarsson</p>
<p>Fjallkona: Þórdís Arnljótsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1987 - Minningarljóð á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní 1911<p>Þagnið, dægurþras og rígur!</p>
<p>Þokið meðan til vor flýgur</p>
<p>örninn mær, sem aldrei hnígur</p>
<p>íslenskt meðan lifir blóð:</p>
<p>minning kappans, mest sem vakti</p>
<p>manndáð lýðs og sundrung hrakti,</p>
<p>fornar slóðir frelsis rakti,</p>
<p>fann og ruddi brautir þjóð.</p>
<p>Fagna, Ísland, fremstum hlyni</p>
<p>frama þíns, á nýrri öld,</p>
<p>magna Jóni Sigurðssyni</p>
<p>sigurfull og þakkargjöld!</p>
<p> </p>
<p>Lengi hafði landið sofið,</p>
<p>lamað, heillum svift og dofið –</p>
<p>fornt var vígið frelsis rofið,</p>
<p>farið kapp og horfin dáð.</p>
<p>Loks hófst reisn um álfu alla,</p>
<p>árdagsvættir heyrðust kalla –</p>
<p>þjóð vor rumska þorði varla,</p>
<p>því að enginn kunni ráð –</p>
<p>þar til hann kom, fríður, frækinn,</p>
<p>fornri borinn Arnar slóð,</p>
<p>bratta vanur, brekkusækinn.</p>
<p>Brjóst hann gerðist fyrir þjóð.</p>
<p> </p>
<p>Vopnum öflugs anda búinn,</p>
<p>öllu röngu móti snúinn,</p>
<p>hreinni ást til ættlands knúinn,</p>
<p>aldrei hugði’ á sjálfs síns gagn.</p>
<p>Fætur djúpt í fortíð stóðu,</p>
<p>fast í samtíð herðar óðu,</p>
<p>fránar sjónir framtíð glóðu.</p>
<p>Fyllti viljann snilldar magn.</p>
<p>Hulinn kraft úr læðing leysti,</p>
<p>lífgaði von og trú á rétt.</p>
<p>Frelsisvirkin fornu reisti,</p>
<p>framtíð þjóðar mark lét sett.</p>
<p> </p>
<p>Áfram bauð hann: „Ekki víkja.“</p>
<p>Aldrei vildi heitorð svíkja.</p>
<p>Vissi: Hóf æ verður ríkja</p>
<p>vilji menn ei undanhald.</p>
<p>Víðsýnn, framsýnn, fastur, gætinn,</p>
<p>fjáði jafnan öfgalætin,</p>
<p>kostavandur, sigri sætinn</p>
<p>sótti réttinn, skildi vald.</p>
<p>Jafnt í byr og barning gáður</p>
<p>báts og liðs hann gætti þols.</p>
<p>Engum dægurdómum háður. –</p>
<p>Dýrra naut hann sjónarhvols.</p>
<p> </p>
<p>Lífsstríð hans varð landsins saga.</p>
<p>Langar nætur, stranga daga</p>
<p>leitaði’ að hjálp við hverjum baga</p>
<p>hjartkærs lands, með öruggt magn.</p>
<p>Alt hið stærsta, alt hið smæsta,</p>
<p>alt hið fjærsta og hendi næsta,</p>
<p>alt var honum eins: hið kærsta,</p>
<p>ef hann fann þar lands síns gagn.</p>
<p>Ægishjálm og hjartans mildi</p>
<p>hafði jafnt, er stýrði lýð,</p>
<p>magn í sverði, mátt í skildi</p>
<p>málsnilld studdi hvöss og þýð.</p>
<p> </p>
<p>Arnarfjörður, fagra sveitin!</p>
<p>fjöllum girt, sem átt þann reitinn</p>
<p>þar, sem nafni hann var heitinn,</p>
<p>hetjan prúð, sem landið ann,</p>
<p>heill sé þér og þínum fjöllum,</p>
<p>þar sem sveinninn, fremri öllum,</p>
<p>lærði að klífa, hjalla af hjöllum,</p>
<p>hátt, uns landi frelsi vann!</p>
<p>Eyrin Rafns! Það ljós sem lýsti</p>
<p>löngu síðan við þinn garð,</p>
<p>enga helspá í sér hýsti:</p>
<p>Íslands reisnar tákn það varð.</p>
<p> </p>
<p>Ísland, þakka óskasyni,</p>
<p>endurreisnar fremstum hlyni,</p>
<p>þakka Jóni Sigurðssyni,</p>
<p>sem þér lyfti mest og best.</p>
<p>Sjást mun eftir aldir næstu</p>
<p>enn þá ljós af starfi glæstu.</p>
<p>Nær sem marki nær þú hæstu,</p>
<p>nafn hans ljómar æðst og mest.</p>
<p>Gleðji drottinn frömuð frelsis,</p>
<p>fósturjarðar sverð og skjöld!</p>
<p>Lagabætir, brjótur helsis,</p>
<p> blessist starf þitt öld af öld!</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Hannes Hafstein</p>
<p>Fjallkona: Guðný Ragnarsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1986 - Reykjavík Þjóðminningardaginn 1897<p>Þar fornar súlur flutu á land</p>
<p>við fjarðarsund og eyjaband,</p>
<p>þeir reistu Reykjavík.</p>
<p>Hún óx um tíu alda bil,</p>
<p>naut alls, sem þjóðin hafði til,</p>
<p>varð landsins högum lík. –</p>
<p>Og þó vor höfn sé opin enn</p>
<p>og enn þá vanti knerri og menn,</p>
<p>við vonum fast hún vaxi senn</p>
<p>og verði stór og rík.</p>
<p> </p>
<p>En þó við flóann byggðist borg</p>
<p>með breiða vegi og fögur torg</p>
<p>og gnægð af öllum auð, –</p>
<p>ef þjóðin gleymdi sjálfri sér</p>
<p>og svip þeim týndi, er hún ber,</p>
<p>er betra að vanta brauð.</p>
<p>– Þeir segja, að hér sé hættan mest</p>
<p>og hérna þróist frónskan verst</p>
<p>og útlend tíska temjist flest</p>
<p>og tungan sé í nauð.</p>
<p> </p>
<p>„Nei, þegar öldin aldna flýr</p>
<p>og andi af hafi kemur nýr</p>
<p>að vekja land og lýð,</p>
<p>er víkka tún og breikka ból</p>
<p>og betri daga morgunsól</p>
<p>skín hátt um strönd og hlíð,</p>
<p>skal sjást, að bylgjan brotnar hér. –</p>
<p>– Við byggjum nýja sveit og ver,</p>
<p>en munum vel, hvað íslenskt er,</p>
<p>um alla vora tíð.“</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Einar Benediktsson</p>
<p>Fjallkona: Sigurjóna Sverrisdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1985 - Talað við ungt fólk<p>Þú æska míns lands, sem lifir hið himneska vorið</p>
<p>þegar „loftið er draumablátt“</p>
<p>og bíður með óþreyju eftir að höll þín rísi</p>
<p>og ætlar að byggja hana hátt,</p>
<p>þig kveð ég um stund að streng hinnar gömlu hörpu,</p>
<p>sem afi þinn hefur átt.</p>
<p> </p>
<p>Sú harpa var stundum það einasta sem hún átti</p>
<p>þín ætt, í landinu því</p>
<p>er hlúir þér nú sínu barni, með blessandi hendi</p>
<p>við brjóst sín gjöful og hlý,</p>
<p>já, margt hefur gerst, – og sumt, sem af alhug við óskum</p>
<p>að aldrei gerist á ný.</p>
<p> </p>
<p>Þú lærir af bókum um þrengingar íslenskrar þjóðar</p>
<p>og þrekraun til sævar og lands</p>
<p>og kúgun og áþján, hann afi þinn kunni þá sögu</p>
<p>og enn betur foreldrar hans,</p>
<p>sem vissu það skást að vænta sér góðs eftir dauðann</p>
<p>er ,,sál fer til sæluranns."</p>
<p> </p>
<p>Þú lærir það og, að við lyftum því Grettistaki</p>
<p>að losa um viðjar og bönd.</p>
<p>– En við gleymum svo fljótt.</p>
<p>Hve auðvelt er löngum að lokka</p>
<p>í ljónsginið óvitans hönd.</p>
<p>Því streymir nú blóð þinna systkina, svartra og hvítra,</p>
<p>því loga hin hersetnu lönd.</p>
<p> </p>
<p>Og harpan hans afa skal vara þig við þeirri hættu,</p>
<p>sem vitjar þín jafnt og þétt:</p>
<p>Þér er ekki bært að bindast til neinnar áttar</p>
<p>þeim böndum er skerða þinn rétt</p>
<p>í landi þíns sjálfs, – því þá ert þú heillum horfin,</p>
<p>í sólleysið verður þú sett.</p>
<p> </p>
<p>Þitt hlutverk er stórt: að stefna til þeirrar aldar</p>
<p>sem styrjöldum breytir í frið,</p>
<p>– og láttu ekki svíkja þau loforð sem þér voru gefin,</p>
<p>þar liggur þín framtíð við:</p>
<p>hinn svefndrukkni varðmaður vaknar um seinan, í angist,</p>
<p>með fjandmenn á hvora hlið.</p>
<p> </p>
<p>Þú veist eins og ég að fljótt líður að fljótt líður fagurt vorið, </p>
<p>þá fækkar um söng og dans,</p>
<p>og skyldan hún kemur og kallar þig til þess að verja</p>
<p>þinn knérunn og arin hans,</p>
<p>og gerir þú það, þá átt þú um eilífð þitt frelsi</p>
<p>og fegurð þíns föðurlands</p>
<p> </p>
<p>En lát þér ei íþyngt af hreimi gamallar hörpu,</p>
<p>sem hefur um stund verið mín,</p>
<p>að vályndur heimur unni þér ævinlegs friðar</p>
<p>er ósk mín og von til þín,</p>
<p>og njót þeirrar stundar, er stjarnan fegurst af öllum</p>
<p>í heiði við Hraundranga skín.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Guðmundur Böðvarsson</p>
<p>Fjallkona: Sólveig Pálsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1984 - Kom heil til feginsfundar, íslensk þjóð<p>Kom heil til feginsfundar, íslensk þjóð!</p>
<p>Gakk frjáls og djörf á hönd þeim óskadegi,</p>
<p>sem eignast skal þín afreksverk og ljóð</p>
<p>um eilífð, þó að menn og stefnur deyi.</p>
<p>Því draumur sá, er aðeins átti sér</p>
<p>um aldir samastað í fólksins hjarta,</p>
<p>varð sál þess dags, er frelsið færði þér</p>
<p>og fána þínum lyfti í heiðið bjarta.</p>
<p> </p>
<p>Ég veit oft seint mitt vor að sunnan fer,</p>
<p>en vor, sem eins er fólki sínu bundið</p>
<p>og dýpri þrá og ástúð vafið er,</p>
<p>í öllum heimi verður naumast fundið.</p>
<p>Og loks er frjálsir dagar gengu í garð</p>
<p>með glæstu föruneyti þúsund vona,</p>
<p>ég fann það best, hve auðugt Ísland varð</p>
<p>í önn og gleði dætra þess og sona.</p>
<p> </p>
<p>Því vorið kom! En steðji ólög að</p>
<p>og ógnað verði framtíð niðja þinna,</p>
<p>mun hættan sjálf fá sagt þér til um það,</p>
<p>hvar sannan kjark og trúnað var að finna.</p>
<p>Á slíkri stundu er feigur sá, er flýr,</p>
<p>en frjálsum manni verður skammt til ráða:</p>
<p>Hann hittist þar sem þyngstur vandi knýr</p>
<p>hans þrek og manndómslund til stærstu dáða.</p>
<p> </p>
<p>Svo haldi landsins heilladísir vörð</p>
<p>um hvern þann stað, sem fáninn blaktir yfir,</p>
<p>því þar skal frjálsu fólki heilög jörð</p>
<p>og föðurland á meðan sál þess lifir.</p>
<p>En vit, að öll þín arfleifð, von og þrá</p>
<p>er áskorun frá minning, sögu og ljóðum,</p>
<p>að ganga af heilum hug til liðs við þá,</p>
<p> sem heiminn vilja byggja frjálsum þjóðum.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Guðrún Þórðardóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1983 - Þingvellir<p>Sólskinið titrar hægt um hamra’ og gjár,</p>
<p>en handan vatnsins sveipast fjöllin móðu.</p>
<p>Himinninn breiðir faðm jafn-fagurblár</p>
<p>sem fyrst, er menn um þessa velli tróðu.</p>
<p> </p>
<p>Og hingað mændu eitt sinn allra þrár,</p>
<p>ótti og von á þessum steinum glóðu;</p>
<p>og þetta berg var eins og ólgusjár, —</p>
<p>þar allir landsins straumar saman flóðu.</p>
<p> </p>
<p>Minning um grimmd og göfgi, þrek og sár,</p>
<p>geymist hér, þar sem heilög véin stóðu,</p>
<p>höfðingjans stolt og tötraþrælsins tár,</p>
<p>sem tími’ og dauði’ í sama köstinn hlóðu.</p>
<p> </p>
<p>Nú heyri’ eg minnar þjóðar þúsund ár</p>
<p>sem þyt í laufi’ á sumarkvöldi hljóðu.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jakob Jóh. Smári</p>
<p>Fjallkona: Lilja Þórisdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1982 - Blessi þá hönd<span></span>
<p><span style="font-family: 'Times New Roman', serif; font-size: 12pt;">I</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Þér, Íslands börn, á helgri heillastund,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">hingað ég yður kveð á ljósum degi,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">sem lengi var mér dagur djarfra vona,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">þá viðreisnar og síðan dýrsta sigurs.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Fagnið og minnist meðan björkin ilmar</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">og blómið grær um búandmannsins völl</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">og skip vor bruna sólstafaðan sæinn,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">vorblærinn heilsar iðjuversins önn</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">og athöfn frjálsra manna um torg og búðir.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Fagnið hve mikið vannst og enn skal vinnast</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Vaxið af starfi hans, er nú skal minnast.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Hann gróðursetti á hrjóstrum vorra hjartna</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">tvö heilög blóm, sem nefnast trú og von.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Í skjóli þeirra innst í allra brjóstum</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">áttu þinn varða og gröf, Jón Sigurðsson.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">II</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Fagnið í dag, því stórar, stoltar vonir</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">stíga til himna, eins og hvítir svanir</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">á frjálsum væng við fjallariðin blá</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">og fylla víddir Íslands söng og ljósi.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">– Þær leggja brátt í yðar ungu hendur</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">vorn óskastein og fjöregg vorrar þjóðar:</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Bókfellin öldnu, blöðin gul og máð,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">sem bera á þöglum fjaðurleturs síðum</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">mál þitt og sögu, örlög alls þíns kyns,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">eldfornar rætur þess og dýpstu visku,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">fá athvarf sitt við arin þinn á ný.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Við ást þíns hjarta skal hinn forni meiður</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">blómgvast og rísa, bera máli laufgað</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">fagurlim yfir fremd og þjóðardáð.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Í trú og rækt við það, sem þar var sáð</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">og þreyttum höndum forðum daga skráð,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">er bundin yðar hamingja og heiður.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">III</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Blessa þú sól þess árs, sem aftur gaf</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">þér óðalsrétt á feðra þinna hafi!</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">– Við bláum tindum breiðar vastir skína,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">þar byltist auðlegð þín í hyljum rasta.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Sjá, hafnáms kynslóð unga, allt er þitt,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">sem óralendur sævardjúpsins fæða</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">í frjóu rökkri svifs og saltra strauma,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">ef sótt er til með drengskap, viti og trú.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">En minnstu þess, að fjölmörg ógnarár</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">lá íssins fjötur stálblár fyrir landi</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">og fólkið svalt, en lotalágur kuggur</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">í fenntu nausti fjarlægs sumars beið.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Minnstu þess og, að annar fjötur verri</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">herti sinn dróma upp að vík og vörum,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">batt þínar hendur – bak við hann sem múr</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">stóð yfirgangsins ásýnd grímulaus.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Hvað brast svo hátt, að bergmál þess mun óma</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">með þungum nið næstu hundrað ár?</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Bláfjötur Ægis brast – og víðan faðm</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">breiðir hann yður nú í dag sem forðum,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">er frjálsir garpar áttu hér sín óðul,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">því Alþing færði af sjálfs síns valdi og tign</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">íslenskan rétt í lög á bláum legi</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">og laust hinn þunga dróma af höndum þér.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Sá réttur lýsir hverju frjálsu fleyi,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">sem fána vorn um höfin ber.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">IV</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Ég, Fjallkonan, er foldar vorrar sál,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">borin af hennar barna dýpsta skyni.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">– Sú djúpa ást, sem óspillt hjörtu leggja</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">við ættargarð og feðra sinna vé,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">land sitt og þjóð, er lífs míns andardráttur,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">því lifi ég í brjósti sérhvers manns</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">veik eða máttug – myndin, sem ég ber þar</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">er mynd af sonardyggð og kostum hans.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Þér óskabörn, sem undir bláum himni</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">á óskastund mætist hér og fagnið,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">blessið þá hönd, er bókfell yðar fáði,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">blessið þá hönd, er letrið auðmjúkt skráði.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Blessið þann hug, sem hörpu ljóða sló,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">heiðrið þann dug, sem bát á miðin dró.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Blessið þann þegn, sem bús og hjarðar gætti,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">þá brúði, er spann og óf og granna sætti.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Blessið þann fót, sem braust um fjöll og heiðar,</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">blessið þann kjark, er aldrei missti leiðar.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Blessið þá trú, sem bar í dauðans húmi</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">birtu af ljósi Guðs að hverju rúmi.</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"> </span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Skáld: Séra Sigurður Einarsson</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;">Fjallkona: Helga Jónsdóttir</span></p>
<p><span style="font-size: 12pt; font-family: 'Times New Roman', serif;"><br clear="all" />
</span></p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1981 - Til Íslands við aldamótin 1900<p>Þú ert móðir vor kær.</p>
<p>Þá er vagga’ okkar vær,</p>
<p>þegar vorkvöldið leggur þér barn þitt að hjarta;</p>
<p>og hve geiglaus og há</p>
<p>yfir grátþungri brá</p>
<p>berðu gullaldarhjálminn á enninu bjarta.</p>
<p>Við hjarta þitt slögin sín hjörtu’ okkar finna,</p>
<p>þinn hjálmur er gull okkar dýrustu minna;</p>
<p>en þó fegurst og kærst’</p>
<p>og að eilífu stærst</p>
<p>ertu í ást og í framtíðar vordraumum barnanna þinna.</p>
<p> </p>
<p>Þú ert móðir vor kær —</p>
<p>og því engu mun gleymt,</p>
<p>sem vér unnum þér vel eins og systir og bróðir;</p>
<p>þá er nafn okkar gleymt,</p>
<p>sólin sígur þá skær,</p>
<p>og við sofnum þá róleg við brjóstið þitt, móðir.</p>
<p>Við vitum þú átt yfir öldum að skína,</p>
<p>við óskum að börnin þín megi þig krýna,</p>
<p>og þá blessar vor öld</p>
<p>sitt hið síðasta kvöld,</p>
<p>ef hún sendir þeim smáperlur, móðir, í krónuna þína.</p>
<p> </p>
<p>Mun ei djarfhuga öld</p>
<p>meta Magnúsar sjón,</p>
<p>þegar morgunninn vaknar og tindana roðar?</p>
<p>Mun ei bjart um hann Jón</p>
<p>undir aldanna kvöld,</p>
<p>hvar sem áræðið frelsinu sigurinn boðar?</p>
<p>Mun tungan ei lengi’ yfir Íslandi óma</p>
<p>sem öldin hin nítjánda losaði’ úr dróma?</p>
<p>Ó, þú móðir vor kær,</p>
<p>mun ei máttug og skær</p>
<p>yfir miðsumrum aldanna gígjan hans Jónasar hljóma?</p>
<p> </p>
<p>Ó, þú fjalldrottning kær,</p>
<p>settu sannleikann hátt,</p>
<p>láttu hann sitja yfir tímanum djarfan að völdum,</p>
<p>svo að tunga þín mær</p>
<p>beri boð hans og mátt,</p>
<p>eins og bylgjandi norðurljós fjarst eftir öldum.</p>
<p>Við öfundum soninn, sem á þig að krýna,</p>
<p>við elskum hvern gimstein, sem þar á að skína.</p>
<p>Fram á tímanna kvöld</p>
<p>raðist öld eftir öld,</p>
<p> gamla Ísland, sem tindrandi stjörnur í krónuna þína.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Þorsteinn Erlingsson</p>
<p>Fjallkona: Helga Þ. Stephensen</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1980 - Íslands börn<p>Nú koma þau með eld í æðum</p>
<p>á allavega litum klæðum</p>
<p>– og mörgum hleypur kapp í kinn,</p>
<p>er upp mót blámans heiðu hæðum</p>
<p>þau hefja litla fánann sinn.</p>
<p> </p>
<p>Og aldrei hefur hópur fegri</p>
<p>né hugumstærri og yndislegri</p>
<p>sér fylkt í íslenskt ævintýr.</p>
<p>Og aldrei storkað elli tregri</p>
<p>jafn ungur tónn og frjáls og nýr.</p>
<p> </p>
<p>Því þessi telpa og þessi drengur,</p>
<p>þau þola ekki að búa lengur</p>
<p>í ævagömlum eymdadal.</p>
<p>Og þetta fólk, sem þarna gengur,</p>
<p>er þjóðin – sú, sem koma skal.</p>
<p> </p>
<p>Og sína góðu gullaskrínu</p>
<p>hún gefur lýðveldinu sínu,</p>
<p>sú lokkaprúða, litla þjóð.</p>
<p>Og hennar ys í eyra mínu</p>
<p>er eins og fagurt sólskinsljóð.</p>
<p> </p>
<p>Á norðurhjarans sögusviði</p>
<p>– í sveit og bæ, á fiskimiði –</p>
<p>mun lífið verða af kvíða kvitt,</p>
<p>ef svona verur fá í friði</p>
<p>að fegra og elska landið sitt.</p>
<p> </p>
<p>Því tindar Íslands hljóta að hækka</p>
<p>og hugsjónir þess allar stækka</p>
<p>við svona ástríkt augnaráð,</p>
<p>og slæpingjum og slysum fækka,</p>
<p>ef slíkri gleði er um það stráð.</p>
<p> </p>
<p>Og þá mun blómgast byggð, sem stendur,</p>
<p>er bráðum þessar mjúku hendur</p>
<p>á plóginn leggjast allar eitt.</p>
<p>Og drýgð mun verða um djúp og strendur</p>
<p>sú dáð, sem hræðist ekki neitt.</p>
<p> </p>
<p>Og hærra en allar ísarnsflugur</p>
<p>mun eitt sinn þessi djarfi hugur</p>
<p>sér lyfta á vængjum móðurmáls.</p>
<p>Því enginn hlutur ómáttugur</p>
<p>er ungri þjóð, sem lifir frjáls.</p>
<p> </p>
<p>En vér, sem þykjumst menn, þá megum</p>
<p>ei máttinn draga úr vonum fleygum</p>
<p>né marka efans myrku spor</p>
<p>í svip þess besta, sem vér eigum</p>
<p>og sem er líf og framtíð vor.</p>
<p> </p>
<p>Að frelsið aldrei frá oss víki,</p>
<p>sem fæddi af sér hið nýja ríki,</p>
<p>er komið undir kosti þeim</p>
<p>að enginn barnsins eðli svíki,</p>
<p> sem eitt fær skapað betri heim.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jóhannes úr Kötlum</p>
<p>Fjallkona: Saga Jónsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1978 - Kom heil til feginsfundar, íslensk þjóð<p>Kom heil til feginsfundar, íslensk þjóð!</p>
<p>Gakk frjáls og djörf á hönd þeim óskadegi,</p>
<p>sem eignast skal þín afreksverk og ljóð</p>
<p>um eilífð, þó að menn og stefnur deyi.</p>
<p>Því draumur sá, er aðeins átti sér</p>
<p>um aldir samastað í fólksins hjarta,</p>
<p>varð sál þess dags, er frelsið færði þér</p>
<p>og fána þínum lyfti í heiðið bjarta.</p>
<p> </p>
<p>Ég veit oft seint mitt vor að sunnan fer,</p>
<p>en vor, sem eins er fólki sínu bundið</p>
<p>og dýpri þrá og ástúð vafið er,</p>
<p>í öllum heimi verður naumast fundið.</p>
<p>Og loks er frjálsir dagar gengu í garð</p>
<p>með glæstu föruneyti þúsund vona,</p>
<p>ég fann það best, hve auðugt Ísland varð</p>
<p>í önn og gleði dætra þess og sona.</p>
<p> </p>
<p>Því vorið kom! En steðji ólög að</p>
<p>og ógnað verði framtíð niðja þinna,</p>
<p>mun hættan sjálf fá sagt þér til um það,</p>
<p>hvar sannan kjark og trúnað var að finna.</p>
<p>Á slíkri stundu er feigur sá, er flýr,</p>
<p>en frjálsum manni verður skammt til ráða:</p>
<p>Hann hittist þar sem þyngstur vandi knýr</p>
<p>hans þrek og manndómslund til stærstu dáða.</p>
<p> </p>
<p>Svo haldi landsins heilladísir vörð</p>
<p>um hvern þann stað, sem fáninn blaktir yfir,</p>
<p>því þar skal frjálsu fólki heilög jörð</p>
<p>og föðurland á meðan sál þess lifir.</p>
<p>En vit, að öll þín arfleifð, von og þrá</p>
<p>er áskorun frá minning, sögu og ljóðum,</p>
<p>að ganga af heilum hug til liðs við þá,</p>
<p> sem heiminn vilja byggja frjálsum þjóðum.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Edda Þórarinsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1977 - Ísland<p>Á nokkurt land svo hvítan jöklaheim</p>
<p>og heiðan fald,</p>
<p>svo rauðan eld í æð?</p>
<p>Hve gott að mega lofa það í ljóði</p>
<p> </p>
<p>og fyrir heill þess fórna sinni smæð</p>
<p>í frjórri önn.</p>
<p>Ó, barnið mitt, það gæfuhnoða geym.</p>
<p> </p>
<p>Og skylt er þér að skapa framtíð þess,</p>
<p>og skjöldur áttu að vera og sómi þess,</p>
<p>og vinna æfiheit við heiður þess:</p>
<p> </p>
<p>Að flekka aldrei mold þess bræðrablóði.</p>
<p> </p>
<p>Á nokkurt land jafn sumarfagra sveit,</p>
<p>er sólin skín,</p>
<p>og bergmálsfjöll svo blá?</p>
<p>Og barnið mitt, legg eyra við þess ómi.</p>
<p> </p>
<p>Því sá, er landsins hörpuhljóma á</p>
<p>í hjarta sér,</p>
<p>án ótta heilsar ungum degi, veit:</p>
<p> </p>
<p>Það getur enginn tekið töfra þess,</p>
<p>það truflar enginn hergnýr óma þess,</p>
<p>og ránshönd engin fangar fegurð þess.</p>
<p> </p>
<p>Hann verður eitt með bláma þess og blómi.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Kristján frá Djúpalæk</p>
<p>Fjallkona: Ragnheiður Steindórsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1976 - Hulduljóð<p>Skáld er eg ei, en huldukonan kallar</p>
<p>og kveða biður hyggjuþungan beim,</p>
<p>mun eg því sitja meðan degi hallar</p>
<p>og mæddur smali fénu kemur heim,</p>
<p>þar sem að háan hamar fossinn skekur</p>
<p>og hulduþjóð til næturiðju vekur.</p>
<p> </p>
<p>Þrumi’ eg á bergi, þýtur yfir hjalla</p>
<p>þokan að hylja mig og kaldan foss,</p>
<p>nú skal úr hlíðum hárra Tinnufjalla,</p>
<p>svo huldumeyjar þægan vinni koss,</p>
<p>óbrotinn söngur yfir dalinn líða</p>
<p>eins og úr holti spóaröddin þýða.</p>
<p> </p>
<p>Þú sem að byggir hamrabýlin háu,</p>
<p>hjartanu mínu alla daga kær,</p>
<p>sólfagra mey! djúpt undir bergi bláu,</p>
<p>bústu að sitja vini þínum nær;</p>
<p>döggsvalur úði laugar lokkinn bleika,</p>
<p>ljós er af himni, næturmyndir reika.</p>
<p> </p>
<p>Hvurs er að dyljast? harma sinna þungu,</p>
<p>hlægja þeir öld, er ræður þeim ei bót;</p>
<p>hvurs er að minnast? hins er hvurri tungu</p>
<p>– huganum í svo festa megi rót –</p>
<p>ætlanda væri eftir þeim að ræða</p>
<p>sem orka mætti veikan lýð að fræða.</p>
<p> </p>
<p>Að fræða! hvur mun hirða hér um fræði?</p>
<p>heimskinginn gjörir sig að vanaþræl,</p>
<p>gleymd eru lýðnum landsins fornu kvæði,</p>
<p>leirburðarstagl og holtaþokuvæl</p>
<p>fyllir nú breiða byggð með aumlegt þvaður,</p>
<p>bragðdaufa rímu þylur vesæll maður.</p>
<p> </p>
<p>Háðungarorð sem eyrun Huldu særa</p>
<p>ei skulu spilla ljóði voru meir;</p>
<p>sendið þér annan sanninn heim að færa</p>
<p>söngvurum yðar, Njörður! Þór! og Freyr!</p>
<p>og hvur sá ás sem ata þeir í kvæði</p>
<p>eirðinni gleymi og hefni sín í bræði.</p>
<p> </p>
<p>Sólfagra mey! eg sé – nú leit minn andi</p>
<p>þann seglið vatt í byrnum undan Skor</p>
<p>og aldrei síðan aftur bar að landi –</p>
<p>Eggert! ó hyggstu þá að leita vor?</p>
<p>Marblæju votri varpar sér af herðum</p>
<p>vandlætishetjan sterkum búinn gerðum.</p>
<p> </p>
<p>Hvað er í heimi, Hulda!? líf og andi,</p>
<p>hugsanir drottins sálum fjær og nær,</p>
<p>þar sem að bárur brjóta hval á sandi,</p>
<p>í brekku þar sem fjallaljósið grær;</p>
<p>þar sem að háleit hugmynd leið sér brýtur,</p>
<p>hann vissi það er andi vor nú lítur.</p>
<p> </p>
<p>Ó, Eggert! þú varst ættarblóminn mesti,</p>
<p>og ættarjarðar þinnar heill og ljós;</p>
<p>blessaða stund! er fót hann aftur festi</p>
<p>á frjóvri grund við breiðan sævarós.</p>
<p>Sólfagra mey! hann svipast um með tárum,</p>
<p>saltdrifin hetja, stiginn upp af bárum.</p>
<p> </p>
<p>Hví er hinn sterki úr hafi bláu genginn</p>
<p>á hauður sem í næturfaðmi þreyr,</p>
<p>veit ég að þegar værðin góða’ er fengin,</p>
<p>vinirnir gleyma’ að birtast framar meir;</p>
<p>ó, hve hann hefir eftir þráð að líta</p>
<p>ástarland sitt með tignarfaldinn hvíta.</p>
<p> </p>
<p>Tárperlur bjartar titra þér í augum,</p>
<p>tindra þær gegnum fagurt lokkasafn,</p>
<p>sólfagra mey! því sjónar þinnar baugum</p>
<p>séður er aldrei kappi þessum jafn.</p>
<p>Þú elskar, Hulda! Eggert foldarblóma,</p>
<p>ættjarðar minnar stoð, og frænda sóma.</p>
<p> </p>
<p>Ó, Eggert! hvursu er þinn gangur fagur!</p>
<p>útivist þín er vorðin löng og hörð;</p>
<p>kær er mér, faðir! komu þinnar dagur;</p>
<p>hann kyssir, Hulda! þína fósturjörð;</p>
<p>sólfagra mey! hann svipast um með tárum,</p>
<p>saltdrifin hetja, stiginn upp af bárum.</p>
<p> </p>
<p>Þú elskar hann, þess ann eg honum glaður,</p>
<p>ástin er rík, og þú ert hennar dís;</p>
<p>hér vil eg sitja, hér er okkar staður,</p>
<p>ó, Hulda! þar til sól úr ægi rís.</p>
<p>Hallaðu lokkahöfði bjarta þínu,</p>
<p>mín Hulda kær! að vinarbrjósti mínu.</p>
<p> </p>
<p>Hann svipast um, nú sefur allt í landi,</p>
<p>svæft hefir móðir börnin stór og smá,</p>
<p>fífil í haga, hrafn á klettabandi,</p>
<p>hraustan á dúni, veikan fjölum á;</p>
<p>hann svipast um í svölum næturvindi</p>
<p>um sund og völl að háum fjallatindi.</p>
<p> </p>
<p>Hallaðu lokkahöfði bjarta þínu</p>
<p>að hjarta mér sem nú er glatt og traust,</p>
<p>hallaðu þér nú hægt að brjósti mínu;</p>
<p>hann hefir ekki starfað notalaust!</p>
<p>seint og að vonum svo fær góður njóta</p>
<p>sín og þess alls er vann hann oss til bóta.</p>
<p> </p>
<p>Hann líður yfir ljósan jarðargróða,</p>
<p>litfögur blóm úr værum næturblund</p>
<p>smálíta upp að gleðja skáldið góða,</p>
<p>gleymir hann öðru’ og skoðar þau um stund;</p>
<p>nú hittir vinur vin á grænu engi.</p>
<p>„Velkominn, Eggert! dvelstu með oss lengi.“</p>
<p> </p>
<p><strong>Eggert:</strong></p>
<p> </p>
<p>Smávinir fagrir, foldarskart,</p>
<p>fífill í haga, rauð og blá</p>
<p>brekkusóley, við mættum margt</p>
<p>muna hvort öðru að segja frá.</p>
<p>Prýðið þér lengi landið það,</p>
<p>sem lifandi guð hefur fundið stað</p>
<p>ástarsælan, því ástin hans</p>
<p>allstaðar fyllir þarfir manns.</p>
<p> </p>
<p>Vissi ég áður voruð þér,</p>
<p>vallarstjörnur um breiða grund,</p>
<p>fegurstu leiðarljósin mér.</p>
<p>Lék ég að yður marga stund.</p>
<p>Nú hef ég sjóinn séð um hríð</p>
<p>og sílalætin smá og tíð,</p>
<p>munurinn raunar enginn er,</p>
<p>því allt um lífið vitni ber.</p>
<p> </p>
<p>Faðir og vinur alls, sem er,</p>
<p>annastu þennan græna reit.</p>
<p>Blessaðu, faðir, blómin hér,</p>
<p>blessaðu þau í hverri sveit.</p>
<p>Vesalings sóley, sérðu mig?</p>
<p>Sofðu nú vært og byrgðu þig.</p>
<p>Hægur er dúr á daggarnótt.</p>
<p>Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!</p>
<p> </p>
<p>Smávinir fagrir, foldarskart,</p>
<p>finn ég yður öll í haganum enn.</p>
<p>Veitt hefur Fróni mikið og margt</p>
<p>miskunnar faðir. En blindir menn</p>
<p>meta það aldrei eins og ber,</p>
<p>unna því lítt, sem fagurt er,</p>
<p>telja sér lítinn yndisarð</p>
<p>að annast blómgaðan jurtagarð.<br />
<br />
</p>
<p>***<br />
<br />
</p>
<p>Hulda! hví grípa hendur þínar ljósu</p>
<p>um hendur mér og hví svo viknar þú?</p>
<p>veit eg þú elur eyrar fagra rósu,</p>
<p>alsett er rauðum blómum Huldubú;</p>
<p>Eggert er þér um ekki neitt að kenna,</p>
<p>annast hefurðu fjallareitinn þenna.</p>
<p> </p>
<p>Sjáðu! enn lengra svífur fram um völlu</p>
<p>svásúðleg mynd úr ungum blómareit,</p>
<p>sterkur og frjáls og fríður enn að öllu</p>
<p>Eggert að skoða gengur byggða sveit;</p>
<p>hann fer að sjá, hve lífi nú á láði</p>
<p>lýðurinn uni, sá er mest hann þráði.</p>
<p> </p>
<p>Brosir við honum bærinn heillagóði</p>
<p>í brekkukorni, hreinn og grænn og smár;</p>
<p>þar hefir búið frændi hans með fljóði</p>
<p>í flokki ljúfra barna mörg um ár;</p>
<p>þar hefir sveitasælan guðs í friði</p>
<p>og sóminn aukist glöðu bæjarliði.</p>
<p> </p>
<p>Þar hefir gjörst að fullum áhrínsorðum</p>
<p>allt sem hinn mikli bóndavinur kvað</p>
<p>um dalalíf í búnaðsbálki forðum,</p>
<p>um bóndalíf, sem fegurst verður það.</p>
<p>Sólfagra mey! nú svífur heim að ranni</p>
<p>sæbúinn líkur ungum ferðamanni.</p>
<p> </p>
<p>Sólfagra mey! nú seilist yfir tinda</p>
<p>úr svölum austurstraumum roði skær,</p>
<p>nú líður yfir láð úr höllu vinda</p>
<p>léttur og hreinn og þýður morgunblær;</p>
<p>svo var mér, Hulda! návist þín á nóttu</p>
<p>sem nú er ljósið jörð á votri óttu.</p>
<p> </p>
<p>Vertu nú sæl! þótt sjónum mínum falin</p>
<p>sértu, ég alla daga minnist þín;</p>
<p>vertu nú sæl! því dagur fyllir dalinn,</p>
<p>dunandi fossinn kallar þig til sín;</p>
<p>hann breiðir fram af bergi hvítan skrúða,</p>
<p>bústaður þinn er svölum drifinn úða.</p>
<p> </p>
<p>Vertu nú sæl! því sólin hálsa gyllir</p>
<p>og sjónir mínar hugarmyndin flýr;</p>
<p>ó, Hulda kær! er fjöll og dali fyllir</p>
<p>fjölbreyttu smíði, hvar sem <em>lífið</em> býr</p>
<p>og <em>dauðinn</em>, sem að svo þig löngum kallar</p>
<p>sá er þig aldrei leit um stundir allar.</p>
<br clear="all" />
<p> </p>
<p> </p>
<p><strong>Smali fer að fé og kveður:</strong></p>
<p> </p>
<p>„Það var hann Eggert Ólafsson,</p>
<p>ungur og frár og viskusnjall,</p>
<p>stóð hann á hauðri studdur von,</p>
<p>stráunum skýldi vetrarfall;</p>
<p>meðan að sól úr heiði hló,</p>
<p>hjúkraði laukum, eyddi snjó,</p>
<p>kvað hann um fold og fagra mey</p>
<p>fagnaðarljóð er gleymast ei.</p>
<p> </p>
<p>Kvað hann um blóma hindarhjal</p>
<p>og hreiðurbúa lætin kvik,</p>
<p>vorglaða hjörð í vænum dal</p>
<p>og vatnareyðar sporðablik;</p>
<p>þó kvað hann mest um bóndabæ</p>
<p>er blessun eflir sí og æ,</p>
<p>af því að hjónin eru þar</p>
<p>öðrum og sér til glaðværðar.</p>
<p> </p>
<p>Það var hann Eggert Ólafsson,</p>
<p>allir lofa þann snilldarmann,</p>
<p>Ísland hefir ei eignast son,</p>
<p>öflgari stoð né betri’ en hann;</p>
<p>þegar hann sigldi sjóinn á</p>
<p>söknuður vætti marga brá;</p>
<p>nú er hann kominn á lífsins láð</p>
<p>og lifir þar sæll fyrir drottins náð.“</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jónas Hallgrímsson</p>
<p>Fjallkona: Helga Bachmann</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1975 - Úr Íslendingadags ræðu<p>Þó þú langförull legðir</p>
<p>sérhvert land undir fót</p>
<p>bera hugur og hjarta</p>
<p>samt þíns heimalands mót,</p>
<p>frænka eldfjalls og íshafs!</p>
<p>sifji árfoss og hvers!</p>
<p>dóttir langholts og lyngmós!</p>
<p>sonur landvers og skers!</p>
<p> </p>
<p>Yfir heim eða himin,</p>
<p>hvort sem hugar þín önd,</p>
<p>skreyta fossar og fjallshlíð</p>
<p>öll þín framtíðar lönd!</p>
<p>Fjarst í eilífðar útsæ</p>
<p>vakir eylendan þín:</p>
<p>nóttlaus vor-aldar veröld,</p>
<p>þar sem víðsýnið skín.</p>
<p> </p>
<p>Það er óskaland íslenskt,</p>
<p>sem að yfir þú býr –</p>
<p>aðeins blómgróin björgin,</p>
<p>sérhver baldjökull hlýr,</p>
<p>frænka eldfjalls og íshafs!</p>
<p>sifji árfoss og hvers!</p>
<p>dóttir langholts og lyngmós!</p>
<p>sonur landvers og skers!</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Stephan G. Stephansson</p>
<p>Fjallkona: Anna Kristín Arngrímsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1974 - Íslands minni<p>Eitt er landið ægi girt</p>
<p>yst á Ránar slóðum,</p>
<p>fyrir löngu lítils virt,</p>
<p>langt frá öðrum þjóðum.</p>
<p>Um þess kjör og aldarfar</p>
<p>aðrir hægt sér láta,</p>
<p>sykki það í myrkan mar,</p>
<p>mundu fáir gráta.</p>
<p> </p>
<p>Eitt er landið, ein vor þjóð,</p>
<p>auðnan sama beggja;</p>
<p>eina tungu, anda, blóð</p>
<p>aldir spunnu tveggja;</p>
<p>saga þín er saga vor,</p>
<p>sómi þinn vor æra,</p>
<p>tár þín líka tárin vor,</p>
<p>tignar landið kæra!</p>
<p> </p>
<p>Þú ert allt, sem eigum vér</p>
<p>ábyrgð vorri falið.</p>
<p>Margir segja: sjá, það er</p>
<p>svikið, bert og kalið!</p>
<p>Það er satt: með sárri blygð</p>
<p>sjá þín börn þess vottinn,</p>
<p>fyrir svikna sátt og tryggð</p>
<p>sorg þín öll er sprottin.</p>
<p> </p>
<p>Fóstra, móðir, veröld vor.</p>
<p>von og framtíð gæða,</p>
<p>svíði oss þín sáraspor,</p>
<p>svívirðing og mæða!</p>
<p>Burt með lygi, hlekk og hjúp,</p>
<p>hvað sem blindar andann.</p>
<p>Sendum út á sextugt djúp</p>
<p>sundurlyndis fjandann!</p>
<p> </p>
<p>Græðum saman mein og mein,</p>
<p>metumst ei við grannann,</p>
<p>fellum saman stein við stein,</p>
<p>styðjum hverjir annan.</p>
<p>Plöntum, vökvum rein við rein,</p>
<p>ræktin skapar framann.</p>
<p>Hvað má höndin ein og ein?</p>
<p>Allir leggi saman!</p>
<p> </p>
<p>Líkt og allar landsins ár</p>
<p>leið til sjávar þreyta,</p>
<p>eins skal fólksins hugur hár</p>
<p>hafnar sömu leita.</p>
<p>Höfnin sú er sómi vor,</p>
<p>sögufoldin bjarta!</p>
<p>Lifni vilji, vit og þor,</p>
<p> vaxi trú hvers hjarta!</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Matthías Jochumsson</p>
<p>Fjallkona: Halla Guðmundsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1973 - Þorskastríð og þjóðhátíð<p>I</p>
<p>Vort unga land við bláa fjarlægð ber</p>
<p>og brunahraunið kannar nýjar leiðir</p>
<p>og svartan faðm mót sólarljósi breiðir,</p>
<p>enn syngur haf við klett og fuglasker.</p>
<p> </p>
<p>Nýr dagur rís með fjöll í fangi sér</p>
<p>og frelsi þitt, vort land, í sínum höndum.</p>
<p>Og úthafsbáran ber að þínum ströndum</p>
<p>sinn bláa fald og vakir enn með þér.</p>
<p> </p>
<p>Þín vitjar aftur veröld heiðins ljóðs</p>
<p>sem vorsins leiti tindar efstu fjalla.</p>
<p>Í draumi þess má heyra geirinn gjalla</p>
<p>ef gengið er á rétt þíns stolta blóðs.</p>
<p> </p>
<p>Þá köllum vér til vitnis allt sem ber</p>
<p>þess vott að Ísland lifir enn og fagnar,</p>
<p>að afl þess býr í eldi ljóðs og sagnar,</p>
<p>vort unga land, með vor í fylgd með sér.</p>
<p> </p>
<p>II</p>
<p>Nú kveikir sólin vor í blöðum blóma</p>
<p>og ber sitt ljós um dal og klettarið</p>
<p>Og gamla kjarrið grænu laufi skrýðist</p>
<p>og gleymir sér við nýjan þrastaklið.</p>
<p> </p>
<p>Og heiðblár dagur heldur vestur jökla</p>
<p>með hlýjan blæ og ilm við lyng og grjót</p>
<p>og geislar fara mildum móðurhöndum</p>
<p>um mel og tún og fræ sem skýtur rót.</p>
<p> </p>
<p>Svo hellir sólin sumarskini björtu</p>
<p>á sund og hlíð og vetrarskugga þvær</p>
<p>af augum þínum, aftur blasir við þér</p>
<p>það Ísland sem í draumi þínum grær.</p>
<p> </p>
<p>Það rís úr sæ þinn snæviþakti jökull</p>
<p>með sól í fangi, vorsins skógarhind,</p>
<p>og landið fyllist fuglasöng og angan</p>
<p> og fegurð þess er vatn í djúpri lind.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Matthías Johannessen</p>
<p>Fjallkona: Valgerður Dan Jónsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1972 - Talað við ungt fólk<p>Þú æska míns lands, sem lifir hið himneska vorið</p>
<p>þegar „loftið er draumablátt“</p>
<p>og bíður með óþreyju eftir að höll þín rísi</p>
<p>og ætlar að byggja hana hátt,</p>
<p>þig kveð ég um stund að streng hinnar gömlu hörpu,</p>
<p>sem afi þinn hefur átt.</p>
<p> </p>
<p>Sú harpa var stundum það einasta sem hún átti</p>
<p>þín ætt, í landinu því</p>
<p>er hlúir þér nú sínu barni, með blessandi hendi</p>
<p>við brjóst sín gjöful og hlý,</p>
<p>já, margt hefur gerst, – og sumt, sem af alhug við óskum</p>
<p>að aldrei gerist á ný.</p>
<p> </p>
<p>Þú lærir af bókum um þrengingar íslenskrar þjóðar</p>
<p>og þrekraun til sævar og lands</p>
<p>og kúgun og áþján, hann afi þinn kunni þá sögu</p>
<p>og enn betur foreldrar hans,</p>
<p>sem vissu það skást að vænta sér góðs eftir dauðann</p>
<p>er ,,sál fer til sæluranns".</p>
<p> </p>
<p>Þú lærir það og, að við lyftum því Grettistaki</p>
<p>að losa um viðjar og bönd.</p>
<p>– En við gleymum svo fljótt.</p>
<p>Hve auðvelt er löngum að lokka</p>
<p>í ljónsginið óvitans hönd.</p>
<p>Því streymir nú blóð þinna systkina, svartra og hvítra,</p>
<p>því loga hin hersetnu lönd.</p>
<p> </p>
<p>Og harpan hans afa skal vara þig við þeirri hættu,</p>
<p>sem vitjar þín jafnt og þétt:</p>
<p>Þér er ekki bært að bindast til neinnar áttar</p>
<p>þeim böndum er skerða þinn rétt</p>
<p>í landi þíns sjálfs, – því þá ert þú heillum horfin,</p>
<p>í sólleysið verður þú sett.</p>
<p> </p>
<p>Þitt hlutverk er stórt: að stefna til þeirrar aldar</p>
<p>sem styrjöldum breytir í frið,</p>
<p>– og láttu ekki svíkja þau loforð sem þér voru gefin,</p>
<p>þar liggur þín framtíð við:</p>
<p>hinn svefndrukkni varðmaður vaknar um seinan, í angist,</p>
<p>með fjandmenn á hvora hlið.</p>
<p> </p>
<p>Þú veist eins og ég að fljótt líður fagurt vorið, </p>
<p>þá fækkar um söng og dans,</p>
<p>og skyldan hún kemur og kallar þig til þess að verja</p>
<p>þinn knérunn og arin hans,</p>
<p>og gerir þú það, þá átt þú um eilífð þitt frelsi</p>
<p>og fegurð þíns föðurlands</p>
<p> </p>
<p>En lát þér ei íþyngt af hreimi gamallar hörpu,</p>
<p>sem hefur um stund verið mín,</p>
<p>að vályndur heimur unni þér ævinlegs friðar</p>
<p>er ósk mín og von til þín,</p>
<p>og njót þeirrar stundar, er stjarnan fegurst af öllum</p>
<p>í heiði við Hraundranga skín. </p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Guðmundur Böðvarsson</p>
<p>Fjallkona: Margrét Helga Jóhannsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1971 - Íslendingaljóð 1944<p>Land míns föður, landið mitt,</p>
<p>laugað bláum straumi:</p>
<p>eilíft vakir auglit þitt</p>
<p>ofar tímans glaumi.</p>
<p>Þetta auglit elskum vér,</p>
<p>– ævi vor á jörðu hér</p>
<p>brot af þínu bergi er,</p>
<p>blik af þínum draumi.</p>
<p> </p>
<p>Hvíslað var um hulduland</p>
<p>hinst í vestanblænum:</p>
<p>hvítan jökul, svartan sand,</p>
<p>söng í hlíðum grænum.</p>
<p>Ýttu þá á unnarslóð</p>
<p>Austmenn, vermdir frelsisglóð,</p>
<p>fundu ey og urðu þjóð</p>
<p>úti í gullnum sænum.</p>
<p> </p>
<p>Síðan hafa hetjur átt</p>
<p>heima í þessu landi,</p>
<p>ýmist borið arfinn hátt</p>
<p>eða varist grandi.</p>
<p>Hér að þreyja hjartað kaus,</p>
<p>hvort sem jörðin brann eða fraus,</p>
<p>– flaug þá stundum fjaðralaus</p>
<p>feðra vorra andi.</p>
<p> </p>
<p>Þegar svalt við Sökkvabekk</p>
<p>sveitin dauðahljóða,</p>
<p>kvað í myrkri um kross og hlekk</p>
<p>kraftaskáldið móða.</p>
<p>Bak við sára bænaskrá</p>
<p>bylti sér hin forna þrá,</p>
<p>þar til eldinn sóttu um sjá</p>
<p>synir vorsins góða.</p>
<p> </p>
<p>Nú skal söngur hjartahlýr</p>
<p>hljóma' af þúsund munnum,</p>
<p>þegar frelsisþeyrinn dýr</p>
<p>þýtur í fjalli og runnum.</p>
<p>Nú skal fögur friðartíð</p>
<p>fánann hefja ár og síð,</p>
<p>varpa nýjum ljóma á lýð</p>
<p>landsins, sem vér unnum.</p>
<p> </p>
<p>Hvort sem krýnist þessi þjóð</p>
<p>þyrnum eða rósum,</p>
<p>hennar sögur, hennar ljóð,</p>
<p>hennar líf vér kjósum.</p>
<p>Ein á hörpu íss og báls</p>
<p>aldaslag síns guðamáls</p>
<p>æ hún leiki ung og frjáls,</p>
<p> undir norðurljósum.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jóhannes úr Kötlum</p>
<p>Fjallkona: Kristbjörg Kjeld</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1970 - Vorvísur 17. júní 1911<p>Sjá roðann á hnjúkunum háu!</p>
<p>Nú hlýnar um strönd og dal,</p>
<p>nú birtir í býlunum lágu,</p>
<p>nú bráðna fannir í jöklasal.</p>
<p>Allar elfur vaxa,</p>
<p>og öldunum kvikum hossa.</p>
<p>Þar sindrar á sægengna laxa,</p>
<p>er sækja í bratta fossa.</p>
<p>Fjallató og gerði gróa,</p>
<p>grund og mói skipta lit.</p>
<p>Út um sjóinn sólblik gróa,</p>
<p>syngur lóa´ í bjarkarþyt</p>
<p> </p>
<p>Hér sumrar svo seint á stundum!</p>
<p>Þótt sólin hækki sinn gang,</p>
<p>þá spretta´ekki laufin í lundum</p>
<p>né lifna blómin um foldarvang,</p>
<p>því næturfrost og nepjur</p>
<p>oft nýgræðinginn fella –</p>
<p>sem hugans kul og krepjur</p>
<p>oft kjark og vonir hrella.</p>
<p>Allt í einu geislar geysast,</p>
<p>guð vors lands þá skerst í leik,</p>
<p>þeyrinn hlýnar, þokur leysast,</p>
<p>þróast blóm og laufgast eik.</p>
<p> </p>
<p>Nú skrýðist í skrúðklæði landið</p>
<p>og skartar sem best það má.</p>
<p>Allt loftið er ljóðum blandið</p>
<p>og ljósálfar dansa grundunum á.</p>
<p>Gleymt er gömlum meinum</p>
<p>og gleymt er vetrar stríði.</p>
<p>Menn muna eftir einum</p>
<p>sem aldrei fyrnist lýði.</p>
<p>Þó að áföll ýmiss konar</p>
<p>ella sundri og veiki þrótt –</p>
<p>minning hans: Jóns Sigurðssonar</p>
<p>safnar allri frónskri drótt.</p>
<p> </p>
<p>Sjá! óskmögur Íslands var borinn</p>
<p>á Íslands vorgróðurstund,</p>
<p>hans von er í blænum á vorin,</p>
<p>hans vilji´og starf er í gróandi lund.</p>
<p>Hann kom, er þrautin þunga</p>
<p>stóð þjóðlífs fyrir vori,</p>
<p>hann varð þess vorið unga</p>
<p>með vöxt í hverju spori.</p>
<p>Hundrað ára vor hans vekur</p>
<p>vonir nú um Íslands byggð,</p>
<p>nepjusúld og sundrung hrekur,</p>
<p>safnar lýð í dáð og tryggð.</p>
<p> </p>
<p>Skáld: Hannes Hafstein</p>
<p>Fjallkona: Herdís Þorvaldsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1969 - Íslendingaljóð 1944<p>Land míns föður, landið mitt,</p>
<p>laugað bláum straumi:</p>
<p>eilíft vakir auglit þitt</p>
<p>ofar tímans glaumi.</p>
<p>Þetta auglit elskum vér,</p>
<p>– ævi vor á jörðu hér</p>
<p>brot af þínu bergi er,</p>
<p>blik af þínum draumi.</p>
<p> </p>
<p>Hvíslað var um hulduland</p>
<p>hinst í vestanblænum:</p>
<p>hvítan jökul, svartan sand,</p>
<p>söng í hlíðum grænum.</p>
<p>Ýttu þá á unnarslóð</p>
<p>Austmenn, vermdir frelsisglóð,</p>
<p>fundu ey og urðu þjóð</p>
<p>úti í gullnum sænum.</p>
<p> </p>
<p>Síðan hafa hetjur átt</p>
<p>heima í þessu landi,</p>
<p>ýmist borið arfinn hátt</p>
<p>eða varist grandi.</p>
<p>Hér að þreyja hjartað kaus,</p>
<p>hvort sem jörðin brann eða fraus,</p>
<p>– flaug þá stundum fjaðralaus</p>
<p>feðra vorra andi.</p>
<p> </p>
<p>Þegar svalt við Sökkvabekk</p>
<p>sveitin dauðahljóða,</p>
<p>kvað í myrkri um kross og hlekk</p>
<p>kraftaskáldið móða.</p>
<p>Bak við sára bænaskrá</p>
<p>bylti sér hin forna þrá,</p>
<p>þar til eldinn sóttu um sjá</p>
<p>synir vorsins góða.</p>
<p> </p>
<p>Nú skal söngur hjartahlýr</p>
<p>hljóma' af þúsund munnum,</p>
<p>þegar frelsisþeyrinn dýr</p>
<p>þýtur í fjalli og runnum.</p>
<p>Nú skal fögur friðartíð</p>
<p>fánann hefja ár og síð,</p>
<p>varpa nýjum ljóma á lýð</p>
<p>landsins, sem vér unnum.</p>
<p> </p>
<p>Hvort sem krýnist þessi þjóð</p>
<p>þyrnum eða rósum,</p>
<p>hennar sögur, hennar ljóð,</p>
<p>hennar líf vér kjósum.</p>
<p>Ein á hörpu íss og báls</p>
<p>aldaslag síns guðamáls</p>
<p>æ hún leiki ung og frjáls,</p>
<p> undir norðurljósum.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jóhannes úr Kötlum</p>
<p>Fjallkona: Valgerður Dan Jónsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1968 - Ísland<p>Ísland! Farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!</p>
<p>Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?</p>
<p>Allt er í heiminum hverfult og stund þíns fegursta frama</p>
<p>lýsir sem leiftur um nótt langt fram á horfinni öld.</p>
<p>Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,</p>
<p>himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.</p>
<p>Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu</p>
<p>austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit.</p>
<p>Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;</p>
<p>ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.</p>
<p>Hátt á eldhrauni upp, þar sem ennþá Öxará rennur</p>
<p>ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð.</p>
<p>Þar stóð hann Þorgeir á þingi er við trúnni var tekið af lýði.</p>
<p>Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.</p>
<p>Þá riðu hetjur um héruð og skrautbúin skip fyrir landi</p>
<p>flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim.</p>
<p>Það er svo bágt að standa’ í stað, og mönnunum munar</p>
<p>annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.</p>
<p>Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur?</p>
<p>Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?</p>
<p>Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,</p>
<p>himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.</p>
<p>En á eldhrauni upp, þar sem ennþá Öxará rennur</p>
<p>ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.</p>
<p>Nú er hún Snorrabúð stekkur og lyngið á lögbergi helga</p>
<p>blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik.</p>
<p>Ó, þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!</p>
<p> Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jónas Hallgrímsson</p>
<p>Fjallkona: Brynja Benediktsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1967 - Fjöllin í brjósti þér<p>I</p>
<p>Hann skín þér enn við augum dagur sá,</p>
<p>sem öllum dögum fegri rís úr sjá.</p>
<p>Og ennþá kemur hann á móti mér,</p>
<p>og morgunbjört vor ættjörð færir þér</p>
<p> </p>
<p>sín himingnæfu fjöll – þú fylgir þeim</p>
<p>sem fugl er snýr á nýju vori heim,</p>
<p>þér fagnar ávallt heiðin hrjósturgrá</p>
<p>og himnesk nótt með stjörnuaugu blá.</p>
<p> </p>
<p>Og fjöllin rísa björt í brjósti þér,</p>
<p>þau benda heim svo langt sem auga sér.</p>
<p>Og moldin vakir, mold og gróin tún</p>
<p>– og máttug rís þín sól við fjallabrún.</p>
<p> </p>
<p>Þú kemur heim, þín sól við sund og vík</p>
<p>er seiður dags og engri stjörnu lík,</p>
<p>hún bræðir hrím og vekur vor sem er</p>
<p>svo vængblá kyrrð og þögn í brjósti mér.</p>
<p> </p>
<p>II.</p>
<p>Og skáldið sat hér áður; orti mér</p>
<p>svo yndisfagurt ljóð um þröst og spóa,</p>
<p>hann þekkti lyngið, birki og blóm sem gróa</p>
<p>í blárri hlíð, ó land – hans kvæði er</p>
<p> </p>
<p>sem lýsi enn af sól er seig í mar</p>
<p>og sefur undir fjallsins rauðu eggjum.</p>
<p>Hans orð sem fræ í barnsins brjóst vér leggjum,</p>
<p>að blómgist það og vaxi einnig þar – </p>
<p> </p>
<p>til skjóls og trausts í tímans hreggi og byl.</p>
<p>Þá tengja gamlar rætur nýju ljóði</p>
<p>þann draum, sem enn rís upp í voru blóði</p>
<p>af orðum þess, er sárast finnur til.</p>
<p> </p>
<p>III</p>
<p>Og vorið kemur, gistir gömul tún</p>
<p>með gras og dögg og spor sem átti hún</p>
<p>er tók í hönd þér, leiddi lítinn dreng – </p>
<p>þú leitar burt úr hversdagsgráum streng</p>
<p> </p>
<p>þess lífs sem merkt er feigð, þú fylgir mér –</p>
<p>við förum saman hvert sem tímann ber.</p>
<p>Enn vaknar sól á vonarhýrri brá</p>
<p>og vorið fyllir dalinn nýrri þrá.</p>
<p> </p>
<p>Og sjá. Vort land er sól við efsta tind</p>
<p>og seytl við stein og þögn við tæra lind</p>
<p>og kvak í mó – sá kliður dags sem er</p>
<p>mitt kveðjuljóð, mín ást í hjarta þér.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Matthías Johannessen</p>
<p>Fjallkona: Sigríður Þorvaldsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1966 - Ávarp fjallkonunnar<p>Til ykkar, sem ég ann af heitu hjarta</p>
<p>og hef við brjóst mitt alið langa stund,</p>
<p>mæli ég enn, – er breiðir vorið bjarta</p>
<p>bláhvítan fána um jökla mína og sund.</p>
<p>Fjöld komu sumra, – og fóru sinnar leiðar,</p>
<p>í fjarlægð sé ég runnin aldaskeið</p>
<p>og minnist þess, er yfir hafsins heiðar</p>
<p>ég horfði ein og þjóðar minnar beið.</p>
<p> </p>
<p>Minnist ég löngum minna horfnu skóga</p>
<p>á morgni kyrrum, þegar sólin skín; –</p>
<p>hve ann ég þeim, er þrá að vaxa og gróa,</p>
<p>og því er vorið sigurhátíð mín:</p>
<p>mitt blóm, sú jurt, er auðn í engi breytir</p>
<p>og eyðing myrka knýr til undanhalds,</p>
<p>og barn mitt sá, er frelsi og friði veitir</p>
<p>fulltingi sitt í heimi stríðs og valds.</p>
<p> </p>
<p>Heyr, hvernig lands míns leyndu raddir kalla</p>
<p>á liðsemd þína og trúnað, ár og síð,</p>
<p>í steindum veðrahörpum fornra fjalla</p>
<p>og fiðlutónum blæs í víðihlíð;</p>
<p>– um dýpstu mið og voga, tún og teiga,</p>
<p>er tjáð mitt boð, í einu strangt og milt:</p>
<p>sjá, hér er allt, sem þér er þörf að eiga</p>
<p>í þúsund ár, – svo lengi sem þú vilt.</p>
<p> </p>
<p>En hratt fer hver sú stund er framhjá streymir</p>
<p>um stormi og brimi slegin tímans höf.</p>
<p>– Voryrkjumannsins verk mig sífellt dreymir:</p>
<p>ég vonast eftir þinni bestu gjöf,</p>
<p>dóttir og sonur. Allra ævivegi</p>
<p>að endamörkum hinstu loksins ber,</p>
<p>þín nótt fer að, og nær með hverjum degi,</p>
<p>og nafn þitt hvergi geymt, ef ekki hér.</p>
<p> </p>
<p>Ó, þú, sem sumars nýtur enn í næði</p>
<p>og namst í æsku stef míns hulduljóðs,</p>
<p>gjör líf þitt hending ljúfa í vorsins kvæði</p>
<p>svo líf þitt verði þér og mér til góðs;</p>
<p>þá læt ég, er þú lokar augum þínum,</p>
<p>mitt ljós, í þökk, við hvílurúmið þitt,</p>
<p>og geymi, í kyrrð, þín bein í moldum mínum</p>
<p>og minning þína, í ást, við hjarta mitt.<br />
<br />
</p>
<p>* * *<br />
<br />
</p>
<p>Í nafni hans, sem helgast þessi dagur,</p>
<p>skal heitum ykkar treyst – og geislum skírð;</p>
<p>– á ykkar valdi er aldarinnar bragur</p>
<p>og ættarlandsins vor og morgundýrð,</p>
<p>að gamlir fjötrar fúni og aldrei saki</p>
<p>það frelsi, sem var draumur minn og þrá,</p>
<p>á ykkar valdi, að sólríkt sumar vaki</p>
<p> sígrænt og langt, við norðurhöfin blá.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Guðmundur Böðvarsson</p>
<p>Fjallkona: Margrét Guðmundsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1965 - Ljóð fjallkonunnar<p>Fegurð berst í tal</p>
<p>á eyðimörk orðanna.</p>
<p>Öldungur kyngir þorsta sínum. –</p>
<p>„Brunahraunið er fagurt,</p>
<p>af því lind kliðar þar einhvers staðar</p>
<p>ljóð allra daga.“ –</p>
<p>„Ljóð, hvað er það?“</p>
<p>Er spurt upp úr svefndái hillinganna.</p>
<p> </p>
<p>Ó, ljóð mitt – söngur vatns,</p>
<p>söngur bergvatns í blænum,</p>
<p>brunna, sem aldir grófu til</p>
<p>og slökkt hafa þorsta kynslóða,</p>
<p>grætt þeim á söndum aldinlundi,</p>
<p>hvelft þeim glitrandi þök regnbogans,</p>
<p>speglað goðkynja þokka Vanadísa,</p>
<p>borið táknmál Skuldar í drauma,</p>
<p>galið völvum feigðarspár,</p>
<p>harmað glötun örfoka vinja,</p>
<p>lokað gleymdum augum til svefns</p>
<p>undir nótt villu og feikna,</p>
<p>sem enga skímu bar,</p>
<p>nema brot hinna fornu kvæða,</p>
<p>uns brumknappar lýsingarinnar,</p>
<p>þyrstar og skjálfandi hendur,</p>
<p>vöktu aftur til morgunsöngva</p>
<p>af vörum fram þær huldu lindir.</p>
<p> </p>
<p>Ó, ljóð mitt – söngur vatns,</p>
<p>söngur brunnvatns í blænum,</p>
<p>bergsins undir tungurótum,</p>
<p>lindanna djúpt í vitund þinni, –</p>
<p>mjúkur seimur, dreginn</p>
<p>allt frá morgni tíðar,</p>
<p>og morgundaggir þræddar á,</p>
<p>speglandi hvað sem vildi, –</p>
<p>landið í tign og helgi sinni,</p>
<p>líf þess í stríði og draumum,</p>
<p>launstigu hugans og álfaslóðir,</p>
<p>svipi stigna frá Urðar djúpi,</p>
<p>bernsku kvadda til manndóms</p>
<p>frá blómdvala hvammsins,</p>
<p>frá blindingsleik til skyggni</p>
<p>og hins rauða stáls á aflinum.</p>
<p> </p>
<p>Ó, ljóð mitt – söngur sverðs,</p>
<p>þytur sverðstungu í blænum,</p>
<p>svör Sköfnungs, er lýstur niður</p>
<p>yfir blandin mál valdníðinga,</p>
<p>hörð gjöld mildinnar</p>
<p>í hvítum leiftrum</p>
<p>hvassra eggja,</p>
<p>banvænna af dvergakynngi,</p>
<p>vígðra í stríð</p>
<p>til að stilla máttvana grát</p>
<p>og slökkva lífdögg</p>
<p>í sollnar undir,</p>
<p>þar sem neyð kallar</p>
<p>hljómi náttlúðra.</p>
<p> </p>
<p>Ó, ljóð mitt – söngur sverðs,</p>
<p>þytur sverðstungu í blænum,</p>
<p>hinnar sömu er ber í myrkvastofu</p>
<p>árgeisla vordagsins;</p>
<p>bylgjuskraut þess eru Surtarlogi</p>
<p>og blárastir hafísa;</p>
<p>á braut undir gunnfánum</p>
<p>í svölu maíregni</p>
<p>rís einfaldur háttur þess</p>
<p>gegn óhæfu og voða;</p>
<p>yfirskyggjandi í krafti sínum</p>
<p>vakir það í glaumnum</p>
<p>sem í ljóskyrrð óttunnar</p>
<p>langt inn‘ á heiði,</p>
<p>þar sem lækur sönglar við tóftarbrot</p>
<p>upp úr auðum blöðum dægranna;</p>
<p>það heilsar enn í dali</p>
<p>um höf með þrestinum,</p>
<p>hlær í tákni gauks</p>
<p>og eilífrar stjörnu</p>
<p>og varpar fölvum geislastöfum</p>
<p>af gömlu og lúðu bókfelli,</p>
<p>sem grettinn þulur skyggnir</p>
<p>undir myrkur, sestur að dröngum.</p>
<p> </p>
<p>Ó, ljóð mitt – söngur draums,</p>
<p>musteri draumsins í blænum;</p>
<p>dags önn er grunnur þess</p>
<p>og hvolf þess bæn á náttarþeli;</p>
<p>um kórinn rennur lind, –</p>
<p>og arfar lands míns og tungu</p>
<p>lúta þar höfði andartak,</p>
<p>er kveldi hallar til morguns</p>
<p>í nóttleysu þessa júnídags;</p>
<p>jörðin heyrir óskir þeirra,</p>
<p>og jörðin segir þær himninum</p>
<p>og tíð hinna miklu reikningsskila,</p>
<p>sem vitjar nú allra lýða, –</p>
<p>en lindin ber í hafið</p>
<p>að logaaltari sólar</p>
<p>döggvot blóm,</p>
<p>sem barnshönd fellir í strauminn.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Þorsteinn Valdimarsson</p>
<p>Fjallkona: Guðrún Ásmundsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1964 - Ávarp fjallkonunnar<p>Enn vitjaði átthaga vorra í morgun sá dagur,</p>
<p>sem vænstar ástgjafir hefur þjóð sinni borið.</p>
<p>Og Ísland, sem nam gegnum sólhvítan óttusvefninn</p>
<p>hans svanaflug, kom til móts við hann út í vorið.</p>
<p>Og eins og dagurinn leggur sér land sitt að hjarta</p>
<p>svo leitar hann uppi frá heiðum til ystu miða</p>
<p>hvert barn sinnar foldar og hyggur að hlustandi eyra,</p>
<p>hvort heyri hann enn sínar lindir í harmi þess niða.</p>
<p> </p>
<p>Þin ættjörð – hér hófst hún af holskeflum eldbrims og flóða.</p>
<p>Að himinskautum stóð nóttin í glampandi báli.</p>
<p>Og svipmeira land hefur aldrei af unnum stigið,</p>
<p>né ávarpað hnött sinn og stjörnur á skáldlegra máli.</p>
<p>Og aldanna hönd tók að rista sitt rúnaletur</p>
<p>á rauðar borgir og fjallbláa hamrasali.</p>
<p>Þar léku á basalthörpunnar stuðlastrengi</p>
<p>þeir stormar, sem báru með regninu moldir í dali.</p>
<p> </p>
<p>Já, moldir, sem eiga sér miskunn himinsins vísa</p>
<p>og mildar vorskúrir ástríki sínu glæða</p>
<p>– það stenst ekkert líf til langframa þeirra ákall,</p>
<p>og loks mun það veglausa firð yfir útsæinn þræða.</p>
<p>Og hafborin frækorn og flugprúða gesti loftsins</p>
<p>bar fyrsta til landnáms á útmörkum norrænnar slóðar.</p>
<p>Þó helgaðist niðandi lífi og lifandi óði</p>
<p>það land, sem í tiginni einsemd hér beið sinnar þjóðar.</p>
<p> </p>
<p>Það beið sinnar þjóðar og hingað var ferðinni heitið.</p>
<p>Þinn hamingjudraumur tók svipmót af landinu bjarta,</p>
<p>sem gerðist þín ættjörð og lagði þér ljóð sín á tungu.</p>
<p>Ó, lát ekki rödd hennar farast í æskunnar hjarta.</p>
<p>Það spyr engin saga, það forvitnast aldrei nein framtíð</p>
<p>um fólk, sem er ætt sinni horfið og reisn sinni glatar.</p>
<p>Því land þitt er einnig þín örlagaborg og þitt vígi</p>
<p>og einungis þangað um sál þína hamingjan ratar.</p>
<p> </p>
<p>En Ísland, þín börn hafa enn ekki þjóð sinni brugðist,</p>
<p>og aldrei í bráðustum háska frá sæmd þinni vikið.</p>
<p>Og þau munu enn verja hugrökk þinn heiður og frelsi</p>
<p>gegn hvers konar voða, sem ógnar þér – nógu mikið.</p>
<p>En biðjum þess einnig, að aldrei megi það henda,</p>
<p>að andi þeirra og sál láti fyrirberast</p>
<p>í slævandi öryggð hins auðsótta veraldargengis.</p>
<p>Nei, önnur og stærri skal sagan, sem hér á að gerast.</p>
<p> </p>
<p>Því, æska míns lands, það er aldanna hamingjudraumur,</p>
<p>sem á sína ráðningu í dag undir trúfesti þinni.</p>
<p>Ó, opna þú honum þinn barm, þitt brennandi hjarta.</p>
<p>Legg bernskunnar niðandi lindir á fullorðið minni.</p>
<p>Þar geymist sú saga, sem guð hefur trúað þér fyrir.</p>
<p>Þar gefst þér sú ættjörð, sem þér hefur sungið og angað.</p>
<p>Og seytjándi júní – til þess er hann heim til þín horfinn,</p>
<p> að hann á að vígja þér landið og fylgja þér þangað.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Gerður Hjörleifsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1963 - Bernskuminningar<p>Aldrei skein sólin eins blítt og í bernsku minni,</p>
<p>eins blítt og verða mátti.</p>
<p>Og ekki sást hærri himinn í veröldinni</p>
<p>en himinninn, sem ég átti.</p>
<p>Og aldrei var túnið jafn fagurt og fífilgult</p>
<p>og fjallið ofan við bæinn svo örlagadult.</p>
<p> </p>
<p>Og ekki þekkti ég karla, er kröftugar sungu,</p>
<p>en karlana í bernsku minni.</p>
<p>Og hreinna mál og hispurslausari tungu</p>
<p>ei heyrði ég nokkurru sinni.</p>
<p>Og aldrei síðan eins fallegt fólk ég leit</p>
<p>og fólkið, sem átti heima í minni sveit.</p>
<p> </p>
<p>Og aldrei, aldrei var gleðin jafn gagntakandi,</p>
<p>jafngrómlaus af beiskju og trega,</p>
<p>né úthellt þeim kynstrum af kærleik í nokkurru landi</p>
<p>og kvaðst svo ósegjanlega.</p>
<p>Og aldrei síðan var guð með slíkt geysiskegg,</p>
<p>svo gaman að eiga sauðarvölu og legg.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Gestur Guðfinnsson</p>
<p>Fjallkona: Kristín Anna Þórarinsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1962 - Ávarp fjallkonunnar<p>Nú strýk ég gullnum boga</p>
<p>um fiðlur vatna og vinda</p>
<p>þar til vorsins augu loga.</p>
<p>Nú vek ég allt hið dumba, nú vek ég allt hið blinda,</p>
<p>nú vek ég allt sem hefur dáið</p>
<p>og særi yður, börn mín, sem söng og birtu þráið:</p>
<p>Hlustið á mína fossa, horfið á mína tinda</p>
<p>– heyrið, sjáið.</p>
<p> </p>
<p>Ég rís úr djúpi hafsins mót bláum guðageimi,</p>
<p>ég glitra öll og streymi</p>
<p>og skelf af sumarþrá.</p>
<p>Og það er eins og lóur á leið til heiða kvaki</p>
<p>er liðnar aldir þjóta hjá</p>
<p>með snöggu vængjablaki.</p>
<p>Og kynslóðir um holt mín og hæðir eru á sveimi</p>
<p>og hvíslast á</p>
<p>með allt sitt stríð að baki:</p>
<p>Fjallkonan er hugsjón – sú fegursta í heimi.</p>
<p> </p>
<p>Í morgunsvalann tæra ég lyfti ljósri hendi</p>
<p>og langa geislakossa sendi</p>
<p>þeim öllum sem mig elska af lífi og sál,</p>
<p>þeim öllum sem mér heilar fórnir bjóða.</p>
<p>Höfuð mitt er jökull, hjarta mitt er bál</p>
<p>– ó heit er mín ástríða, tigin er mín ró,</p>
<p>þegar niðjum mínum fram til frelsisins ég bendi</p>
<p>og friðarboðans hljóða</p>
<p>sem ilmar í grasi og glampar á sjó.</p>
<p> </p>
<p>Ég blessa hann sem fæddist</p>
<p>á þessum dýra degi</p>
<p>– hann sem aldrei hræddist,</p>
<p>en hóf upp björg af mínum grýtta vegi,</p>
<p>hann sem mátti eigi víkja,</p>
<p>hann sem mátti eigi svíkja,</p>
<p>því mín mjöll var hans hjálmur, mín glóð var hans blóð.</p>
<p>Fyrir hans anda mín bestu blóm ég hneigi</p>
<p>í bænum og segi:</p>
<p>Megi</p>
<p>krafturinn hans bjarti í brjóstum yðar ríkja,</p>
<p>uns þér, börn mín, verðið ósigrandi þjóð.</p>
<p> </p>
<p>Svo dreg ég gullna bogann</p>
<p>um fiðlustrengi fína</p>
<p>og færi yður kveðju guðs og mína:</p>
<p>ó eltið vorið upp á hæsta tindinn,</p>
<p>þar sem augu þess skína</p>
<p>í sátt við vatnið, í sátt við vindinn</p>
<p>– og sækið þangað logann.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jóhannes úr Kötlum</p>
<p>Fjallkona: Kristbjörg Kjeld</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1961 - Blessi þá hönd<p>I</p>
<p>Þér, Íslands börn, á helgri heillastund,</p>
<p>hingað ég yður kveð á ljósum degi,</p>
<p>sem lengi var mér dagur djarfra vona,</p>
<p>þá viðreisnar og síðan dýrsta sigurs.</p>
<p> </p>
<p>Fagnið og minnist meðan björkin ilmar</p>
<p>og blómið grær um búandmannsins völl</p>
<p>og skip vor bruna sólstafaðan sæinn,</p>
<p>vorblærinn heilsar iðjuversins önn</p>
<p>og athöfn frjálsra manna um torg og búðir.</p>
<p> </p>
<p>Fagnið hve mikið vannst og enn skal vinnast</p>
<p>Vaxið af starfi hans, er nú skal minnast.</p>
<p>Hann gróðursetti á hrjóstrum vorra hjartna</p>
<p>tvö heilög blóm, sem nefnast trú og von.</p>
<p>Í skjóli þeirra innst í allra brjóstum</p>
<p>áttu þinn varða og gröf, Jón Sigurðsson.</p>
<p> </p>
<p>II</p>
<p>Fagnið í dag, því stórar, stoltar vonir</p>
<p>stíga til himna, eins og hvítir svanir</p>
<p>á frjálsum væng við fjallariðin blá</p>
<p>og fylla víddir Íslands söng og ljósi.</p>
<p>– Þær leggja brátt í yðar ungu hendur</p>
<p>vorn óskastein og fjöregg vorrar þjóðar:</p>
<p> </p>
<p>Bókfellin öldnu, blöðin gul og máð,</p>
<p>sem bera á þöglum fjaðurleturs síðum</p>
<p>mál þitt og sögu, örlög alls þíns kyns,</p>
<p>eldfornar rætur þess og dýpstu visku,</p>
<p>fá athvarf sitt við arin þinn á ný.</p>
<p> </p>
<p>Við ást þíns hjarta skal hinn forni meiður</p>
<p>blómgvast og rísa, bera máli laufgað</p>
<p>fagurlim yfir fremd og þjóðardáð.</p>
<p> </p>
<p>Í trú og rækt við það, sem þar var sáð</p>
<p>og þreyttum höndum forðum daga skráð,</p>
<p>er bundin yðar hamingja og heiður.</p>
<p> </p>
<p>III</p>
<p>Blessa þú sól þess árs, sem aftur gaf</p>
<p>þér óðalsrétt á feðra þinna hafi!</p>
<p>– Við bláum tindum breiðar vastir skína,</p>
<p>þar byltist auðlegð þín í hyljum rasta.</p>
<p>Sjá, hafnáms kynslóð unga, allt er þitt,</p>
<p>sem óralendur sævardjúpsins fæða</p>
<p>í frjóu rökkri svifs og saltra strauma,</p>
<p>ef sótt er til með drengskap, viti og trú.</p>
<p> </p>
<p>En minnstu þess, að fjölmörg ógnarár</p>
<p>lá íssins fjötur stálblár fyrir landi</p>
<p>og fólkið svalt, en lotalágur kuggur</p>
<p>í fenntu nausti fjarlægs sumars beið.</p>
<p> </p>
<p>Minnstu þess og, að annar fjötur verri</p>
<p>herti sinn dróma upp að vík og vörum,</p>
<p>batt þínar hendur – bak við hann sem múr</p>
<p>stóð yfirgangsins ásýnd grímulaus.</p>
<p> </p>
<p>Hvað brast svo hátt, að bergmál þess mun óma</p>
<p>með þungum niði næstu hundrað ár?</p>
<p> </p>
<p>Bláfjötur Ægis brast – og víðan faðm</p>
<p>breiðir hann yður nú í dag sem forðum,</p>
<p>er frjálsir garpar áttu hér sín óðul,</p>
<p>því Alþing færði af sjálfs síns valdi og tign</p>
<p>íslenskan rétt í lög á bláum legi</p>
<p>og laust hinn þunga dróma af höndum þér.</p>
<p> </p>
<p>Sá réttur lýsir hverju frjálsu fleyi,</p>
<p>sem fána vorn um höfin ber.</p>
<p> </p>
<p>IV</p>
<p>Ég, Fjallkonan, er foldar vorrar sál,</p>
<p>borin af hennar barna dýpsta skyni.</p>
<p>– Sú djúpa ást, sem óspillt hjörtu leggja</p>
<p>við ættargarð og feðra sinna vé,</p>
<p>land sitt og þjóð, er lífs míns andardráttur,</p>
<p>því lifi ég í brjósti sérhvers manns</p>
<p>veik eða máttug – myndin, sem ég ber þar</p>
<p>er mynd af sonardyggð og kostum hans.</p>
<p> </p>
<p>Þér óskabörn, sem undir bláum himni</p>
<p>á óskastund mætist hér og fagnið,</p>
<p>blessið þá hönd, er bókfell yðar fáði,</p>
<p>blessið þá hönd, er letrið auðmjúkt skráði.</p>
<p>Blessið þann hug, sem hörpu ljóða sló,</p>
<p>heiðrið þann dug, sem bát á miðin dró.</p>
<p>Blessið þann þegn, sem bús og hjarðar gætti,</p>
<p>þá brúði, er spann og óf og granna sætti.</p>
<p>Blessið þann fót, sem braust um fjöll og heiðar,</p>
<p>blessið þann kjark, er aldrei missti leiðar.</p>
<p>Blessið þá trú, sem bar í dauðans húmi</p>
<p> birtu af ljósi Guðs að hverju rúmi.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Séra Sigurður Einarsson</p>
<p>Fjallkona: Sigríður Hagalín</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1960 - Svo vitjar þín Ísland<p>Það hendir tíðum Íslending úti í löndum</p>
<p>um óttuskeið, er tindrar af heitu myrkri,</p>
<p>að svefn hans er rofinn svölum, skínandi væng,</p>
<p>sólhvítu bliki, sem lýstur hans skynjun og fyllir</p>
<p>allt andrúmið sævarseltu og heiðablæ.</p>
<p>Því þessa nótt hefur norðrið andvökubjarta</p>
<p>í nakinni vordýrð lagt að útlagans hjarta</p>
<p>sitt land, sín fanngnæfu háfjöll og himinsæ.</p>
<p> </p>
<p>Svo vitjar þín Ísland, laugað brimhvítu ljósi,</p>
<p>og lind þinnar bernsku er jafnsnemma tekin að niða</p>
<p>í barmi þínum. Frá ofurgnægð lita og ilms</p>
<p>snýr andi þinn langvegu þangað, sem fólk þitt háði</p>
<p>sitt ævistríð um þín örlög við nyrstu höf.</p>
<p>Og þér mun aftur leggjast þau ljóð á tungu,</p>
<p>sem liðnar aldir genginni kynslóð sungu</p>
<p>og fylgdu enni að heiman – frá vöggu að gröf.</p>
<p> </p>
<p>Þá skilst þér hve fánýt var leit þín í aðrar álfur.</p>
<p>Frá árdegi tímans er von þín og hamingja bundin</p>
<p>því landi, sem til þín er komið um kynjaveg</p>
<p>og knýr þig upprunans röddu heim á þær slóðir,</p>
<p>sem bjuggu ætt þinni athvarf við fjall og sjó.</p>
<p>Þar hófust þín augu til himins í fyrsta sinni,</p>
<p>og hvort hefur nokkrum lagst tignari ættjörð á minni</p>
<p>en sú, er þér ungum við undrun og barnsgleði hló?</p>
<p> </p>
<p>Já, slík er þín ættjörð, og enn skal hún yngjast og stækka.</p>
<p>Sjá ónumin víðerni blasa við fagnandi kynslóð,</p>
<p>sem gengur til liðs við þann guð, sem land hennar skóp:</p>
<p>Hér gefst hennar skáldhneigð að yrkja í hraunþök og sanda</p>
<p>þau kvæði, sem lifa og vonum og trú eru vígð.</p>
<p>En bið þess, hver örlög sem Urður og Verðandi spinna,</p>
<p>að einnig hver dáð, sem þér tekst þínu landi að vinna,</p>
<p> sé heimsbyggð allri til ástar og hamingju drýgð.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Þóra Friðriksdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1959 - Fjallkonuljóð<p>Sjá, ég er konan, landsins leynda sál,</p>
<p>sem lítil börn og skáld til drauma vekur.</p>
<p>Í æðum mér er blóðið orðið bál.</p>
<p>Bylgjunnar niður er mitt tungumál</p>
<p>og brjóst mitt aðeins bjarg, sem undir tekur.</p>
<p>Augu mín hef ég erft frá bláum tjörnum.</p>
<p>Mitt innra blik er skin frá sól og stjörnum,</p>
<p>en höfuðskrautið fönn og fægður ís.</p>
<p>Fjallkona er ég nefnd og jökladís.</p>
<p> </p>
<p>Hver lyftir björgum upp úr hafsins hyl?</p>
<p>Hver hreinsar loftsins djúp með stormsins anda</p>
<p>og gefur öllum líf og ljós og yl</p>
<p>og lætur kynslóðirnar verða til</p>
<p>og hetjur leita heimsins ystu stranda?</p>
<p>Í rauðum logum reis ég upp úr sænum.</p>
<p>Er runnu aldir, bjóst ég möttli grænum.</p>
<p>Þó um mig geymist mörg og mikil sögn,</p>
<p>er meira falið órjúfandi þögn.</p>
<p> </p>
<p>Ég beið í mínum bláa draumasæ,</p>
<p>uns bar að landi skip með áhöfn glæsta,</p>
<p>djarflega menn með drengilegan blæ.</p>
<p>Við drang og voga reistu þeir sér bæ,</p>
<p>könnuðu landið, klifu tindinn hæsta.</p>
<p>Og allir nefndu Ísland sína móður.</p>
<p>Í örmum mínum spratt hinn frjálsi gróður,</p>
<p>og hvaða land á fegri ættaróð,</p>
<p>sem ortur var af hugumstærri þjóð?</p>
<p> </p>
<p>Hver væntir þess, ef vetur fer í hönd,</p>
<p>að vorsins blíðu geislar hjörtum ylji?</p>
<p>Og ísinn kom og kældi mína strönd,</p>
<p>og konungarnir hnepptu mig í bönd,</p>
<p>en undir niðri óx mér þrek og vilji.</p>
<p>Öll örvænting er fjarri fornu skapi.</p>
<p>Fjallkonan ber við loft, þó stjörnur hrapi.</p>
<p>Og ekkert vald gat varnað henni máls.</p>
<p>Nú vegsama ég lífið, ung og frjáls.</p>
<p> </p>
<p>Og ennþá á ég margan dýrðardraum</p>
<p>um dáðir minna hraustu óskabarna.</p>
<p>Þó æskan dái meira fljótsins flaum</p>
<p>og fossins nið en þungan undirstraum,</p>
<p>þá logar ennþá landsins heillastjarna.</p>
<p>Og síst má þjóð í heimsins ystu höfum</p>
<p>slá hendi móti nýjum sumargjöfum.</p>
<p>Til nýrra dáða knýr það margan mest</p>
<p>að minnast þess, sem fortíð gerði best.</p>
<p> </p>
<p>Hve fögur yrði framtíð þessa lands,</p>
<p>ef fengi vilji minn að ráða lögum.</p>
<p>Ég mundi kveikja sól í sál hvers manns</p>
<p>og seiða frið í innstu vitund hans</p>
<p>og fjölga landsins fögru sumardögum.</p>
<p>Til eru menn, sem faðmi fjallsins gleyma</p>
<p>og flýja lífið – eiga hvergi heima.</p>
<p>En sá, sem heitast ættjörð sinni ann,</p>
<p>mun einnig leita guðs – og nálgast hann.</p>
<p> </p>
<p>Hið besta, sem ég býð, er meira starf,</p>
<p>svo blómgist íslensk jörð og þjóðarheiður,</p>
<p>því allra bíður verk, sem vinna þarf,</p>
<p>sem veitir nýrri kynslóð fegri arf.</p>
<p>Þá vitkast þjóð og vex hinn græni meiður.</p>
<p>Í björgum háum blikar óskalindin.</p>
<p>Ég bendi minni þjóð á hæsta tindinn.</p>
<p>Og hennar lífi helgast sál mín öll – </p>
<p>mitt haf, mín fjöll.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Davíð Stefánsson</p>
<p>Fjallkona: Bryndís Pétursdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1958 - Ávarp fjallkonunnar<p>I.</p>
<p>Ég, Fjallkonan, móðirin, ykkur við brjóstin mín ól. –</p>
<p>Ásýnd mín birtist í jöklanna drifhvítu földum,</p>
<p>tindum merluðum mjöll og skínandi sól</p>
<p>Og bláfjalla heiðum hring.</p>
<p> </p>
<p>Þið eigið minningar margar frá sumarkvöldum</p>
<p>og morgnum daggskærum: Fagurt var smáblóma skart,</p>
<p>hlíðin iðgræn, angaði blóðberg og lyng,</p>
<p>og ásýnd mín hug ykkar snart.</p>
<p> </p>
<p>Og var ekki sælt að fleygja sér í minn faðm</p>
<p>í fjalldal grænum, er hjarta ykkar leitaði friðar,</p>
<p>og hlusta á söng minn í ánni, sem áfram niðar</p>
<p>og úðafoss hvítum.</p>
<p> </p>
<p>Og hafir þú staðið á háfjallatindi, mitt barn,</p>
<p>og horft yfir land þitt blámóðu fjarskans vafið</p>
<p>í langdrægu skyggni, er logaði jöklanna hjarn</p>
<p>í lágnættissól,</p>
<p>þá minnstu ástarorða, sem hvíslað var</p>
<p>í eyra þér. Fjallkonan talaði, móðirin hvíta,</p>
<p>sem lifir í sál þér og landið í hendur þér fól.</p>
<p> </p>
<p>II.</p>
<p>– Sé ég í fjarlæga fortíð.</p>
<p>Ein úti í ægi,</p>
<p>ósnortin, fögur, leit ég í spegli sævar</p>
<p>brjóstin mín hvelfd og há</p>
<p> með línurnar mjúkar,</p>
<p>hvanngrænan möttul skóga</p>
<p> og augun mín blá.</p>
<p>Framtíðar beið ég. Bjart var um hvamm og móa,</p>
<p>brostu fjallshnjúkar.</p>
<p> </p>
<p>Ingólfur kom, sá kappinn prúði og frægi</p>
<p>með konungshjartað og trú á guð sinn og landið.</p>
<p>Hug minn unnu hetjur stórar í dáðum.</p>
<p>heiður minn synir juku.</p>
<p>Þó syrti brátt að. Allt loftið varð lævi blandið.</p>
<p>Lýður minn hlóð upp valköstum, úlfúðarfullur,</p>
<p>flæktur í erlendra lævísum Lokaráðum,</p>
<p>sveik mig, fóstruna, seldi hið dýrmæta frelsi.</p>
<p>Í kolsvörtum skýjablæjum ég andlit mitt byrgði</p>
<p>af blygðun og harmi.</p>
<p> </p>
<p>– En tímarnir breyttust. Nú bjart er um landið kalda,</p>
<p>því barist var djarflega fyrir rétti mínum.</p>
<p>Skúli klauf þorra-styrinn, sterkur og djarfur,</p>
<p>stór í athöfnum sínum.</p>
<p>Ég greindi loks vormerkin. Giftu minni var borgið.</p>
<p>Gróandans menn:</p>
<p>Jónas var jafni hörpu,</p>
<p>Jón sóldægra.</p>
<p> </p>
<p>III.</p>
<p>Ég er Fjallkonan, ung, þó að aldir í tímans djúp líði.</p>
<p>Anda minn hafið þið skynjað um lífs ykkar stundir,</p>
<p>í sólrisi morguns, vorblæ, er þýtur í víði,</p>
<p>vaxandi gróðurnál og angandi barri.</p>
<p>– Hvort sástu ei bros mitt, sonur, í döggvotu kjarri</p>
<p>og sáðjörð, er höndin þín græðandi moldina snart</p>
<p>og festi ungan vísi í vorprúðar grundir.</p>
<p> </p>
<p>Þú skynjaðir bros mitt í fögnuði, er fannstu þér innra</p>
<p>– hvort fannst þér ei sonur verða í hug þínum bjart</p>
<p>og dóttir, sem gerðir drauminn minn fagra að þínum.</p>
<p> </p>
<p>Þið synir mínir, er siglið um hafsins geim,</p>
<p>og sjálfir hafið lokið upp gullkistum þeim,</p>
<p>– sem fóstran ykkar á fólgnar í djúpi bláu – </p>
<p>og flutt minn auð úr Ránarsölunum heim,</p>
<p>þið skynjið eflaust skyldleika ykkar við mig</p>
<p>í skiptum við ægi.</p>
<p> </p>
<p>Og þið, er siglið og sjáið hin frjósömu lönd</p>
<p>með sígræna, stórvaxna skóga og aldintré,</p>
<p>gnæfandi turna og munað háreistra halla,</p>
<p>hvort munduð þið vilja selja sæbarða strönd,</p>
<p>sóldýrð vorkvölds og frið – ykkar norðlægu vé</p>
<p>fyrir vellyst og veraldar auð?</p>
<p>– Nei, hjarta ykkar mótmælir, þráin sem til mín togar,</p>
<p>þar er Fjallkonan, móðirin, Íslands, sem er að kalla.</p>
<p> </p>
<p>Og þú, sem ritar og rýnir í fornar bækur</p>
<p>og rykfallin íslensk bókfell horfinna tíða</p>
<p>hvort heyrirð‘ ei tímans elfi í eyrum þér duna,</p>
<p>mín æðaslög heit og þung.</p>
<p>Hvort mun ei stórbrotin sýn fyrir sjónum þér líða.</p>
<p>Minn andi vakir í lesmáli liðinna alda,</p>
<p>ljóðum og sögn, er þjóð minni vakti muna</p>
<p>til framsóknar, frelsis og dáða.</p>
<p> </p>
<p>Og mæður, sem alið upp íslenska syni og dætur</p>
<p>og akur hjartna þeirra plægið og sáið</p>
<p>fræjum til framtíðargrósku,</p>
<p>hafið á ungum hug þeirra ríkar gætur.</p>
<p>Munið að hjá mér og í mér eru þær rætur,</p>
<p>sem eigi fá dáið.</p>
<p> </p>
<p>IV.</p>
<p>Þið vitið, börn mín, harmsögu horfinna alda</p>
<p>og hvað ber að varast,</p>
<p>að aldrei verði minning Jóns Sigurðssonar</p>
<p>sólblik á rotnum fleti,</p>
<p>en fórnarlund hans og fölskvalaus ást til mín geti</p>
<p>fætt og glætt í sál ykkar líf þeirrar vonar,</p>
<p>sem fóstran hvíta á fegursta í draumum sínum.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Einar M. Jónsson</p>
<p>Fjallkona: Helga Bachmann</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1957 - Ávarp fjallkonunnar<p>Hinn 17. júní er algræn hin íslenska jörð</p>
<p>og ilmandi vorblærinn líður um tún og haga.</p>
<p>Í einingu sveipast vort land og vor liðna saga</p>
<p>í ljóðgræna fegurð og tign hinna nóttlausu daga.</p>
<p> </p>
<p>Við dönsuðum við söngvanna hljóm þetta himneska kvöld,</p>
<p>og hjörtu vor slá eins og skáldsins með fagnandi geði,</p>
<p>Sem meyjuna forðum leit sólhvíta sofandi á beði</p>
<p>og sór, að sú mynd skyldi ein varða líf hans og gleði.</p>
<p> </p>
<p>Er stræti vor fyllast af fagnandi og dansandi sveit,</p>
<p>þá finnst oss hún ennþá í dansi um torgið líða,</p>
<p>og blómarós dalsins hin ljóshára, lokkandi og blíða,</p>
<p>leiksystir dísa og álfkvenna horfinna tíða.</p>
<p> </p>
<p>En gegnum vorn fögnuð vér greinum þó aldanna stríð</p>
<p>og grát þess, er einmana hraktist á vergangsleiðum,</p>
<p>er vogarnir luktust af voldugum hafísbreiðum</p>
<p>og vordagur fólksins varð úti á fannbörðum heiðum.</p>
<p> </p>
<p>Og handan við söng vorn um „Íslands þúsund ár“</p>
<p>rís ómur af löngu þögnuðu fótataki</p>
<p>og söng yfir vöggu, er sól var að fjallabaki</p>
<p>og svæft var hið fátæka barn undir lágu þaki.</p>
<p> </p>
<p>Og hvergi var vorið og sólskinið þráð eins og þar,</p>
<p>sem þorrinn var kaldastur, snjórinn við húsdyrnar mestur</p>
<p>og trúin á guð varð sá engill, sem öllum var bestur.</p>
<p>Í afdalsins mannfæð bjó vetrarlangt himneskur gestur.</p>
<p> </p>
<p>Og jafnvel í gegnum rökkrið á reynslunnar tíð</p>
<p>rétti vor fegursta þrá sína björtu arma,</p>
<p>og ljóðið steig umvafið geislandi gullinbjarma,</p>
<p>sem glitrandi rós upp úr dökkri mold vorra harma.</p>
<p> </p>
<p>Þér helgast vor þökk fyrir afrek frá liðinni öld,</p>
<p>hinn örsnauði verndari kotsins í skammdegisbyljum</p>
<p>og sjóhetjan gleymda, sem storkaði Heljar hyljum,</p>
<p>er holskeflur úthafsins löðruðu á byrðing og þiljum.</p>
<p> </p>
<p>Þið fjölmörgu hversdagsins hetjur frá genginni tíð,</p>
<p>við heitum að vernda um aldir gegn kúgun og voða</p>
<p>landið, sem ykkur var uppheimur dísa og goða</p>
<p>á alstirndri nótt og í vordagsins morgunroða</p>
<p>landið, sem ykkur fannst sárast að sofna frá,</p>
<p>er sólnóttin breiddi um norðrið sinn gullinlinda,</p>
<p>landið, sem lét ykkur ástir við átthagann binda.</p>
<p>Hið eilífa og stóra var skráð á þess sólgullnu tinda.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Helgi Sveinsson</p>
<p>Fjallkona: Helga Valtýsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1956 - Ávarp fjallkonunnar<p>Heill hinum föllnu, er fyrir land sitt unnu,</p>
<p>fólkinu veittu nýja trú og þor.</p>
<p>Heill þeim, er áttu hjörtu, er skærast brunnu, – </p>
<p>hugrakkir gengu blóði drifin spor.</p>
<p>Minningin lifi um menn, er deyja kunnu</p>
<p>í myrkri snævar, trúaðir á vor, –</p>
<p>sem vildu heldur vera en aðeins sýnast, –</p>
<p>verk þeirra skulu ekki mást né týnast.</p>
<p> </p>
<p>Heill þeim, er lifa og standa í dagsins stríði,</p>
<p>starfandi trútt að þjóðar heill og lands.</p>
<p>Vinna skal sérhver verk með dug og prýði,</p>
<p>vanda sitt ráð og gæta rétts og sanns, –</p>
<p>heldur að þjóna, en ráða landi og lýði,</p>
<p>lögum skal hlýða og eðli drenglynds manns.</p>
<p>Hræðast skal ekki hel né píslagöngu, – </p>
<p>heldur skal falla en sigri ná með röngu.</p>
<p> </p>
<p>Óbornum heill um aldaraðir langar,</p>
<p>áfram er streymir tímans mikla fljót.</p>
<p>Þróttur þeim vaxi um raunastundir strangar,</p>
<p>stjarna þeim beini leið við vegamót, – </p>
<p>ei hrævarlog, sem huga veilan fangar</p>
<p>og heimskan teygir mann í urð og grjót.</p>
<p>Aukist þeim jafnan vit með góðum vilja</p>
<p>á vegi þeim, er Skuldar tindar dylja. </p>
<p> </p>
<p>Þessi er ósk mín, Íslendingar góðir, – </p>
<p>ættjörðin kallar nú á sérhvern mann.</p>
<p>Reyni nú allir, fávísir og fróðir,</p>
<p>að finna hinn rétta veg og þræða hann.</p>
<p>Ég vildi ykkur vera ástrík móðir,</p>
<p>en vandi er oft að tempra lof og bann,</p>
<p>og þótt minn barmur þyki kaldur stundum,</p>
<p>er þel mitt heitt á okkar gleðifundum.</p>
<p> </p>
<p>Hyllum nú minning míns hins besta sonar,</p>
<p>mannsins, er Íslands sverð og skjöldur var, –</p>
<p>hans, sem er ímynd okkar miklu vonar</p>
<p>um Íslands giftu á vegum framtíðar.</p>
<p>Og þótt í reynd hún reynist annars konar,</p>
<p>en ráð var fyrir gert og vera bar,</p>
<p>skal oss um aldur tengja bræðrabandið,</p>
<p>og blessa skal og elska þjóð og landið.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jakob Jóh. Smári</p>
<p>Fjallkona: Anna Guðmundsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1955 - Í Vesturbænum<p>Það kvað vera fallegt í Kína.</p>
<p>Keisarans hallir skína</p>
<p>hvítar við safírsænum.</p>
<p>En er nokkuð yndislegra</p>
<p>– leit auga þitt nokkuð fegra –</p>
<p>en vorkvöld í vesturbænum?</p>
<p> </p>
<p>Því þá kemur sólin og sest þar.</p>
<p>Hún sígur vestar og vestar</p>
<p>um öldurnar gulli ofnar.</p>
<p>Og andvarinn hægir á sér.</p>
<p>Ástfangin jörðin fer hjá sér,</p>
<p>uns hún snýr undan og sofnar.</p>
<p> </p>
<p>Hér gnæfir hin gotneska kirkja.</p>
<p>Hér ganga skáldin og yrkja</p>
<p>ástarljóð úti við sæinn.</p>
<p>Og ungir elskendur mætast,</p>
<p>óskir hjartnanna rætast,</p>
<p>er húmið hnígur á bæinn.</p>
<p> </p>
<p>En sóldaginn sumarlangan</p>
<p>fer saltlykt og tjöruangan</p>
<p>um ströndina víða vega.</p>
<p>Úr grjótinu gægist rotta.</p>
<p>Og gömlu bátarnir dotta</p>
<p>í naustunum letilega.</p>
<p> </p>
<p>En áður en sól skín á sjóinn</p>
<p>er síðasti karlinn róinn</p>
<p>og lengst út á flóa farinn.</p>
<p>Þar dorgar hann daga langa,</p>
<p>með dula ásýnd og stranga</p>
<p>og hönd, sem er hnýtt og marin.</p>
<p> </p>
<p>En dóttirin? Hún er heima,</p>
<p>og hvað hana kann að dreyma</p>
<p>er leyndardómurinn dýri.</p>
<p>En mjallhvíta brjóstið bærist</p>
<p>og bros yfir svipinn færist</p>
<p>við örlítið ævintýri.</p>
<p> </p>
<p>En dapurt er húmið á haustin.</p>
<p>Þá hópast vofur í naustin,</p>
<p>svo brakar hvert borð og þófta.</p>
<p>Og margur saklaus svanni</p>
<p>sat þar með ungum manni</p>
<p>og flýði í fang hans af ótta.</p>
<p> </p>
<p>En þó að þagni hver kliður</p>
<p>og þó að draumró og friður</p>
<p>leggist um allt og alla,</p>
<p>ber hjarta manns svip af sænum,</p>
<p>sem sefur framundan bænum</p>
<p>með öldur sem óralangt falla.</p>
<p> </p>
<p>Því særinn er veraldarsærinn,</p>
<p>og sjálfur er vesturbærinn</p>
<p>heimur sem kynslóðir hlóðu,</p>
<p>með sálir sem syrgja og gleðjast</p>
<p>og sálir sem hittast og kveðjast</p>
<p> á strönd hinnar miklu móðu.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Guðbjörg Þorbjarnardóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1954 - Ávarp fjallkonunnar<p>I</p>
<p>Þegar fagnar þjóðin öll,</p>
<p>þá er bjart um Íslandsfjöll.</p>
<p>Fornra stöðva vitjar vorið,</p>
<p>vermir landið endurborið,</p>
<p>svo að klökkna klaki og mjöll.</p>
<p>Lofgerð syngur landsins harpa,</p>
<p>leika börn í grænum varpa.</p>
<p>Gróðrarmáttur, gömul vé</p>
<p>glæða lífi blóm og tré.</p>
<p>Þó að vetur þorrakaldur</p>
<p>þylji margan svartagaldur,</p>
<p>eiga bæði Sól og Saga</p>
<p>sína fögru júnídaga.</p>
<p>Andi fjallsins, frjáls og skyggn,</p>
<p>fagnar þeirra dýrð og tign.</p>
<p> </p>
<p>II</p>
<p>Í grænum kyrtli gat ég birst</p>
<p>görpum þeim, er sá ég fyrst.</p>
<p>Öllum gaf ég auðlegð nóga,</p>
<p>íslenskt frelsi, græna skóga.</p>
<p>Seinna var ég rænd og rúin,</p>
<p>ráðafá og tötrum búin.</p>
<p>Margir hrjáðu móður sína.</p>
<p>Mér fannst sólin hætt að skína,</p>
<p>vafði nídd og nepjum bitin</p>
<p>nakinn faðm um syni mína</p>
<p> </p>
<p>Enn má heyra aldaþytinn</p>
<p>æða gegnum söguritin,</p>
<p>heyra íslenskt brim og bál</p>
<p>bylta sér í minni sál.</p>
<p> </p>
<p>III</p>
<p>Frelsi! hrópa fjöll og sær,</p>
<p>fólksins hjarta undir slær.</p>
<p>Þótti ég í fjötrum forðum</p>
<p>fremur snauð af þakkarorðum,</p>
<p>meðan féllu mér í skaut</p>
<p>molarnir af konungsborðum.</p>
<p> </p>
<p>Stundum getur þyngsta þraut</p>
<p>þjóðum markað sigurbraut,</p>
<p>vafið saman veika þætti,</p>
<p>valdið nýjum aldarhætti.</p>
<p>Þannig vekja neyð og náð</p>
<p>nýja krafta, dýpri ráð.</p>
<p> </p>
<p>IV</p>
<p>Í þann draum, sem hóf sig hæst,</p>
<p>hefur enginn klónum læst.</p>
<p>Ísland getur enginn sakað.</p>
<p>Andi fjallsins hefur vakað.</p>
<p>Þó að skorti björg í bú,</p>
<p>brast hann aldrei von og trú.</p>
<p>Dætur fjallsins, djúpsins synir,</p>
<p>dalabændur, vinnuhjú,</p>
<p>gerðust Íslands ættarhlynir.</p>
<p>Aldrei hafa betri vinir</p>
<p>heitið fornum fósturbyggðum</p>
<p>fegri ást og meiri tryggðum.</p>
<p>Engin rödd né reiðarslag</p>
<p>gat rofið þeirra bandalag.</p>
<p> </p>
<p>Fólksins trú og fornu dyggðum</p>
<p>fagnar þjóðin öll í dag</p>
<p> </p>
<p>V</p>
<p>Fullhuga, sem fremstur stóð,</p>
<p>fylgdi djörf og stórlát þjóð,</p>
<p>skeytti lítt um hríð né hregg,</p>
<p>hreystilega fjendum varðist.</p>
<p>Með viljans stáli, orðsins egg,</p>
<p>íslensk þjóð til sigurs barðist.</p>
<p>Kjarkur hennar, kraftur, hreysti,</p>
<p>knútinn hjó og viðjar leysti – </p>
<p>íslenskt frelsi endurreisti.</p>
<p> </p>
<p>Lítil reyndust guma geð,</p>
<p>sem gerðust erlend konungspeð.</p>
<p> </p>
<p>VI</p>
<p>Hvert gat fólk í fjötrum sótt</p>
<p>frelsishug og nýjan þrótt?</p>
<p> </p>
<p>Sjáið fjöll í hæðir hefjast,</p>
<p>himinljósum jökla vefjast.</p>
<p>Geymir spor í mold og mjöll</p>
<p>minninganna stjörnuhöll.</p>
<p>Ilminn finn ég upp úr snjónum,</p>
<p>yl í frosnum tónum.</p>
<p> </p>
<p>Frelsisþrá og tröllatryggð</p>
<p>tengja fjöll og mannabyggð.</p>
<p>Náttúrunnar kjarnakynngi</p>
<p>kvað sér hljóðs á landsins þingi.</p>
<p>Kjarkinn ólu fossaföllin,</p>
<p>festuna glæddu hamratröllin.</p>
<p>Eldfjöll, lamin, köldum kyljum,</p>
<p>klettaborg með sprungnum þiljum,</p>
<p>heiðarvangur, greyptur giljum – </p>
<p>þetta er forna frelsishöllin.</p>
<p>Fjallahofið, vígða góða,</p>
<p>storkar öllum stormabyljum,</p>
<p>Stóradómi allra þjóða.</p>
<p> </p>
<p>Ennþá tala tindafjöllin</p>
<p>tungumálið, sem við skiljum:</p>
<p>Boða landsins börnum frið,</p>
<p>benda sálum – upp á við,</p>
<p>þekkja hverja þrá og fögnuð</p>
<p>þjáningum og gleði mögnuð,</p>
<p>þekkja hverja þjóðarsorg.</p>
<p>Þau eru Íslands höfuðborg.</p>
<p> </p>
<p>VII</p>
<p>Fólk mitt hefur alltaf átt</p>
<p>eðliskosti vits og dáða.</p>
<p>Látið þeirra milda mátt</p>
<p>marka sporin, lögum ráða.</p>
<p>Gælið ei við gálgafrestinn,</p>
<p>gerviblómin, Trójuhestinn.</p>
<p>Vopnadýrkun, falskri fremd,</p>
<p>fylgir alltaf réttlát hefnd.</p>
<p>Fólksins mesti ástareiður</p>
<p>er að vernda landsins heiður.</p>
<p>Þegar loforð þrýtur efnd,</p>
<p>þá er andi fjallsins reiður.</p>
<p> </p>
<p>Verði frelsið hætt og hatað,</p>
<p>hefur þjóðin öllu glatað.</p>
<p> </p>
<p>Nýja kynslóð eggja enn</p>
<p>Íslands fyrstu landnámsmenn.</p>
<p> </p>
<p>VIII</p>
<p>Fram hjá tímans fákur þýtur,</p>
<p>fnæsir hátt og mélin bítur.</p>
<p>Frá jökulrót til ystu ósa</p>
<p>elfan streymir nótt og dag.</p>
<p>Máttur elds og máttur ljósa</p>
<p>magna hennar hjartalag.</p>
<p>Dæm þú ekki, drottins kirkja,</p>
<p>drápur þær, sem fjöllin yrkja!</p>
<p> </p>
<p>Hátt frá bjargi berast ættum</p>
<p>bergmálsóp, þegar hjörtun hrópa.</p>
<p>Mælir jörð, er mennskir tala,</p>
<p>magnar raddir, en himinn fagnar.</p>
<p>Öll er byggð í örmum fjalla,</p>
<p>andi þjóðar tengdur landi,</p>
<p>skyldur vorar um ár og aldir</p>
<p>eldi skírðar – til hæstu dýrðar.</p>
<p> </p>
<p>Ógnum stríðs og stormabylja</p>
<p>storka þeir, sem orð mín skilja.</p>
<p>Þeim er líf í blóðið borið,</p>
<p>bjargföst trú á landið, vorið.</p>
<p>Blessuð séu börn mín öll</p>
<p>blessuð þeirra frelsishöll.</p>
<p>Þrýtur hvorki þrótt né vilja</p>
<p> þjóð, sem á sín himinfjöll.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Davíð Stefánsson</p>
<p>Fjallkona: Gerður Hjörleifsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1953 - Vorvísur<p>Föx á völlum vaxa</p>
<p>vors af rósum ljósum.</p>
<p>Blíður blærinn hlíðar</p>
<p>blómaríkar strýkur.</p>
<p>Þéttar fossafléttur</p>
<p>fjöllin liðast niður.</p>
<p>Læðist fram að flæði</p>
<p>fótsmá lind úr tindi.</p>
<p> </p>
<p>Heiður himinn breiðir</p>
<p>hreina bjarma-arma</p>
<p>yfir allt, sem lifir,</p>
<p>yfir fjöll og völlu.</p>
<p>Loga lygnir vogar;</p>
<p>líttu‘ á sæinn hlæja!</p>
<p>Nóttin er á óttu</p>
<p>eins og fagur dagur.</p>
<p> </p>
<p>Daggardrukkin vagga</p>
<p>dalablóm og ljóma.</p>
<p>Þinga‘ og saman syngja</p>
<p>svanur, spói, lóa.</p>
<p>Heyrist öllum eyrum</p>
<p>indæll friðarkliður;</p>
<p>Ísland er að prísa</p>
<p> ástúð suðurs guða.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jakob Thorarensen</p>
<p>Fjallkona: Herdís Þorvaldsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1952 - Ávarp fjallkonunnar<p>Afmælisdagur Íslands besta sonar,</p>
<p>æskunnar hátíð, tekur þig í fang.</p>
<p>Reykjavík, borgin bjartrar, stórrar vonar,</p>
<p>borgin með nýjan skóg – og fjöruþang.</p>
<p>Langt inn í fjærstu framtíð þig ég eygi,</p>
<p>fegurri æ með hverju ári, er líður.</p>
<p>Draumanna arma eftir þér ég teygi.</p>
<p>Eilífðin handan logns og storma bíður.</p>
<p> </p>
<p>Fagur var morgunn þinn á þjóðar vori,</p>
<p>þjóðin jafn-glæsta minning aldrei sá.</p>
<p>Oft síðan dreyri draup úr hverju spori</p>
<p>daganna þungu, er aldir liðu hjá.</p>
<p>Margvísleg saga falls og nýrrar frægðar</p>
<p>faldar þitt höfuð björtum reynsluljóma.</p>
<p>Óska eg þér frama‘ og gengis, auðs og gnægðar, –</p>
<p>geymir þú æ hin fornu vé með sóma.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Fornheilög vé – og fornar, helgar dyggðir</p>
<p>flétti þér æ sinn dýra rósakrans.</p>
<p>Verði þín áhrif út um breiðar byggðir</p>
<p>bæði til sæmdar þjóð og heilla lands.</p>
<p>Íslenska borg, skalt íslensk jafnan vera, –</p>
<p>íslenskt og hreint þér liggi mál á tungu.</p>
<p>Aga þinn hug við kynngi frosts og frera, – </p>
<p>fegurðarþrána kenndu hinum ungu.</p>
<p> </p>
<p>Blámóða dagsins sveipar fjarlæg fjöllin, –</p>
<p>fagurt er um að litast hér í Vík!</p>
<p>Yfir þér breiðist víðlend himin-höllin, –</p>
<p>hvað þú ert nú af tærri fegurð rík!</p>
<p>Óskabarn mitt þú ert og vona-fylling</p>
<p>allt eins og fyrst, er mannleg augu sáu</p>
<p>á þína dýrð, – og Ingólfs gifta og stilling</p>
<p> einkenni þennan stað við fjöllin bláu.</p>
<p> </p>
<p>Skáld: Jakob Jóh. Smári</p>
<p>Fjallkona: Þóra Borg</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1951 - Þjóðhátíð<p>Um ljósa óttu engill vorsins fer</p>
<p>með ungan júnídag á vængjum sér</p>
<p>og skimar yfir fold og fallinn sæ,</p>
<p>sem flosar steindu brimi úfin sker.</p>
<p>En lengst við norður nætursólin skín</p>
<p>á nakta jökla, er rétta fjöllin sín</p>
<p>til himins móti morgni og sunnanblæ</p>
<p>á meðan jörðin teygar loftsins vín.</p>
<p> </p>
<p>En þó að sólin lýsi lönd og höf</p>
<p>og liljur vorsins rísi af kaldri gröf,</p>
<p>vér gerum varla veður út af því:</p>
<p>Slíkt verður bara að teljast drottins gjöf.</p>
<p>Samt þennan dag þann gest að garði ber,</p>
<p>sem gervöll þjóðin hefur eignað sér.</p>
<p>Og því skal landsins fánum fylkt á ný,</p>
<p>að fólkið skilji hvað í vændum er.</p>
<p> </p>
<p>Og sjá, það fólk, sem áður ók í mjöll</p>
<p>með útvarp sitt og skíði og datt um fjöll,</p>
<p>að þinghúsinu safnast upp úr eitt</p>
<p>og ætlar fótgangandi suðrá Völl.</p>
<p>En skrykkjótt heldur skarinn heiman að</p>
<p>og skrúðgöngunni seinkar enn við það,</p>
<p>að enginn maður virðist vita neitt</p>
<p>með vissu hvenær leggja skal af stað.</p>
<p> </p>
<p>Og æska landsins fylktu liði fer</p>
<p>á fund við kynslóð þá, sem horfin er,</p>
<p>og gróin leiði leggjast undir fót</p>
<p>og lítil krossmörk reyna að forða sér.</p>
<p>Því broshýr vaða börnin upp í hné</p>
<p>þau blóm, er dauðinn lætur þeim í té,</p>
<p>sem hættir eru að sækja svona mót.</p>
<p>Og sjá, þeir látnu draga sig í hlé.</p>
<p> </p>
<p>Og þannig safnast saman hópur manns</p>
<p>einn sólskinsdag að leiði forsetans</p>
<p>og hlýðir ræðu frá í fyrravor,</p>
<p>sem flutt er, eins og þá, í minning hans.</p>
<p>Og það er yfir öllu helgi og ró,</p>
<p>en erfiðlega gengur mörgum þó</p>
<p>að þræða í anda óskabarnsins spor,</p>
<p>sem aðeins sínu landi vann og dó.</p>
<p> </p>
<p>En sá, sem fær að tala, tyllir sér</p>
<p>á tá, en skyggir þó, sem betur fer,</p>
<p>í mesta hófi á gamlan granítklett,</p>
<p>sem gnæfir yfir þá, sem koma hér.</p>
<p>Og steininn reisti hrygg og þakklát þjóð</p>
<p>á þrautatímum foringja, sem stóð</p>
<p>á verði um hennar virðing, frelsi og rétt.</p>
<p>Hér var það sem hún kvaddi hann stolt og hljóð.</p>
<p> </p>
<p>En var ei hennar sorg á sandi reist?</p>
<p>Vér sjáum eldvagn tímans fara geyst.</p>
<p>Og hvort er nú ei miklu meira en fyrr</p>
<p>um menn og flokka, er allir geta treyst?</p>
<p>Svo þó að bærinn kalli oss klukkan þrjú,</p>
<p>vér kveðjum forsetann í þeirri trú,</p>
<p>að steinninn muni standa að ári kyrr</p>
<p>og stefna oss að sömu gröf og nú.</p>
<p> </p>
<p>Og víst er sælt að geta gengið að</p>
<p>jafn góðum manni á svona vísum stað,</p>
<p>sem auk þess getur enga björg sér veitt,</p>
<p>þótt allt hans líf sé rangfært sitt á hvað.</p>
<p>Því nú er öllum annt um forsetann</p>
<p>og allir landsins flokkar slást um hann,</p>
<p>og þeir, sem aldrei tóku tryggð við neitt,</p>
<p>þeir telja sér hann utanflokkamann.</p>
<p> </p>
<p>En hvar var þá öll hrifning vor í dag?</p>
<p>Var hún með þeirri rausn og tignarbrag,</p>
<p>er hæfir þjóð, sem aldrei aðhefst neitt</p>
<p>í ósamræmi við sitt hjartalag?</p>
<p>– sem aldrei vildi venja heiminn af</p>
<p>að vænta af sér hins mesta, er drottinn gaf</p>
<p>til brautargengis þeim, er hafa þreytt</p>
<p>í þúsund ár sitt stríð við nyrsta haf?</p>
<p> </p>
<p>Ó, guð vors lands, ó, Íslands þúsund ár!</p>
<p>Er enginn himinn nógu dýrðarblár,</p>
<p>að hjörtun fái hrifist eina stund</p>
<p>og hafist yfir þras og dægurspár?</p>
<p>– Vér gistum raunar grafreit forsetans,</p>
<p>en gengum vér í dag frá legstað hans</p>
<p>með heilli manndóm, hærri fórnarlund</p>
<p> og hreinni, dýpri trú á guð vors lands?</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Guðrún Indriðadóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1950 - Ávarp fjallkonunnar<p>Enn skín Íslandi</p>
<p>óskastund.</p>
<p>Enn á feginsfund</p>
<p>skal það fólk sitt kalla.</p>
<p>Enn kýs frjáls fáni</p>
<p>sér til fylgdarliðs</p>
<p>sonu sævarniðs,</p>
<p>dætur sólfjalla.</p>
<p> </p>
<p>Minnist ég og man</p>
<p>er við morgunbrún</p>
<p>hófst hann fyrst við hún</p>
<p>upp í heiðið bjarta.</p>
<p>Ættjörð, uppruni</p>
<p>og íslenskt mál</p>
<p>áttu eina sál,</p>
<p>– þar var Íslands hjarta.</p>
<p> </p>
<p>Renndi ég þá augum</p>
<p>um aldaslóð:</p>
<p>Sá ég þreytta þjóð,</p>
<p>sem með þöglum huga</p>
<p>byrði sína bar</p>
<p>og í beiskri kvöl</p>
<p>átti einskis völ</p>
<p>– annars en duga.</p>
<p> </p>
<p>Vel máttu því vita, </p>
<p>hafi viðsjál björg,</p>
<p>ferleg og mörg,</p>
<p>þér í fang hlaðist,</p>
<p>að stærra leit ég hafrót</p>
<p>það er strönd mín braut,</p>
<p>og þyngri þraut</p>
<p>hefur þjóð mín staðist.</p>
<p> </p>
<p>Veit ég þó að öfund,</p>
<p>sú hin arga norn,</p>
<p>guma, grá og forn,</p>
<p>geði stelur.</p>
<p>Svo mun verða meðan valdasýki</p>
<p>hjörtum heimsríki</p>
<p>hatri selur.</p>
<p> </p>
<p>Þá er þín hamingja</p>
<p>ef hvorki má</p>
<p>heift né hyggja flá</p>
<p>hug þinn vinna.</p>
<p>Varast því að kveðja</p>
<p>þeim vopnum hljóðs,</p>
<p>er leita banablóðs</p>
<p>bræðra þinna.</p>
<p> </p>
<p>Slík eru mín boð –</p>
<p>Kveð ég börn mín öll –</p>
<p>Megi fólk og fjöll</p>
<p>hylla fánann bjarta,</p>
<p>þann er íturhreinn</p>
<p>yfir aldaslóð</p>
<p>leiðir lands míns þjóð</p>
<p> heim til lands míns hjarta.</p>
<p> </p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Arndís Björnsdóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1949 - Ávarp fjallkonunnar<p>Kom heil til feginsfundar, íslensk þjóð!</p>
<p>Gakk frjáls og djörf á hönd þeim óskadegi,</p>
<p>sem eignast skal þín afreksverk og ljóð</p>
<p>um eilífð, þó að menn og stefnur deyi.</p>
<p>Því draumur sá, er aðeins átti sér</p>
<p>um aldir samastað í fólksins hjarta,</p>
<p>varð sál þess dags, er frelsið færði þér</p>
<p>og fána þínum lyfti í heiðið bjarta.</p>
<p> </p>
<p>Ég veit oft seint mitt vor að sunnan fer,</p>
<p>en vor, sem eins er fólki sínu bundið</p>
<p>og dýpri þrá og ástúð vafið er,</p>
<p>í öllum heimi verður naumast fundið.</p>
<p>Og loks er frjálsir dagar gengu í garð</p>
<p>með glæstu föruneyti þúsund vona,</p>
<p>ég fann það best, hve auðugt Ísland varð</p>
<p>í önn og gleði dætra þess og sona.</p>
<p> </p>
<p>Því vorið kom! En steðji ólög að</p>
<p>og ógnað verði framtíð niðja þinna,</p>
<p>mun hættan sjálf fá sagt þér til um það,</p>
<p>hvar sannan kjark og trúnað var að finna.</p>
<p>Á slíkri stundu er feigur sá, er flýr,</p>
<p>en frjálsum manni verður skammt til ráða:</p>
<p>Hann hittist þar sem þyngstur vandi knýr</p>
<p>hans þrek og manndómslund til stærstu dáða.</p>
<p> </p>
<p>Svo haldi landsins heilladísir vörð</p>
<p>um hvern þann stað, sem fáninn blaktir yfir,</p>
<p>því þar skal frjálsu fólki heilög jörð</p>
<p>og föðurland á meðan sál þess lifir.</p>
<p>En vit, að öll þín arfleifð, von og þrá</p>
<p>er áskorun frá minning, sögu og ljóðum,</p>
<p>að ganga af heilum hug til liðs við þá,</p>
<p> sem heiminn vilja byggja frjálsum þjóðum.</p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Regína Þórðardóttir</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1948 - Ávarp fjallkonunnar<p>Ó, unga þjóð míns draums, kom frjáls á fund</p>
<p>þíns fagra dags, er rís af bláum unnum</p>
<p>með gullna jökla, glóbjört elfarsund</p>
<p>og glaðan morgunsöng í lágum runnum.</p>
<p>Svo yndislega vorið vitjar þín.</p>
<p>Samt veistu, að gleðin, sem því fegurst skín,</p>
<p>er vaxin upp af ástúð, harmi og tárum</p>
<p>þíns eigin fólks á þúsund löngum árum.</p>
<p> </p>
<p>Ó, fólk míns lands, hvað flyt ég þér að gjöf?</p>
<p>Ég flyt þér vorsins óróleik í blóðið,</p>
<p>þann konungsdraum, er stiklar stjörnuhöf,</p>
<p>þann stolta grun, sem yrkir dýrast ljóðið.</p>
<p>En lát þá heldur ekkert ögra þér</p>
<p>til andstöðu við það sem helgast er:</p>
<p>Þá manndómslund, er frjálsum huga fagnar,</p>
<p>en flærð og hatur knýr til gleymsku og þagnar.</p>
<p> </p>
<p>Svo ver, mín þjóð, til vorsins fylgdar kvödd.</p>
<p>Svo vígist þér hinn ungi júnídagur,</p>
<p>er mælir til þín Íslands innstu rödd</p>
<p>og öllum sumrum rís jafn himinfagur.</p>
<p>Og vit, að aðeins vorsins hjartalag</p>
<p>fær vænst að eignast svona bjartan dag.</p>
<p>Ó, lát hann vaka yfir ættjörð þinni,</p>
<p> geym ástúð hans og tign í svip og minni.</p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Anna Borg Reumert</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1947 - Íslandsljóð<p>Ég heilsa þér, mín þjóð! Í kveðju mína</p>
<p>á þessum degi leggur blessun sína </p>
<p>hver kynslóð, sem í gröf og gleymsku hvarf, </p>
<p>en gaf oss móðurjörð og tungu í arf. </p>
<p>Þar mætast þeir, sem ofurefli vörðust, </p>
<p>og allir þeir, er fyrir okkur börðust. </p>
<p>Hve gott að mega slíkum þakka það, </p>
<p>að þjóð mín, land og saga fylgdust að. </p>
<p> </p>
<p>Enn hrynja vítt mín höf og fjöll mín blána </p>
<p>og himinblærinn lyftir ungum fána, </p>
<p>sem á að fylgja um aldir þeirri þjóð, </p>
<p>er þráir stærri afrek, fegri ljóð, </p>
<p>sem landi sínu vinnur ævi alla </p>
<p>og öllum stundum heyrir land sitt kalla, </p>
<p>sem ást á frelsi og ættjörð knýr hvern dag </p>
<p>að einu marki, um vilja og bræðralag. </p>
<p> </p>
<p>Svo kveð ég yður kveðju árs og friðar. </p>
<p>Mitt konungsríki eg legg í hendur yðar, </p>
<p>þér tryggu þegnar. Meðal yðar enn </p>
<p>skal Ísland finna sína bestu menn. </p>
<p>Og meðan ljósið lyftir ungu blómi </p>
<p>og líf og æska syngur einum rómi </p>
<p>og vors míns birta úr ungum augum skín, </p>
<p> við eigum samleið, ég og þjóðin mín.</p>
<p> </p>
<p>Skáld: Tómas Guðmundsson</p>
<p>Fjallkona: Alda Möller</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |
1944 - Í tilefni dagsins<p>I.</p>
<p>Sjá risinn okkar unga dag, </p>
<p>er engan leyfis spyr, </p>
<p>hann streymir eins og sólskinssær,</p>
<p> hann syngur eins og skógarblær </p>
<p>um efsta brattans blásna drag, </p>
<p>um bláar fjarðardyr. </p>
<p> </p>
<p>Ei dagur fyrr af djúpum steig </p>
<p>með dýrra hlað um brá: </p>
<p>Nú rætist eftir aldabið </p>
<p>vor ósk um líf, vor bæn um frið: </p>
<p>Við leggjum frjálsir frelsissveig </p>
<p>um fjöll vor, hvít og blá.</p>
<p> </p>
<p>Við þreyttum fyrrum fangbrögð hörð </p>
<p>við forlög öfugstreym. </p>
<p>Þá vöktu hetjur hrjáðan lýð </p>
<p>og hófu ’ið langa frelsisstríð. </p>
<p>Þær féllu sinni fósturjörð. </p>
<p>– Guðs friður sé með þeim. </p>
<p> </p>
<p>Og enn mun straumur strandir slá </p>
<p>og stormur blása um sand. </p>
<p>Þá reynist, hversu er heilt vort verk </p>
<p>og hvað vor ást er djúp og sterk. </p>
<p>– En meðan Frónið fólk sitt á, </p>
<p>á fólkið sjálft sitt land. </p>
<p> </p>
<p>II. </p>
<p>Hver breiddi á veg þinn vorsins glit, </p>
<p>um vöggu þína bjó? </p>
<p>Þín móðir, ó, þú íslensk sál, </p>
<p>hún innti þér sín leyndarmál</p>
<p>og söng þér draumsins silfurþyt </p>
<p>í sínum birkiskóg. </p>
<p> </p>
<p>Hún hló þér, barni, og bar þig inn </p>
<p>í blómaríki sín. –</p>
<p>Og vit, að hvar sem fley þitt fer, </p>
<p>í fortíð hennar rót þín er, </p>
<p>að hennar sæmd er heiður þinn </p>
<p>og hennar framtíð þín. </p>
<p> </p>
<p>Skín himinsól á hennar snæ </p>
<p>og hennar rósarblað </p>
<p>og drag þó rún í hverja hlíð, </p>
<p>að hún sé frjáls um alla tíð. </p>
<p>Ó, hefjið, bárur, söng á sæ </p>
<p>og segið henni það. </p>
<p> </p>
<p>Og far þú heiti, hraði blær </p>
<p>um hauðrið íss og bóls</p>
<p>og hrópa djarft við hamra-strönd,</p>
<p>við heiðarbrún og jökulrönd —</p>
<p>og hvísla milt við mjúkan reyr:</p>
<p>
Ó, móðir, þú ert frjáls!</p>
<p> </p>
<p>Skáld: Guðmundur Böðvarsson</p>
<p>Fjallkona: Kristjana Milla Thorsteinsson</p> | Mennta- og menningarmálaráðuneytið |